Fara í efni
Mannlíf

Tröll, húsdýr og fjöll á göngustígnum

Tröllvaxin húsgögn við göngustíginn fyrir neðan Hvamm hafa vakið mikla athygli vegfarenda. Myndir: Snæfríður Ingadóttir og Skapti Hallgrímsson

Hjóla- og göngustígurinn sem liggur á milli Akureyrar og Hrafnagils er miklu meira en venjulegur útivistarstígur. Hann er líka fullur af fróðleik, þökk sé bændunum í Hvammi sem hafa komið upp fjölda upplýsingaskilta við stíginn.

Stígurinn sem er um 7,2 km langur hefur verið mikið nýttur, bæði af gangandi og hjólandi vegfarendum, sem og af gönguskíðafólki á veturna. Bændurnir í Hvammi, þau Helga Hallgrímsdóttir og Hörður Snorrason voru eins og svo margir ánægðir með framtakið þegar þessi malbikaði stígur var lagður fyrir nokkrum árum milli Hrafnagils og Akureyrar. Hjónin vildu þó gera ennþá meira fyrir stíginn og byrjuðu á því að setja niður bekk og stein með skilti við stíginn fyrir neðan Hvamm en það var bara að upphafið á verkefni sem hefur aldeilis undið upp á sig og ekki sér fyrir endann á.

Upplýsingaskiltin við göngustíginn innihalda ýmsar áhugaverðar upplýsingar er tengjast umhverfinu og sögu Eyjafjarðar.

Gerðu bílastæði við stíginn

„Fólk lagði gjarnan bílum hér fyrir neðan Hvamm til að nýta sér stíginn. Við sáum strax að bílastæði myndi nýtast notendum stígsins vel, svo árið 2020 létum við gera bílastæði sem við sjáum um að moka á veturna þegar þess þarf. Eins er líka aðstaða til að leggja bílum við Litla Hvamm en við sjáum líka um að moka þá aðstöðu,“ segir Helga og heldur áfram. „Þetta var upphafið en svo vatt þetta upp á sig með skiltin. Mágur minn, Páll Snorrason, á eiginlega frumkvæðið að upplýsingaskiltunum og hann hefur verið með okkur í þessu eða við með honum. Og þetta hefur frekar vaxið að umfangi en hitt.“

Hörður bóndi í Hvammi fylgist með uppsetningu eins skiltanna.

Upplýsingaskilti með fróðleik úr sveitinni

Í haust fékk þríeykið verðlaun fyrir þetta áhugaverða verkefni, fyrstu hvatningarverðlaun Eyjafjarðarsveitar, fyrir óeigingjarnt framlag við að prýða umhverfi hjóla- og göngustígsins með skiltum og skúlptúrum. „Þetta er bara alls konar fróðleikur, aðallega fróðleikur sem tengist Eyjafjarðarsveit. Við Jólagarðinn er t.d. skilti um forna framfyrðinga, persónur sem ekki voru til ljósmyndir af og því þurfti að teikna upp myndir af þeim. Svo er líka skilti með framfyrðingum sem voru til á ljósmyndum, það skilti er fyrir neðan Teig,“ segir Helga og heldur áfram; „Svo létum við gera skilti um hersjúkrahúsið, eða spítalann á Hrafnagili, og eins herflugvöllinn frammi á Melgerðismelum.“

Þá eru einnig að finna fróðleiksskilti við stíginn um íslensk húsdýr eins og t.d íslensku landnámshænuna, íslensku geitina, íslenskt sauðfé og íslenska kúaliti.

„Við létum líka mynda fjallasýnina eins langt og við sjáum út eftir héðan frá Hvammi og eins frá Kroppi þar sem við eigum jörð. Það er búið að merkja inn örnefni og heitin á fjöllunum inn á þessi skilti þannig að fólk getur áttað sig betur á umhverfinu,“ segir Helga.

Tröllvaxin húsgögn

Nýlega komu upp sjö ný skilti við bílastæðið við Hvamm sem sýna gamlar vinnuaðferðir er tengjast landbúnaði. Þar skammt frá eru risavaxin húsgögn sem hafa sannarlega vakið mikla athygli vegfarenda. „Húsgögnin voru sett upp sumarið 2022 og vöktu strax mikla lukku. Fólk prílar upp á húsgögnin til að taka myndir, og það má alveg en fólk gerir það á eigin ábyrgð. Fólk er að koma hingað með nesti og sitja í stólnum og jafnvel upp á borðinu og það er bara rosa gaman að fylgjast með þessu. Í tengslum við þessi risa húsgögn var farið að skoða hvað hefði verið af tröllum hér í sveitinni. Það fundust tvær áhugaverðar tröllkonur og þær fengu sögu sína á skilti við húsgögnin.“

Gaman að gleðja

Helga segir að viðbrögð fólks við áningarstöðunum, listaverkunum og skiltunum við stíginn hafi verið góð. „Fólk er ánægt með þetta og finnst þetta mjög skemmtilegt.“ En hvað drífur þau áfram, af hverju eru þau að standa í þessu upp á sitt einsdæmi og á eigin kostnað? „Við höfum bara gaman af því að gera eitthvað skemmtilegt og gleðja vegfarendur sem leið eiga um stíginn. Við höfum líka fengið margt fólk til liðs við okkur og það hafa allir verið boðnir og búnir til að að hjálpa við þetta verkefni. Hermann Arason prentari á Akureyri hefur til dæmis séð um að hanna skiltin. Þá hafa ýmsir aðstoðað við textaskrifin og við söfnun ljósmynda. Þetta hefur verið ómetanleg hjálp. Það eru enn nokkur skilti í bígerð en framhaldið kemur síðan bara í ljós.“