Fara í efni
Mannlíf

Trillusjómaður þar til hann varð læknir

Myndir úr Sjúkrahússpóstinum, nýju fréttabréfi Sjúkrahússins á Akureyri

Alexander Kristinn Smárason, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir við Sjúkrahúsið á Akureyri og prófessor við Háskólann á Akureyri, bjó í æsku á Hellissandi og Rifi á Snæfellsnesi. Öll sumur frá 15 ára aldri var hann trillusjómaður, allt þar til hann fór að vinna sem læknir.

Stutt en skemmtilegt viðtal er við Alexander Kristin í Sjúkrahússpóstinum, nýju fréttabréfi Sjúkrahússins á Akureyri, sem ætlað er veita bæði starfsfólki og almenningi innsýn í „þá fjölbreyttu, faglegu og metnaðarfullu starfsemi sem fram fer á Sjúkrahúsinu á Akureyri,“ eins og segir á vef stofnunarinnar.

Efni fyrsta tölublaðs Sjúkrahússpóstsins er fjölbreytt og fróðlegt en hér skal áfram haldið sögunni um Alexander. Í fréttabrefinu segir um hann:

Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri, lauk Læknaprófi frá Háskóla Íslands og doktorsprófi frá Háskólanum í Oxford, var í sérfræðinámi í Oxford og tók sérfræðipróf í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum frá Royal College of Obstetricians and Gynaecologists London, Englandi. Hann hóf störf á SAk 1999 og var forstöðulæknir 2002 til 2025. Í félagsmálum hefur hann verið formaður félags íslenskra fæðinga og kvensjúkdómalækna og starfað lengi  innan samtaka félaga fæðinga og kvensjúkdómalækna á Norðurlöndunum og er núna forseti sambandsins.

Ætlaði ekki að verða kvensjúkdómalæknir!

Inntur eftir því hvað hann vildi verða þegar hann yrði stór er ljóst að það hvarflaði ekki að ungum Alexander að hann yrði fæðinga- og kvensjúkdómalæknir: „Mig langaði að verða jarðfræðingur þegar ég yrði stór, sem breyttist á menntaskólaaldri í að ég ákvað að verða læknir – þó ekki kvensjúkdómalæknir! Það breyttist eftir þrjú ár í læknisfræði, í rannsóknum á ónæmisfrumum í blóði og legi þungaðra kvenna. Þá var ég að hugsa um að verða lyflæknir með sérhæfingu í vandamálum á meðgöngu, en slíkt sérnám var ekki til, svo ég valdi að verða fæðingarlæknir með áherslu á meðgöngusjúkdóma. Í sérnámi lagði ég áherslu á rannsóknir á meðgöngueitrun, að annast konur með  mismunandi meðgöngusjúkdóma og vandamál tengd fóstrinu (maternal og fetal medicine).“

Vísindavinna skemmtileg

Rannsóknarefni Alexanders nú er þróun þyngdar og þyngdaraukningar kvenna á meðgöngu og áhrif á útkomu fæðinga og áhrif geðlyfja á útkomu fæðinga. „Ég er í doktorsnefndum nema sem eru að rannsaka andvanafæðingar og vöxt/fæðingarþyngd íslenskra fóstra/barna. Fagrýni fæðinga hér á SAk og á Íslandi með áherslu á notkun á fagrýni með 10 hópa kerfi Robsons. Ég er því tengt einn af ritstjórum fæðingarskrárinnar á Íslandi og fulltrúi Íslands í Europeristat.“

Alexander segir vísindavinnu skemmtilega: „Ég hef alltaf verið mjög forvitinn og langaði að skilja alla hluti. Síðan finn ég og trúi að rannsóknir séu grunnur framfara í heilbrigðisþjónustu.“

Er með veiðibakteríuna

Utan vinnu segist Alexander hafa gaman af því að lesa bækur og það hafi verið mikil breyting þegar hann hætti að lesa læknisfræði á kvöldin „Þegar tækifæri gefst heimsækjum við börn og barnabörn í Reykjavík og London. Ég nýt þess að hlusta á klassíska tónlist og hef gaman af því að smíða og ditta að heima. Ég er með veiðibakteríuna, hnýti flugur á veturna og reyni að komast í veiði á sjó og í ám á sumrin.“