Tré, jólaljós og regnhlífar – MYNDIR
Fjöldi fólks lagði leið sína á Ráðhústorg síðdegis í dag, laugardag, þegar ljósin voru tendruð á jólatrénu. Aðstæður voru ekki hefðbundnar ef svo má segja; átta stigi hiti og rigning og í stað þess að hnoða snjókúlur eins og svo oft áður skemmti yngsta kynslóðin sér við að hoppa og hlaupa í pollum!
Ákveðið var að halda í þá hefð að vinabæirnir Randers í Danmörku og Akureyri á Íslandi skiptist á jólakveðjum á aðventunni og er tréð afhent af sendiherra Danmerkur á Íslandi, Kirsten Rosenvold Geelan, þótt það hafi að þessu sinni verið fellt í bæjarlandinu til að minnka kolefnissporið. Kirsten flutti Akureyringum kveðju frá vinabænum Randers og Elma Eysteinsdóttir bæjarfulltrúi flutti einnig ávarp.
Að þessu sinni var það Stefán Jens Tómasson, sem er aðeins þriggja ára, sem tendraði ljósin á trénu fyrir hönd Norræna félagsins á Akureyri.
Jólasveinar voru á staðnum og Barna- og æskulýðskórar Glerárkirkju sungu nokkur hátíðleg lög undir stjórn Margrétar Árnadóttur, við undirleik Valmars Väljaots.
Áður en formleg dagskrá hófst lék Lúðrasveit Akureyrar nokkur létt jólalög undir stjórn Sóleyjar Bjarkar Einarsdóttur.
Regnhlíf var þarfasti þjónn dagsins að mati margra á Ráðhústorgi.
Elma Eysteinsdóttir bæjarfulltrúi, Tómas Páll Stefánsson með soninn Stefán Jens, Stekkjastaur, Kirsten Rosenvold Geelan sendiherra Dana á Íslandi og Helgi Jóhannesson konsúll Dana á Akureyri. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson