Tónlistarbingó fyrir Norðurljósasjóðinn

Stafrænt góðgerðar tónlistarbingó verður haldið í Skógarböðunum annað kvöld, föstudagskvöldið 28.mars, á vegum Ladies Circle og Round Table klúbba á Akureyri. Bingóið hefst kl. 21.00 og bingóstjórar verða Ágúst og Tinna, norðanfólkið sem tók þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins á dögunum.
Tónlistarbingóið verður haldið ofan í böðunum í símanum með stafrænum bingóspjöldum. „Til að tryggja sér pláss á viðburðinn þá er að hægt að panta bingóspjald á TIX.IS og aðgang í böðin á www.forestlagoon.is. Yfir 200 glæsilegir vinningar eru í boði svo gestir geta átt von á að koma út í plús eftir kvöldið,“ segir í tilkynningu.
Norðurljósasjóður
Allur ágóði bingóspjalda rennur beint í Norðurljósasjóð sem er ætlaður börnum og ungmennum á Norður- og Norðausturlandi sem eru að takast á við sorg í kjölfar ástvinamissis eða langvinn veikindi hjá sér eða nákomnum ástvinum.
Sjóðurinn greiðir fyrir viðtalsmeðferð og er ætlaður þeim sem hafa ekki tök á að standa undir kostnaði þjónustunnar og ekki fundið sig í þeirri opinberu þjónustu sem þeim hefur verið úthlutað.
„Það er fátt betra en að njóta góðrar skemmtunar og vita að um leið ertu að hjálpa börnum og ungmennum sem þurfa á stuðningi að halda! Við bjóðum öllum að koma og láta gott af sér leiða á meðan þeir slaka á, en á sama tíma í rífandi stemningu í hinum dásamlegu Skógarböðum,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum viðburðarins.
Hér er hægt að kaupa bingóspjald á tix.is
Hér er hægt að bóka sig í Skógarböðin, sem bjóða öllum bingógestum fast verð, 6.000 kr, með kóðanum LCBINGO2025
Þeim sem vilja styrkja Norðurljósasjóð er bent á að tekið er við frjálsum framlögum, hér eru reikningsupplýsingar:
Kennitala: 550115-0930
Bankaupplýsingar: 0565 – 14 – 002569