Tilfinningarússíbani tvíburaforeldra
Veitingastaðurinn DJ grill býður upp á góðgerðarborgarann Big Red á matseðlinum hjá sér á næstunni. Allur ágóði af sölu borgarans rennur til styrktar tvíburaforeldrunum Birgi Þór Þrastarsyni og Rannveigu Þorsteinsdóttur sem eignuðust drengi í desember, eftir 25 vikna meðgöngu, og hafa þurft að dvelja langdvölum syðra með tilheyrandi vinnutapi, kostnaði og miklu skipulagi og tilstandi vegna þessa óvænta rasks á fjölskylduhögunum.
Í GÆR: BIG RED-BORGARINN FYRIR BIGGA RAUÐA
Litla fjölskyldan sem stækkaði óvænt um þremur mánuðum áður en áformað var. Rannveig Þorsteinsdóttir, Þröstur Máni og Birgir Þór Þrastarson. Myndin er af Facebook-síðu Rannveigar.
Í lok október birtu þau mynd á Facebook og tilkynntu um kyn tvíburanna, sem þau áttu von á í mars. Líklega grunaði þau ekki þá að fæðingardagur drengjanna yrði 7. desember, sléttum sex vikum síðar. Þau Rannveig og Birgir Þór eiga fyrir einn son, Þröst Mána, sem verður fjögurra ára í apríl. Hann hefur dvalið langdvölum hjá ömmu sinni og afa á Akureyri á meðan Birgir og Rannveig dvelja fyrir sunnan.
Big Red fyrir Bigga rauða
Eins og gefur að skilja er það auðvitað ekki að ástæðulausu að góðgerðarborgarinn varð til og nafnið Big Red ekki tilviljun. Einn af þeirra uppáhalds, eins og það er orðað í auglýsingu, er Biggi rauði, eins og Birgir Þór er oft nefndur með tilvísun í háralitinn. Hugsanlegt að spjöld frá fótboltaferlinum hafi eitthvað með viðurnefnið að gera líka. Það vill reyndar svo skemmtilega til að tengdapabbi Bigga, Þorsteinn Veigar Árnason, var lengi knattspyrnudómari og fyrir ekki svo löngu síðan fetaði Biggi í fótspor hans og gefur nú öðrum spjöld í stað þess að þiggja þau sjálfur.
„Þær eru fáar vikurnar sem hann hefur ekki droppað við síðan við opnuðum, fyrir að verða 15 árum!“ segir meðal annars í auglýsingunni frá DJ grilli þar sem eigendur ákváðu að bjóða upp á sérstakan borgara, Big Red, í anda Bigga rauða og mun allur ágóði af sölu borgarans fara í stuðning við fjölskylduna.
Læknarnir hissa og Biggi skildi ekkert
Tvíburafæðingin gerði reyndar boð á undan sér, eða eitthvað í þá áttina. Í lok nóvember var allt venjulegt í sónarskoðun, „en þann dag fór Rannveig að finna fyrir verkjum og var lögð inn þann dag á Sjúkrahúsið á Akureyri,“ eins og þau segja í fyrsta pistlinum af nokkrum sem þau hafa birt á Facebook-síðum sínum til upplýsingar fyrir ættingja og vini. Þetta sama kvöld fór að leka smá legvatn og voru þau þá flutt suður með sjúkraflugi, greinilegt að tvíburnarnir væru líklegir til að flýta sér í heiminn, aðeins liðnar 25 vikur af meðgöngunni.
Í pistlinum 1. desember kemur fram nokkur óvissa um framhaldið, tvíburarnir aldrei verið betri, nóg af legvatni og Rannveig bara nokkuð góð. Biggi kvaðst ekkert skilja og læknarnir væru hissa yfir öllu og hvorki lekið né Rannveig verið með verki. Þá vissu þau ekki hvort tvíburarnir kæmu daginn eftir eða eftir tvo mánuði. Þá var strax orðið ljóst að Rannveig fengi ekki að fara heim fyrr en tvíburarnir væru komnir í heiminn, hvort sem það yrði eftir viku eða tvo mánuði. Settur dagur var í mars.
Lífið sett á bið
Þröstur Máni stóri bróðir bregður á leik á Landspítalanum.
„En við þurfum að vera til staðar fyrir litlu hetjurnar svo þetta púsluspil fer allt vel meðan allir eru heilir og frískir, vissulega skrítin jól og allt það er þau koma aftur!“ Þau tóku þau ákvörðun að gefa ekki jólagjafir að þessu sinni og vildu þá gjarnan ekki þiggja neitt í staðinn. En prinsinn sjálfur, Þröstur Máni, var hins vegar tilbúinn í allar þær gjafir sem hægt var að fá, eins og pabbi hans orðaði það.
Birgir Þór og Þröstur Máni brugðu sér heim til Akureyrar 5. janúar. Mikilvægt að drengurinn komist í rútínu, hitti krakkana á leikskólanum og hann verður hjá afa og ömmu í einhvern tíma.
Birgir skrapp norður með eldri soninn 5. janúar, Þröstur Máni fór í sitt fyrsta innanlandsflug sem var mjög spennandi, Biggi náði að hitta móður sína og heilsa upp á vel valið fólk, eins og hann orðar það í pistlinum 10. janúar. Þau vildu koma Þresti Mána á leikskólann, þó hann væri ósammála, og hann verður í umsjá afa síns og ömmu í einhverja daga.
Nöfn, fæðingardagur og tími, þyngd, stærð og höfuðmál að eilífu greypt í hold föðurins.