Fara í efni
Mannlíf

Tilfinningarússíbani tvíburaforeldra

Big Red-góðgerðarborgarinn fæst á DJ grill. Birgir Þór Þrastarson stundar það meðal annars að dæma knattspyrnuleiki, en hann er í öllu erfiðara verkefni þessar vikurnar. Myndir af Facebook-síðu Birgis.

Veitingastaðurinn DJ grill býður upp á góðgerðarborgarann Big Red á matseðlinum hjá sér á næstunni. Allur ágóði af sölu borgarans rennur til styrktar tvíburaforeldrunum Birgi Þór Þrastarsyni og Rannveigu Þorsteinsdóttur sem eignuðust drengi í desember, eftir 25 vikna meðgöngu, og hafa þurft að dvelja langdvölum syðra með tilheyrandi vinnutapi, kostnaði og miklu skipulagi og tilstandi vegna þessa óvænta rasks á fjölskylduhögunum.

Í GÆR: BIG RED-BORGARINN FYRIR BIGGA RAUÐA


Litla fjölskyldan sem stækkaði óvænt um þremur mánuðum áður en áformað var. Rannveig Þorsteinsdóttir, Þröstur Máni og Birgir Þór Þrastarson. Myndin er af Facebook-síðu Rannveigar. 

Í lok október birtu þau mynd á Facebook og tilkynntu um kyn tvíburanna, sem þau áttu von á í mars. Líklega grunaði þau ekki þá að fæðingardagur drengjanna yrði 7. desember, sléttum sex vikum síðar. Þau Rannveig og Birgir Þór eiga fyrir einn son, Þröst Mána, sem verður fjögurra ára í apríl. Hann hefur dvalið langdvölum hjá ömmu sinni og afa á Akureyri á meðan Birgir og Rannveig dvelja fyrir sunnan. 

Big Red fyrir Bigga rauða

Eins og gefur að skilja er það auðvitað ekki að ástæðulausu að góðgerðarborgarinn varð til og nafnið Big Red ekki tilviljun. Einn af þeirra uppáhalds, eins og það er orðað í auglýsingu, er Biggi rauði, eins og Birgir Þór er oft nefndur með tilvísun í háralitinn. Hugsanlegt að spjöld frá fótboltaferlinum hafi eitthvað með viðurnefnið að gera líka. Það vill reyndar svo skemmtilega til að tengdapabbi Bigga, Þorsteinn Veigar Árnason, var lengi knattspyrnudómari og fyrir ekki svo löngu síðan fetaði Biggi í fótspor hans og gefur nú öðrum spjöld í stað þess að þiggja þau sjálfur.

„Þær eru fáar vikurnar sem hann hefur ekki droppað við síðan við opnuðum, fyrir að verða 15 árum!“ segir meðal annars í auglýsingunni frá DJ grilli þar sem eigendur ákváðu að bjóða upp á sérstakan borgara, Big Red, í anda Bigga rauða og mun allur ágóði af sölu borgarans fara í stuðning við fjölskylduna. 

Læknarnir hissa og Biggi skildi ekkert

Tvíburafæðingin gerði reyndar boð á undan sér, eða eitthvað í þá áttina. Í lok nóvember var allt venjulegt í sónarskoðun, „en þann dag fór Rannveig að finna fyrir verkjum og var lögð inn þann dag á Sjúkrahúsið á Akureyri,“ eins og þau segja í fyrsta pistlinum af nokkrum sem þau hafa birt á Facebook-síðum sínum til upplýsingar fyrir ættingja og vini. Þetta sama kvöld fór að leka smá legvatn og voru þau þá flutt suður með sjúkraflugi, greinilegt að tvíburnarnir væru líklegir til að flýta sér í heiminn, aðeins liðnar 25 vikur af meðgöngunni. 

Í pistlinum 1. desember kemur fram nokkur óvissa um framhaldið, tvíburarnir aldrei verið betri, nóg af legvatni og Rannveig bara nokkuð góð. Biggi kvaðst ekkert skilja og læknarnir væru hissa yfir öllu og hvorki lekið né Rannveig verið með verki. Þá vissu þau ekki hvort tvíburarnir kæmu daginn eftir eða eftir tvo mánuði. Þá var strax orðið ljóst að Rannveig fengi ekki að fara heim fyrr en tvíburarnir væru komnir í heiminn, hvort sem það yrði eftir viku eða tvo mánuði. Settur dagur var í mars. 

Lífið sett á bið

Þetta setur nú allt lífið svolítið á bið en meðan þeir eru góðir þá erum við ánægð og þetta er bara verkefni sem við tökum með gleði meðan allir eru heilbrigðir! Þröstur litli er búinn að vera hjá ömmu og afa á meðan og finnst það ekki slæmt! En planið okkar núna er að ég fer norður núna og verð í viku heima meðan Rannveig verður hérna á Landspítalanum þangað til að hún kemst á sjúkrahótelið 6. desember, skrifar Birgir í pistlinum 1. desember. 
 
Ætlunin var að þeir feðgar færu aftur suður og þau yrðu öll þrjú saman á sjúkrahótelinu til 13. desember, fengju þá íbúð til 20. desember og svo aðra íbúð frá 20.-27. desember, framhaldið skoðað síðar. Fjölskyldan yrði í Reykjavík um jól og áramót, „sem verður eitthvað alveg nýtt en meðan við verðum saman þá bjargast þetta allt saman!“ skrifar hann einnig. Þau sáu svo líka jákvæðu punktana og bentu á að ef fólk vantaði íbúð á Akureyri um jól og áramót mætti endilega heyra í þeim og þau gætu fundið eitthvað gott úr úr því.
 
En svo breyttist allt nokkrum dögum síðar. 
 
Birgir Þór með annan tvíburanna á bringu sér á mynd sem hann birti 21. desember, á tveggja vikna afmæli tvíburanna. Til hægri eru þeir nokkurra daga gamlir í öndunarvélum. Myndirnar með fréttinni eru af Facebook-síðu Birgis Þórs.
Þann 7. desember klukkan þrjú að nóttu komu tvíburarnir í heiminn. Fæðingin gekk mjög vel og fór eðlilega fram, tók ekki nema 20 mínútur. Birgir nefndi auðvitað að Rannveig hafi staðið sig eins og hetja, en drengirnir voru eðlilega smávaxnir þar sem þeir áttu ekki að koma strax, vógu 1.050 g og 976 g. Í pistli fimm dögum eftir fæðinguna tilkynnti Birgir um þennan þennan merka viðburð sem fæðingin var. 
 
Birgir hrósaði starfsliði Landspítalans sem hann sagði hafa staðið sig ótrúlega vel og drengirnir döfnuðu frábærlega eins og staðan var þá á fimmta degi. Fram undan hjá þeim var dvöl í Reykjavík næstu þrjá mánuði, það var klárt. Foreldrar Rannveigar voru þeim líka frábær hjálp þegar Þröstur Máni mætti aftur suður. 
 

Þröstur Máni stóri bróðir bregður á leik á Landspítalanum.

„En við þurfum að vera til staðar fyrir litlu hetjurnar svo þetta púsluspil fer allt vel meðan allir eru heilir og frískir, vissulega skrítin jól og allt það er þau koma aftur!“ Þau tóku þau ákvörðun að gefa ekki jólagjafir að þessu sinni og vildu þá gjarnan ekki þiggja neitt í staðinn. En prinsinn sjálfur, Þröstur Máni, var hins vegar tilbúinn í allar þær gjafir sem hægt var að fá, eins og pabbi hans orðaði það. 

Þriðja íbúðin á þremur vikum
 
Skömmu fyrir jól fluttu þau Birgir og Rannveig í þriðju íbúðina á þremur vikum, en voru þá komin með umsókn hjá Landspítalanum um að fá íbúð eftir áramótin. Tvíburarnir þá orðnir tveggja vikna og allt gekk mjög vel, krílin að standa sig eins og hetjur og báðir lausir úr öndunarvél. Þeim gekk vel án hennar, en það eru hæðir og lægðir, eins og Birgir orðaði það í pistlinum 21. desember, „en fleiri hæðir, þeir eru að þyngjast og byrjaðir að gefa frá sér hljóð og opna augun, sem eru frábær lítil skref,“ skrifar hann og heldur áfram: „Tilfinningarússíbani foreldranna heldur áfram og álagið er mjög skrítið og getur tekið á dag frá degi. En okkur líður vel meðan þeir eru heilbrigðir og hressir!“
 
En lífið var og er engu að síður eitt stórt pússluspil, eldri bróðirinn þarf að sjálfsögðu athygli og umhyggju enda finnst honum þetta allt saman eflaust mjög skrítið, eins og Birigir orðaði það. Þau fengu mikla hjálp frá foreldrum Rannveigar og fleirum enda væri svona varla gerlegt án þannig aðstoðar „og sýnir að maður á góða að,“ skrifaði hann einnig 21. desember. Þau þökkuðu öllum sem höfðu gert eitthvað fyrir þau og kváðust verða ævinlega þakklát.
 
Erfitt og skrítið, en bjartsýni á nýju ári
 
Fjölskyldan dvaldi á Sjúkrahóteli Landspítalans um áramótin og hafði það fínt að sögn Birgis í nýárspistlinum upp úr hádegi þann 1. janúar. Hann segir strákana hafa staðið sig mjög vel í heildina, en þó komi dagar sem eru ekki jafn góðir, þeir hafi verið með og án öndunarvélar til skiptis og það taki vel á foreldrana, en gott að þeir dagar séu fáir.
 
Strákarnir „stækka og þyngjast eðlilega svo þeir standa sig eins og hetjur!“ skrifar Birgir á nýársdag. Það gekk því miður ekki að fá íbúð á vegum Landspítalans, en þau hafa fengið inni í íbúðum hjá Einingu-Iðju með stoppum á hótelinu inn á milli og planið fyrir janúar klárt, þökk sé Einingu-Iðju. Þröstur Máni fór norður til afa og ömmu og gott fyrir hann að komast í rútínu og hitta krakkana á leikskólanum, að sögn Birgis. „En þetta líf er mjög skrítið, erfitt að geta gert lítið fyrir strákana sína nema sitja hjá þeim og spjalla og tilfinningar eftir því upp og niður, en almennt erum við bara góð! Allt tekur þetta á andlegu hliðina og veskið, en þeir sem þekkja mig vita að ég er alltaf jákvæður og bjartsýnn. Við verðum komin heim áður  en við vitum af!“ skrifar hann með bjartsýnisblæ.
 
Síflutningafólk á sjúkrahóteli og í íbúðum
 
Þegar hér er komið sögu er erfitt að ná utan um það hve oft þau hafa þurft að flytja á þeim rúmum fimm vikum sem liðnar eru frá fæðingu tvíburanna. Eftir að hafa verið tvær vikur á Sjúkrahótelinu fengu þau íbúð í tíu daga, en næsti mánuður stefnir í að verða dálítið púsluspil milli íbúða og hótels. Það bjargast allt saman, skrifar Biggi, þar sem þau verji hvort eð er mestum tíma sínum hjá strákunum. 
 

Birgir Þór og Þröstur Máni brugðu sér heim til Akureyrar 5. janúar. Mikilvægt að drengurinn komist í rútínu, hitti krakkana á leikskólanum og hann verður hjá afa og ömmu í einhvern tíma. 
 

Birgir skrapp norður með eldri soninn 5. janúar, Þröstur Máni fór í sitt fyrsta innanlandsflug sem var mjög spennandi, Biggi náði að hitta móður sína og heilsa upp á vel valið fólk, eins og hann orðar það í pistlinum 10. janúar. Þau vildu koma Þresti Mána á leikskólann, þó hann væri ósammála, og hann verður í umsjá afa síns og ömmu í einhverja daga. 

Drengirnir fá nöfn
 
Í sama pistli upplýsir Birgir að drengirnir séu búnir að fá nöfn. Tvíburi A hefur fengið nafnið Mikael Myrkvi og sá yngri, Tvíburi B, heitir Bjartur Logi. „Þeir standa sig mjög vel og er Mikael búinn að vera án öndunarvélar í einhvern tíma og er kominn úr kassanum góða og í vöggu, Bjartur er aðeins að erfiða, þurfti að fara aftur í öndunarvél svo bróðir hans bíður bara í vöggunni eftir honum! Það hefur ekkert stórt komið uppá svo það eru gleðifréttir og þyngjast þeir og stækka alveg eðlilega! Algjörar hetjur og sér maður mun á þeim milli vikna!“ skrifar Biggi daginn áður en þeir urðu fimm vikna gamlir.
 

Nöfn, fæðingardagur og tími, þyngd, stærð og höfuðmál að eilífu greypt í hold föðurins.
Þau áttu jákvætt samtal við lækni um það hvernig drengirnir hefðu staðið sig, en ekki er reiknað með heimkomu fyrr en í fyrsta lagi í viku 38 af meðgöngunni, um mánaðamótin febrúar og mars. „Þetta skrítna ferðalag hérna í borginni heldur eitthvað áfram,“ skrifar hann.„ Auðvitað fylgir því fullt af tilfinningum alla daga en við erum bara bjartsýn og lífið heldur áfram!“ 
 
Eitt er alveg klárt í huga Bigga: Tvíburarnir verða gallharðir Þórsarar!
 
Risastórt takk!
 
Þau Birgir Þór og Rannveig vilja einnig þakka öllum sem hafa haft samband í einhverju formi eða veitt þeim stuðning. Þau segja ómetanlegt að finna fyrir stuðningnum því vissulega séu þetta aðstæður sem krefjist mikils af þeim sem foreldrum, að vera í burtu að heiman og pússla þessu öllu saman, hvort sem það er andlega, fjárhagslega eða á annan hátt, en... „ég segi alltaf, ef það er í lagi með þá er í lagi með okkur!“
 
Birgir vill einnig koma á framfæri þökkum til Knattspyrnudómarafélags Norðurlands, KDN, og DJ grills vegna sölunnar á Big Red. Fjölskyldur beggja eru svo auðvitað aðalstyrktaraðilinn og stoðirnar í þessu stóra verkefni. „Risastórt takk!“