Fara í efni
Mannlíf

Til þess að merkja fugl, þarf að handsama hann

Sverrir Thorstensen, fuglamerkingamaður og fyrrum náttúrufræðikennari við störf sín í fuglamerkingum. Mynd: Eyþór Ingi Jónsson

Sverrir Thorstensen situr í stofunni heima hjá sér, í Lönguhlíð á Akureyri, ásamt blaðamanni Akureyri.net Hann segir frá því þegar hann og Þórey Ketilsdóttir, kona hans og ferðafélagi, völdu sér hús á Akureyri eftir að búa árum saman í Stórutjarnarskóla í Ljósavatnsskarði sem kennarar og staðarhaldarar. 

Þetta var árið 1993 og þá sást ekkert hér út nema mynni Glerárdalsins og kindur á beit.

„Við skoðuðum ótal hús,“ rifjar hann upp. „Fasteignasalinn hélt alltaf að hann væri búinn að finna fullkomna íbúð fyrir okkur, en oft var Þórey varla komin inn fyrir þegar hún afskrifaði staðinn. Loksins, þegar við komum inn í Lönguhlíðina, var annað hljóð í henni. Ég man að hún gekk að glugganum hérna, þessum stóra, og horfði út. Svo gekk hún út á svalirnar, sem snúa í suður. Þetta var árið 1993 og þá sást ekkert hér út nema mynni Glerárdalsins og kindur á beit. Hún sagði strax að hér vildi hún búa.“ Síðan hafa hjónin búið í Þorpinu með syni sína þrjá, sem eru löngu flognir úr hreiðrinu. Sverrir hefur búið einn síðan árið 2021, þegar Þórey lést eftir erfið veikindi.

Í stofunni í Lönguhlíðinni er stór sjónauki, sem Sverrir notar til þess að fylgjast með smáfuglunum sem fá sér í gogginn í garðinum. Mynd RH

Lífríki náttúrunnar er stöðug uppspretta áhuga og aðdáunar fyrir Sverri. Ungur kafaði hann í allar náttúrufræðibækur sem hann gat fundið og eyddi frítíma sínum utandyra. Í dag er hann einn afkastamesti fuglamerkingamaður landsins, en nýlega hélt hann erindi á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar um störf sín. Þar kom fram að hann sé búinn að merkja u.þ.b. 110.000 fugla af 74 tegundum. Sagan af því, hvernig Sverrir leiddist út í fuglamerkingar, einkennist af brennandi áhuga.

Ótalmargir fuglar prýða heimili Sverris. Fuglaáhuginn hefur bersýnilega verið vinum og vandamönnum innblástur þegar þarf að velja gjafir handa hjónunum. Mynd RH

Þegar við vorum flutt inn og byrjuð að kenna, þarna haustið 1971, var fuglaforvitni eiginlega áhugamálið mitt

Sverrir og kona hans, Þórey Ketilsdóttir, voru bæði nýlega útskrifuð úr Kennaraskóla Íslands, þegar þeim bauðst báðum kennslustarf og íbúð í nýbyggðum Stórutjarnarskóla í Ljósavatnsskarði. „Þegar við vorum flutt inn og byrjuð að kenna, þarna haustið 1971, var fuglaforvitni eiginlega áhugamálið mitt,“ segir Sverrir. „Hvar eru þessir krummar að verpa? Hvaða fuglar verpa hér og hverjir ekki? Ég byrjaði þarna fljótlega að velja mér einhverjar tegundir sem ég fór að kortleggja. Ég kíkti í klettasprungur og gil í leit að krumma og skógarreiti til þess að telja skógarþresti, sem dæmi.“

Sverrir og lítill glókollur horfast í augu. Mynd: Eyþór Ingi Jónsson

Blaðamaður undrar sig á því hvernig Sverri tókst að þekkja einn skógarþröst frá öðrum, til þess að telja þá. „Það er ekkert hægt að þekkja þá í sundur,“ segir hann og brosir út í annað. „Ég fór á varptíma, til þess að finna hreiður og telja eggin. Hjá fuglum eins og hrafni, smyrli og fálka, getur maður fundið varpstaði vegna þess að þeir fara að láta mjög illa þegar þú nálgast hreiðrin.“

Hún hafði áhyggjur af því að ég væri að príla í klettum og vappa í kring um tjarnir eða leita að hreiðrum í skógum eins og barn. En það slyppi nú til, vegna þess að Þórey væri alveg eðlileg.

Árið 1979 er Sverrir farinn að þekkja fuglalífið í Ljósavatnsskarði, Bárðardal, Kinninni og Fnjóskadal ansi vel. „Það er svo eiginlega fyrir tilviljun að ég kynnist Ævari Pedersen fuglafræðingi hjá Náttúrufræðistofnun. Hann hélt utan um fuglamerkingar á landsvísu og hann stakk upp á því, að fyrst ég væri nú á annað borð að þvælast þetta að fylgjast með fuglum, hvort ég vildi ekki taka þátt í merkingum. Það stóð ekki á mér.“

Sverrir merkir skógarþröst, sem hefur útbúið hreiður á óhefðbundnum stað. Mynd úr safni Sverris

„Þessi hegðun mín, að fylgjast svona náið með fuglunum á svæðinu, þótti heldur óvenjuleg,“ segir Sverrir og brosir. „Ein kona í Bárðardal orðaði þetta svolítið skemmtilega, en hún sagðist hafa töluverðar áhyggjur af mér. Að ég væri að eyða tímanum á sumrin og vorin að príla í klettum og vappa í kring um tjarnir eða leita að hreiðrum í skógum eins og barn. En það slyppi nú til, vegna þess að Þórey væri alveg eðlileg. Hún notaði þó sumarfríið til þess að hjálpa til í búskapnum á Halldórsstöðum og gerði gagn.“ Sverrir tekur fram að svona athugasemdir hafi aldrei sært hann neitt, honum þyki þetta fyndið. „Mér liði mjög illa dagsdaglega ef ég ætlaði að taka svona lagað nærri mér.“

Fólk á það til, að gefa fuglum mannsnafn, eða eitthvað slíkt, en það hef ég aldrei gert

Krummi gamli er svartur, og krummi er fuglinn minn, orti Davíð Stefánsson eftirminnilega, og líkir myrkri manneskjunnar við hrafninn í ljóðabók sinni ‘Svartar fjaðrir’. Það er mikill munur á því hvort að það er skáld, eða vísindamaður á borð við Sverri, sem nálgast fugla.

„Dýrin lifa á allt öðrum forsendum en við,“ segir Sverrir, þegar talið berst að því að tengjast fuglunum á einhverju persónulegu sviði. „Fólk á það til, að gefa fuglum mannsnafn, eða eitthvað slíkt, en það hef ég aldrei gert. Auðvitað, eftir að ég hóf að merkja, hitti ég oft sömu einstaklingana aftur og aftur. Ég hef líka farið að taka eftir karaktereinkennum sem ganga í erfðir, sérstaklega hjá álftum. En að skíra þá og persónugera, hef ég ekki tekið upp á.“

Til þess að merkja fugl, þarf að handsama hann.

„Ja, það eru náttúrlega margar djöfullegar aðferðir, sem ég hef notað til þess að handsama fugla,“ segir Sverrir. Hann segist ekki vera eins og Mjallhvít, sem geti bara farið að syngja og þá setjist fuglar á axlirnar á honum og rauli með.

  • Á MORGUN„Það var svo margt, sem við vissum ekki um fuglana“

Sverrir er hér búinn að fanga sjófugl til merkingar, myndin er tekin í Flatey á Breiðafirði sem er mikil fuglaparadís. Mynd: Eyþór Ingi Jónsson