Til heiðurs Burns: Gie her a Haggis!
Robert Burns, hið ástsæla þjóðskáld Skota, leit fyrst dagsins ljós 25. janúar það Herrans ár 1759. Fæðingardegi hans hefur lengi verið fagnað víða um heim og menningarbærinn Akureyri er þar að sjálfsögðu engin undantekning. Maltviskífélag Norðurlands stendur í kvöld fyrir Burns Night eins og undanfarin ár, samkomu sem stundum hefur verið nefnd Burns-nótt; þar er sungið, dreypt á viskíi og síðast en ekki síst etið haggis; skoskur réttur sem svipar til sláturs, en er betri að margra mati.
Stemningin var framúrskarandi á Burns Night þegar Akureyri.net var þar fluga á vegg um hríð í kvöld. Magnús Ö. Friðriksson meistarakokkur eldaði réttinn frá grunni ásamt föður sínum, Friðrik Magnússyni, og áður en dásemdin var snædd bar Magnús einn, stóran kepp í salinn með viðhöfn, Rachael Lorna Johnstone lék á fiðlu sína og í halarófunni upp að sviðinu var einnig Guðjón Ólafsson sem þar flutti hið þekkta ljóð Burns, Address to a Haggis, með miklum tilþrifum.
Lokaerindið í bálki Burns er svohljóðandi:
Ye Pow’rs wha mak mankind your care,And dish them out their bill o’ fare,Auld Scotland wants nae skinking wareThat jaups in luggies;But, if ye wish her gratefu’ prayer,Gie her a Haggis!
Kvæðið er til í enskri þýðingu svo nútímamaðurinn skilji um hvað málið snýst:
You powers, who make mankind your care,And dish them out their bill of fare,Old Scotland wants no watery stuff,That splashes in small wooden dishes;But if you wish her grateful prayer,Give her a Haggis!
Í lokaerindinu ber Burns þeim sem sjá mannkyninu fyrir fæðu þann boðskap að Skotar láti ekki bjóða sér hvað sem er. Vilji þeir gleðja hina skosku þjóð sé ráðlegt að bera henni haggis. Þar með verði ævarandi þakklæti hennar tryggt.
Meira um Burns Night síðar
Skál! Daníel Starrason, Guðjón Ólafsson, Magnús Ö. Friðriksson, Rachael Lorna Johnstone og Bjarni Helgason. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
Snorri Guðvarðsson, formaður Maltviskífélags Norðurlands, stjórnaði tónlistinni eins og jafnan þar sem hann er niðurkominn!