Þrjú „Akureyrarlög“ í Söngvakeppninni
Eitt af því sem sameinar stóran hóp Íslendinga ár hvert fyrir framan sjónvarpstækin, er Söngvakeppni evrópskra sjónvarsstöðva og undankeppni hennar, Söngvakeppni sjónvarpsins. Búið er að tilkynna lög og þáttakendur keppninnar í ár, en tíu lög munu etja kappi, fimm í senn, í tveimur undankeppnum á RÚV, 8. febrúar og 15. febrúar. Þjóðin kýs þrjú lög úr hvorri undankeppni með símakosningu, en úrslitin fara fram þann 22. febrúar, þar sem við kjósum framlag Íslands til stóru keppninnar. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram í Basel í Sviss í maí.
Okkur á Akureyri.net reiknast svo til um, að þrjú lög í keppninni í ár eigi tengingu við Akureyri. Lagið Eins og þú, í flutningi Húsvíkingsins Ágústs Þórs Brynjarssonar, er eitt af þeim. Ágúst er búsettur á Akureyri, en einnig er einn af höfundum lagsins héðan; Hákon Guðni Hjartarson. Lagið Norðurljós, í flutningi BIU, hefur einnig tengingu hingað, þar sem tvö í höfundateyminu eru Akureyringar; þau Jóhannes Ágúst og Kristrún Jóhannesdóttir. Þriðja lagið sem við tengjum norður er lagið Þrá, sem Akureyringurinn Tinna Óðinsdóttir flytur. Hún samdi það ásamt Rob Price.
Ágúst og BIA keppa á fyrra undanúrslitakvöldinu, þann 8. febrúar, en Tinna stígur á svið seinna kvöldið, þann 15. febrúar.
Eftirfarandi myndir og upplýsingar um þessi þrjú lög eru af vef Söngvakeppninnar hjá RÚV:
Ágúst Þór Brynjarsson - Eins og þú / Like You
- Lag: Hákon Guðni Hjartarson, Ágúst Þór Brynjarsson og Halldór Gunnar Pálsson
- Íslenskur texti: Hákon Guðni Hjartarson og Ágúst Þór Brynjarsson
- Enskur texti: Hákon Guðni Hjartarson
Beatriz Roque Aleixo, BIA - Norðurljós / Northern Lights
- Flytjandi: BIA
- Lag: BIA, Jóhannes Ágúst, Kristrún Jóhannesdóttir og Jón Arnór Styrmisson.
- Íslenskur texti: BIA, Jóhannes Ágúst, Kristrún Jóhannesdóttir, Jón Arnór Styrmisson og Kolbeinn Egill Þrastarson
- Enskur texti: BIA, Jóhannes Ágúst, Kristrún Jóhannesdóttir og Jón Arnór Styrmisson.
Tinna Óðinsdóttir - Þrá / Words
- Flytjandi: Tinna
- Lag: Tinna Óðinsdóttir og Rob Price
- Íslenskur texti: Guðný Ósk Karlsdóttir
- Enskur texti: Rob Price