Fara í efni
Mannlíf

Þriggja kynslóða flugeldasýning!

Þrjár kynslóðir flugeldasérfræðinga! Frá vinstri: Ágúst Óli Ólafsson, Ólafur Tryggvi Ólafsson og Ólafur Tryggvi Kjartansson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Ólafur Tryggvi Kjartansson, félagi í björgunarsveitinni Súlum á Akureyri, hefur séð um flugeldasýningar sveitarinnar í áratugi. Sonur hans, Ólafur Tryggvi Ólafsson, fór ungur að aðstoða föður sinn og nokkur ár eru síðan sonur Ólafs yngra, Ágúst Óli, slóst í hópinn.

Þremenningarnir verða í „eldlínunni“ á gamlárskvöld þegar Akureyringum verður boðið upp á glæsilega flugeldasýningu eins og hefð er fyrir. Engin áramótabrenna verður í bænum vegna samkomutakmarkana en þeir Ólafur verða á sínum stað við höfuðstöðvar Norðurorku og hefja skothríðina klukkan 21.00. Í sýningunni að þessu sinni eru hvorki fleiri né færri en 1.036 tívolíubombur og eitthvað af skottertum að auki. Sýningin ætti að sjást vel því spáð er ljómandi veðri.

Stormeldspýtur ...

„Sumir í björgunarsveitinni gera grín að því að þetta sé einskonar fjölskyldusport!“ sagði Ólafur Tryggvi eldri þegar Akureyri.net ræddi við þremenningana í gær, þar sem þeir unnu við að setja sýninguna saman. 

Hann man þá tíð að menn hlupu um með stormeldspýtur til að kveikja í flugeldum þegar þeir héldu sýningu. Nú er öldin önnur og tæknin við völd. Í fyrsta lagi er sýningin hönnuð í tölvu þar sem þeir séð á skjánum nákvæmlega hvernig hún mun líta út og því er auðvelt að breyta ef ástæða þykir til. Eftir hönnun er bombunum raðað í þar til gerða hólka og loks allt tengt eftir kúnstarinnar reglum. Í stað þess að hlaupa um með lifandi eld á gamlárskvöld er ýtt á takka á fjarstýringu sem sendir þráðlaust merki í loftnet – og þá byrjar ballið!

Heilmikil vinna

Ólafur Tryggvi Kjartansson var einn stofnenda Hjálparsveitar skáta á Akureyri fyrir hálfri öld, árið 1971. „Sennilega er ég eini stofnfélaginn sem er enn að starfa í þessu,“ segir hann. Hjálparsveit skáta, Flugbjörgunarsveit Akureyrar og Súlur, sjóbörgunarsveit Slysavarnafélagsins, sameinuðust árið 1999, undir nafninu Björgunarsveitin Súlur, og Ólafur hélt vitaskuld áfram í félagsskapnum. Synir hans, Ólafur Tryggvi og Kjartan, fetuðu sömu braut og síðan Ágúst Óli.

Undirbúningur sýningar sem þessarar er langur en eftir að sprengingarnar hefjast stendur dýrðin í um það bil 12 mínútur, að sögn þeirra þremenninga.

„Það er hellings vinna á bak við þetta,“ segir Ólafur Tryggvi yngri og auðvelt er að trúa því. „Ég hef farið einu sinni til Kína og aðra ferð til Þýskalands til að skoða og kaupa flugelda, og til þess að læra að gera svona sýningar.“

Öryggið er ætíð sett á oddinn í þessum bransa og ef eitthvað kemur fyrir býður tæknin upp á það að stöðva sýninguna tímabundið,  en ekki hefur þurft að grípa til þess. „Ef bomba fer ekki á loft má alls ekki bogra yfir hana strax og athuga málið; það er í raun mesta hættan við flugelda“ segir hann þegar telið berst að hinum almenna flugeldaskotmanni. „Mesta hættan hjá okkur er í raun eftir sýningarnar. Það kemur fyrir að bomba fer ekki á loft hjá okkur en við höfum lent í því að þær skjótist á loft löngu eftir að sýningunni lýkur. Þess vegna verður öryggið að vera alveg upp á 10,“ segir Ólafur Tryggvi Ólafsson.

Ólafur Tryggvi Kjartansson með eina tívolíubombu úr sýningunni sem Akureyringum verður boðið upp á annað kvöld; 1.036 slíkar eru í sýningunni!