Fara í efni
Mannlíf

Þorgerður Anna Björnsdóttir kennari

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

15. desember Þorgerður Anna Björnsdóttir, kennari við Konfúsíusarstofnunina

Jólin í Kína

Ég hef alltaf kappkostað að verja jólum á Akureyri en var lengi búsett í Reykjavík við nám og störf. Jólatíminn á Akureyri er svo notalegur, jólasnjórinn nánast gulltryggður og jólastemmning með fjölskyldu og vinum. Fyrir mér var þetta eins konar heimkomuhátíð brottfluttu farfuglanna, í upplýstu rökkrinu á vetrarsólstöðum. Aðeins tvö skipti kom ég ekki heim um jólin en þá bjó ég í Kína. Jól í Kína voru auðvitað stórkostleg andstæða jólanna á Akureyri en þó eftirminnileg.

Ég mætti reyndar í kínverskutíma á aðfangadag því mér fannst það eitthvað skondið. Svo hófst jólaundirbúningurinn.

Mig langar að rifja upp fyrstu jólin að heiman en þá var ég í skiptinámi í borginni Nanjing, ásamt kærasta mínum og einni íslenskri vinkonu. Auk okkar voru þarna fjölmargir háskólanemar frá öllum heimsins hornum. Skólinn var með mjög sveigjanlega mætingu í kringum jólin, þar sem margir nemenda flugu heim yfir hátíðirnar. Við sem eftir vorum ákváðum að gera okkar besta í jólahaldi fjarri heimahögum. Ég mætti reyndar í kínverskutíma á aðfangadag því mér fannst það eitthvað skondið. Svo hófst jólaundirbúningurinn.

Í hugum Íslendinganna var mjög mikilvægt að komast yfir kanil og gera sem bestan möndlugraut en hvergi sáum við kanil í kryddhillunum.

Við ákváðum að vera í íbúðinni sem við Íslendingarnir leigðum ásamt franskri vinkonu okkar, því þar var eldhúsið betra en á heimavistinni. Við vorum ekki langt komin í kínverskunni og því fylgdu ýmsar áskoranir. Í hugum Íslendinganna var mjög mikilvægt að komast yfir kanil og gera sem bestan möndlugraut en hvergi sáum við kanil í kryddhillunum. Með hjálp orðabókar tókst okkur að lokum að kaupa heilar kanilstangir sem við röspuðum niður og björguðu grautnum!

Heimatilbúið jólatré
En hvað með jólatré? Ekki gátum við keypt jólatré þótt sjá mætti ýmis ummerki jóla á skreytingum verslana. Vinur okkar frá Chile kom með lausnina - við búum það til sjálf úr snæri og jólaskrauti! Þetta höfðu foreldrar hans gert þegar hann var lítill og útkoman varð dásamleg. Snæri var bundið við krók á stofuveggnum, strengt niður í gólf og fest með límbandi þar til komin var hálf keila, eða semsagt jólatré, sem lýsti upp vegginn með jólaljósum sínum. Við festum líka stór jólakort á vegginn hjá jólatrénu, þar sem við skrifuðum kveðjur til hvers annars og vorum öll með einn leynivin sem fékk jólapakka.

Pakki með íslensku sælgæti hafði borist okkur til Nanjing í tæka tíð fyrir jólin og við deildum spennt af namminu með vinum okkar en komumst fljótt að því að fyrir þeim var lakkrís með súkkulaði óætur djöflaskítur.

Við skelltum okkur í sparifötin og settum á okkur rauðar jólahúfur. Eldamennskan gekk að vísu svolítið brösulega, enda vorum við öll að sjá um jólahald í fyrsta sinn en þetta hafðist allt saman. Dýrindis máltíð var borin á borð og enskur vinur í hópnum gerði svokallaðan jólabúðing, sem var hvorki búðingur né jólalegur heldur kaka sem drekkt var í áfengi, kveikt í og borin fram alelda. Pakki með íslensku sælgæti hafði borist okkur til Nanjing í tæka tíð fyrir jólin og við deildum spennt af namminu með vinum okkar en komumst fljótt að því að fyrir þeim var lakkrís með súkkulaði óætur djöflaskítur. Þau höfðu að minnsta kosti gaman af sögum um óþekka jólasveina og jólaköttinn sem étur börn.

Það var þrátt fyrir allt bara ansi notalegt hjá okkur háskólanemunum um jólin í Nanjing.