Þorbjörg Helga Konráðsdóttir bóndi
JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET
5. desember – Þorbjörg Helga Konráðsdóttir, bóndi að Svertingsstöðum í Eyjafjarðarsveit
Þegar stjarnan á jólatréð brotnaði
Þegar ég fór að hugsa hvaða jólaminning væri sterkust hjá mér datt mér í hug ein frá barnæskunni. Ég er alin upp á sauðfjárbúi í Vesturhópi hjá foreldrum mínum og erum við 4 systkinin. Jólin voru auðvitað mikil hátíð, húsið þrifið hátt og lágt í desember og minnir Ajax lyktin mig á undirbúning jólanna. Mamma, þessi myndarlega húsmóðir sem hún er reyndar enn í dag, bakaði rúmlega 20 sortir af smákökum fyrir hver jól og var ægilega gaman að laumast í alla dunkana í búrinu sem innihéldu dýrindis smákökur. Það var mikill gestagangur um jólin enda vissu ættingjar og vinir af veisluborði sem beið þeirra í jólaheimsóknum.
„Þegar mesta spennan var í teiknimyndinni var mamma að klára að skreyta jólatréð, var að teygja sig til að setja toppinn á tréð.“
Mikill spenningur var auðvitað alltaf á aðfangadag, þá fékk maður að horfa á teiknimyndir allan daginn sem stytti biðina eftir að fá að opna pakkana. Við gátum bara horft á Ríkissjónvarpið, ekki náðist Stöð 2 út í sveit og áttum við ekki videó tæki á þessum tíma. Við systkinin vorum límd við skjáinn að horfa á ægilega spennandi teiknimynd og í henni var galdradrottning sem var vond og búin að setja einhver börn í ísfangelsið sitt. Þegar mesta spennan var í teiknimyndinni var mamma að klára að skreyta jólatréð, var að teygja sig til að setja toppinn á tréð. Þá skaut vonda ísdrottningin í teiknimyndinni úr sprota sínum einhverskonar klaka en við þetta mjög svo spennuþrungna atriði að okkur krökkunum fannst hrökk mamma svo við að hún missti jólatré toppinn úr höndunum á sér og endaði hann á gólfinu og brotnaði hann aðeins. Sem betur fer var hann nothæfur og notar mamma hann ennþá í dag, enda óþarfi að henda því sem er nothæft og enn skemmtileg saga á bakvið af hverju toppurinn sé aðeins brotinn.
Við systkinin munum allavegana vel eftir þessu atriði í teiknimyndinni. Þar sem ekki þarf lengur að bíða eftir línulegri dagskrá til að fá að horfa á teiknimyndir þá efast ég um að mín börn munu muna eitthvað sérstaklega eftir teiknimyndum á aðfangadag.