Þiggjendur urðu gefendur þegar gæfan leyfði
Akureyri.net birtir hér síðari hluta viðtals við Sigrúnu Steinarsdóttur, aðra þeirra sem höfðu umsjón með Matargjöfum á Akureyri og nágrenni frá 2014. Sigrún tilkynnti í apríl að hún myndi hætta með verkefnið þann 1. maí.
- Í GÆR – Sigrún hætti „með sorg í hjarta“
Sunna Ósk Jakobsdóttir, stofnandi Matargjafanna, og Sigrún, höfðu báðar upplifað að vera í þeirri stöðu að þarfnast aðstoðar og fannst kerfið ekki taka almennilega utan um fólk í þeirri stöðu. Þær vissu þó lítið út í hvað þær voru að fara og verkefnið varð mun umfangsmeira en þær gerðu sér grein fyrir í upphafi.
Ákváðu að treysta fólki
Þær fengu fjárframlög, nær eingöngu frá einstaklingum þrátt fyrir að hafa leitað eftir framlögum víðar.
„Já, við leituðum út um allt, en því miður var ekki tekið vel í það. En það eru góðgerðarfélög hér á Akureyri sem hafa notið góðs af stuðningi frá fyrirtækjum. Við höfum minna fengið fyrirtækin í lið með okkur, nema kannski fyrir jól. Eina félagið sem hefur styrkt okkur núna í nokkur ár er Domino’s, með gjafabréfum.“
En hvað með mögulega misnotkun og eftirlit með því að fólk sem ekki þyrfti á aðstoð að halda væri að þiggja hana?
„Við vitum að það eru alltaf tvö til þrjú prósent sem misnota, alveg sama hvað það er. En við ákváðum strax að treysta fólki og höfum gert það í gegnum tíðina.“
Sigrún bendir á að það gefi ekkert endilega rétta mynd að þurfa að leggja fram skattaskýrslu síðasta árs til að sýna fram á þörfina á aðstoð. Staðan í dag taki ekkert endilega mið af því hvernig tekjurnar voru á síðasta ári. Fólk gæti hafa verið með góðar tekjur, en síðan veikst og orðið fyrir tekjumissi. „Við ákváðum að taka þannig kerfi ekki upp,“ segir Sigrún.
Margs konar ástæður að baki
Aðspurð segir Sigrún að þær hafi fylgst með og velt fyrir sér ástæðum þess að fólk leitaði sér hjálpar. „Já, við gerðum það. Það voru ýmsar ástæður fyrir því. Fólk var veikt, missti vinnuna, eitthvað tímabundið, eitthvað sem kom fyrir og fólk vildi ekki leita sér aðstoðar annars staðar. Með tímanum öðlast maður traust fólks og fólk er farið að þekkja vel hvernig þetta kerfi hefur virkað hjá okkur þannig að það eru alltaf fleiri og fleiri sem hafa sótt aðstoð og aðstoðað okkur. Það er þetta traust sem við höfum verið að byggja á í öll þessi ár.“
Staðan í kistunni 16. mars 2023. Mynd: Matargjafir.
En umfangið jókst og jókst. „Þegar þetta varð meira vorum við með þetta á tveimur stöðum, heima hjá mér og heima hjá Sunnu. Fyrst var ég ekki með neitt undir þetta, var bara með allt á stólum og svoleiðis. Svo setti ég þetta í box undan pullum, en hvorug okkar var með frystiskáp eða slíkt.“
Mikil aukning í heimsfaraldrinum
Heimsfaraldurinn tók mikið á og þá jókst þörfin fyrir aðstoð. „Það var mjög mikið í covid. Þá jókst þetta alveg um helming. Margir sem misstu vinnuna og ástandið var erfitt. Svo hefur það einhvern veginn haldið sér síðan þá. Ástandið er alveg skelfilegt,“ segir Sigrún og greinilegt í tali hennar að þetta er henni mikið hjartans mál.
En það er sama hve mikil ástríðan er, vinnan í kringum Matargjafirnar var orðin alveg gríðarleg og álagið mikið, ekki síst eftir að Sunna flutti suður og Sigrún hélt áfram ein með allt á herðunum. Á einhverjum tímapunkti er komið nóg.
Ofboðslegt áreiti fyrir fjölskylduna
Sigrún segir fjölskylduna hafa sýnt þessu mikinn skilning. En var fjölskyldan með henni í þessari vinnu eða meira bara eins og þolendur?
„Bæði. Þau voru að vinna með mér í þessu, en eftir því sem þetta jókst þá var stanslaust streymi, þetta varð, eins og ég gerði mér grein fyrir, ofboðslegt áreiti fyrir fjölskylduna.“
Utanaðkomandi finnst ef til vill undarlegt að þær Sunna og Sigrún skyldu sinna þessu öllu frá heimilum sínum, en það er eðlileg skýring á því. „Við gerðum okkur ekki grein fyrir því í upphafi að þetta yrði svona mikið, að þörfin væri svona.“
Ákvað að láta gott heita
En eins og áður sagði tilkynnti Sigrún í apríl að hún myndi hætta þessari starfsemi 1. maí. Var bara komið nóg?
„Það voru ýmsar ástæður fyrir því. Bæði hversu mikið ég get lagt á fjölskylduna. Þetta er orðið það mikið að þegar ég fer eitthvað í frí þá er þetta stanslaust. Þetta hefur verið mikið áreiti og er of mikið fyrir mig, hefur verið það í svolítið langan tíma,“ segir Sigrún. Á endanum ákvað hún að láta gott heita, en hún vill þó ekki að þetta starf falli niður og hefur leitað leiða til að fá nýtt fólk og að hægt verði að halda áfram með þetta þarfa verkefni í breyttu formi. Hún vill vanda valið.
„Þetta er bara eins og með litlu börnin okkar. Við viljum ekki að hver sem er passi þau,“ segir hún um mögulegt framhald á starfi Matargjafa.
Sigrún segist hafa fengið mikinn skilning hjá fólki eftir að hún tilkynnti að hún myndi hætta, fólk skilji vel að þetta sé meira en 100% vinna að halda utan um þetta verkefni.
Langar að fjölga frískápum
Sigrún hefur átt í viðræðum við fólk um að taka við og hefur líka áhuga á að koma upp frískápum í hverfum bæjarins, þannig að það sé ekki bara einn frískápur í bænum, við Amtsbókasafnið. Hún bendir til dæmis á að margir sem þurfa á hjálp að halda séu ekki á bíl og því væri gott að vera með frískápa í öllum hverfum bæjarins. „Því það er þörf fyrir það,“ segir hún. „Líka upp á matarsóun.“
„Afgangar kvöldsins fyrir aftan Barr við Hof,“ skrifaði Silja Björk Björnsdóttir með þessari mynd inni á Facebook-síðu Matargjafanna 11. nóvember 2021. Sigrún segir að frumkvæði Silju Bjarkar þegar hún rak veitingastaðinn í Hofi hafa opnað augu þeirra fyrir matarsóun.
Þær Sigrún og Sunna voru ekki mikið að velta fyrir sér matarsóun á fyrstu árunum sem þær voru með Matargjafir, vildu aðallega hjálpa fólki sem þurfti á því að halda. Umræðan um matarsóun kom meira fram síðar og segir Sigrún að Silja Björnsdóttir, sem rak um tíma veitingastað í Hofi, hafi opnað augu hennar fyrir því hve miklu við sóum af mat. Silja tók upp á því í lok dags þegar veitingastaðnum var lokað að setja afganga í ílát og setja út undir vegg hjá veitingastaðnum, auglýsti á Facebook-síðu og fólk gat komið og sótt sér mat.
„Það opnaði augu mín fyrir matarsóun. Hún er gríðarleg á hverju heimili,“ segir Sigrún.
Auðvelt að líta framhjá fátæktinni
Sigrún hefur átt samstarf við Norðurhjálp og meðal annars sent fólk þangað þegar ekkert hefur verið til hjá henni. Hún segir ekki annað hægt en að samtök í þessari starfsemi í litlu bæjarfélagi sem vinni að því sama hjálpist að. Skjólstæðingar hennar hafa til dæmis fengið klippikort fyrir fötum hjá Rauða krossinum því hún sjálf hefur ekki verið með föt.
En af hverju erum við í þessari stöðu?
„Það er ekki eitthvað eitt. Ástandið í þjóðfélaginu er skelfilegt. Það er rúmlega 10% barna sem búa við sárafátækt. Þá er ég að meina að þau hafa ekki einu sinni nesti í skólann. En við erum ekki að bregðast við því sem samfélag. Við erum ekki að viðurkenna að það sé fátækt á Íslandi. Við horfum alltaf út fyrir landsteinana á meðan vandamálið er hér líka.“
Hvað ef áform úr síðustu kjarasamningum um fríar skólamáltíðir ganga upp. Hlýtur það ekki að breyta einhverju?
„Það bætir mjög mikið því oft og tíðum eru þetta einu máltíðirnar sem börn fá, það eru skólamáltíðirnar. Það er mjög sorglegt. Við þurfum að vera vakandi yfir því að þetta er staðreynd. Við viljum ekki sjá þetta,“ segir Sigrún um fátæktina. Það sé of auðvelt að horfa framhjá stöðunni eins og hún er.
„Já, það er það. Það er nefnilega mjög auðvelt að horfa framhjá því. Þú sérð að í hverjum bekk erum við kannski að tala um tvo einstaklinga. Það er mikið.“
Sumt situr fast í hjartanu
Varstu aldrei nálægt því að gefast upp og kikna undan álaginu?
„Oft. Auðvitað tekur maður þetta inn á sig. Fólk er ekki í góðu ástandi þegar það er að sækja um aðstoð. Þú ert að hitta það og tala við það á þeim tímapunkti sem fólki líður alveg skelfilega illa. Sumt situr svo fast í hjartanu. En ég á ótrúlega góða að sem hafa staðið með mér og ég gæti ekki hafa gert þetta nema hafa fjölskylduna svona þétt við bakið á mér. Þannig að ég stend alltaf upp aftur.“
Það reynir auðvitað á sálarlífið að vinna að verkefni eins og matarhjálp. „Þú getur rétt ímyndað þér. Þetta tekur á, mjög mikið. Oft og tíðum hef ég sjálf styrkt þegar ég veit af börnum sem hafa ekki nesti eða fá ekkert að borða. Auðvitað tekur á að horfa upp á þetta í kringum mig því ég get ekki lokað augunum fyrir því.“
Þiggjendur verða gefendur
En starfið er líka mjög þakklátt eins og Sigrún hefur fengið að upplifa. Hún hefur fengið viðurkenningar og þakklæti fyrir það óeigingjarna starf sem hún hefur innt af hendi í tæp tíu ár. „Já, mjög mikið þakklæti. En það eru líka svo margir sem hafa lent í einhverju, veikindum eða missa vinnuna í einhvern tíma og fengið aðstoð hjá Matargjöfum og þegar þetta fólk er komið á rétt ról þá er það farið að styrkja til baka. Það er mjög mikið um það. Fólk sem hefur nýtt þjónustu okkar, það gefur til baka þegar það getur.“
Segja má að nú hafi venjubundið daglegt líf tekið við hjá Sigrúnu eftir nær áratug í Matargjöfunum og allt áreitið og allan tímann sem fór í það starf. Hún er þó ekki hætt að gefa af sér því hún hefur tekið sæti í stjórn Barnaheilla og heldur þannig áfram að vinna að því að bæta líf fólks, eins og hún gerði með Matargjöfunum.
Hún vill starfa þar sem hún getur látið gott af sér leiða. Ætli hún sé ekki bara þannig upp alin, þannig gerð?
„Já, ætli það ekki. En svo er ég búin með sálfræðinám þannig að ég hef kannski meiri innsýn í hvernig og hvaða afleiðingar þetta hefur hjá fólki. Þannig að ég er ekki laus við þessa bakteríu. Ég verð að vera í þessu. Þetta gefur mér svo mikið,“ segir Sigrún Steinarsdóttir, fyrrverandi umsjónarkona Matargjafa á Akureyri og nágrenni og nú stjórnarkona í Barnaheillum.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og Sigrún Steinarsdóttir, við orðuveitinguna að Bessastöðum þann 17. júní. Sigrún var þá sæmd heiðursmerki fálkaorðunnar, riddarakrossi.