„Þetta verður fallegur dagur í fjallinu“
Andri Teitsson, Skíðafélagi Akureyrar, hóf í morgun atlögu að óformlegu Íslandsmeti í skíðagöngu; hann veit um þrjá Íslendinga sem gengið hafa 203 kílómetra í einni lotu og ætlar að gera betur en þeir. Andri hófst handa við gönguskálann í Hlíðarfjalli kl. 11.00 og reiknar með að ganga linnulaust um svæðið þar til fljótlega eftir hádegi á morgun, föstudaginn langa.
Hann hlakkar til áskorunarinnar. „Þetta verður fallegur dagur í fjallinu,“ sagði Andri sæll og glaður þegar Akureyri.net hitti hann að máli örskotsstund í Hlíðarfjalli fyrir hádegi. Þoka lá yfir höfuðstað Norðurlands í morgun en sólin skein hins vegar á skíðasvæðið þegar Andri renndi sér af stað ásamt eiginkonu sinni og börnum, sem gengu með honum fyrsta spölinn. Fljótlega laumaði þokan sér reyndar inn á göngusvæðið, hefur líklega bara villst af leið enda staldraði hún stutt við og er ekki saknað. Fjöldi fólks var í Hlíðarfjalli í morgun, bæði í brekkunum og á göngusvæðinu. Sólin og lognið ráða nú ríkjum þar líkt og annars staðar við Eyjafjörð.
- Frétt Akureyri.net í morgun: Hyggst ganga rúma 200 km á skíðum í einni lotu
Eiginkona Andra og börn þeirra gengu fyrstu spölinn með honum í morgun. Frá vinstri: Óðinn Andrason, Askur Freyr Andrason, Iðunn Andradóttir, Andri Teitsson, Eir Andradóttir, Ás Teitur Andrason og Auður Hörn Freysdóttir.
Þoka villtist inn á skíðasvæðið í Hlíðarfjalli um stund í morgun fljótlega eftir að Andri gekk af stað en sólin gladdi skíðamenn og aðra gesti í fjallinu stuttri stund síðar.