„Þessir fuglar hafa alltaf flækst fyrir mér“
„Þórey, konan mín, sagði alltaf að ég væri tvennskonar fuglaskoðari,“ segir Sverrir Thorstensen, fuglamerkingamaður hjá Náttúrufræðistofnun og fyrrum grunnskólakennari í náttúrufræðigreinum, í viðtali við Akureyri.net.
- Fyrsti hluti viðtalsins birtist í dag, annar á morgun og sá þriðji og síðasti á föstudaginn.
„Hún sagði að það væri svo gaman að fylgjast með mér skipta þarna á milli. Það er annars vegar rólega atferlið, þar sem þú situr einhversstaðar á þúfu með sjónaukann og ert að fylgjast með fugli, bara af því að það er svo gaman. Þá kemur þessi mildi svipur á þig, sagði hún. Svo kemur hinn svipurinn, það er þegar þú sérð að fuglinn er ómerktur! Þá breytist svipurinn skyndilega í einhvern brúnaþungan hugsuð, sem er að vega og meta hvernig hann gæti fangað fuglinn og komið á hann merki.“
Sverrir fékk heiðursviðurkenningu Náttúrufræðistofnunar á dögunum, fyrir ómetanlegt framlag til fuglamerkinga, rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands. Mynd RH
Sverrir er búinn að hella upp á kaffi þegar blaðamann Akureyri.net ber að garði í Lönguhlíðinni. Þar býr hann einn, eftir að Þórey Ketilsdóttir, kona hans og ferðafélagi lést vegna veikinda árið 2021. Það eru fuglar um allt. Fuglar úr tré, fuglar úr steini, myndir af fuglum, glaðir fuglar, hugsandi fuglar og fljúgandi fuglar. Í miðri stofunni er stór sjónauki, sem er beint út í garð. Stór gluggi til vesturs blasir við, og í miðjum garðinum er eitthvað sem lítur út eins og borð á ansi háum og verklegum fæti. Þarna hefur Sverrir dreift sólblómafræjum og þrír litlir spörfuglar hoppa og skoppa um borðið og gæða sér á veislukrásunum. Við skoðum þá í sjónaukanum og Sverrir segir að þetta séu auðnutittlingur og snjótittlingur. Fljótlega bætist svartþröstur í hópinn sem reynist vera góðkunningi. Áhugi Sverris á lífríki náttúrunnar takmarkast reyndar alls ekki við fugla, en hann var mjög ungur þegar hann gat gleymt sér tímunum saman úti.
'Fuglasviðið' hans Sverris, í miðjum garðinum í Lönguhlíðinni. Hér ganga smáfuglar Akureyrar að því vísu, að fá eitthvað gott í gogginn. Mynd RH
Fólkið sem við leigðum hjá átti risastórt bókasafn. Þar voru bækur um landkönnuði, og ég gjörsamlega lá í þeim og var alveg heillaður
„Ég eignaðist mína fyrstu myndavél þegar ég var tólf ára,“ segir Sverrir, en hann ólst upp í Laugardalnum í Reykjavík. „Sem er nú eiginlega sérstakt, en það var ljósmyndari frá Grikklandi sem gaf mér vélina, en hann tengdist inn í fjölskylduna. Ég fór í allskonar hringi með það hvað mig langaði að mynda, til dæmis eyddi ég heilu sumri í það að væflast um fjöruna og taka myndir af smádýrum þar.“ Sverrir segist hafa lesið ógrynni af bókum á æskuheimili sínu við Laugateig. „Fólkið sem við leigðum hjá átti risastórt bókasafn. Þar voru bækur um landkönnuði, og ég gjörsamlega lá í þeim og var alveg heillaður.“
Á þessum tíma voru ennþá konur, sem gengu til lauganna í Laugardalnum, til þess að þvo heimilisþvottinn. „Þetta var ævintýralegt leiksvæði á þessum tíma,“ segir Sverrir. „Enn var þarna búskapur, sveitabæir og villt náttúra þegar ég var lítill.“ Sverrir bjó í Laugardalnum þangað til hann varð 15 ára.
Á þessum árum var ég hættur við barnsdrauminn um að verða landkönnuður og sjávarlíffræðingur, en ákveðinn í því að fara í jarðfræði í háskólanum
Sverrir segir að það hafi komið upp, nokkrum sinnum á lífsleiðinni, að annað fólk hafi beint honum aðrar leiðir en hann hafði hugsað sér sjálfur að fara. „Ég var tvo vetur í Gaggó Vest, eftir skólaskylduna í Laugarnesskóla. Þar var íslenskukennari sem ákvað það eiginlega fyrir mig, að ég skyldi fara í Kennaraskólann,“ rifjar Sverrir upp. „Á þessum árum var ég hættur við barnsdrauminn um að verða landkönnuður og sjávarlíffræðingur, en ákveðinn í því að fara í jarðfræði í háskólanum. Pabbi minn var vel að sér í jarðfræði Íslands og hafði vakið áhuga minn á ferð um Reykjanesið. En þessi kennari minn, Arngrímur Ísberg, boðaði mig á skrifstofu sína með umsóknareyðublað í kennaranámið, og það átti bara eftir að skrifa undir.“
Sverrir sættist á að fara þessa leið, vegna þess að þá var hægt að klára fjögurra ára kennaranám, bæta við sig nokkum áföngum til stúdentsprófs og komast þannig beint í háskólanám. Hann sá því enn fyrir sér að fara í jarðfræðina þegar fram liðu stundir. Aðspurður hvort hann sjái eftir því að hafa leyft þessum ákveðna kennara að ráða, þvertekur Sverrir fyrir það. „Ég kynntist Þóreyju, konunni minni, í Kennaraskólanum.“
Eftir að við útskrifuðumst var ég orðinn svolítið mengaður af fuglum
Svanir tveir, sem prýða stofuna heima hjá Sverri. Tveir af ótal mörgum fuglum á heimilinu. Mynd RH
„Eftir að við útskrifuðumst var ég orðinn svolítið mengaður af fuglum,“ segir Sverrir. „Jarðfræðin kallaði enn á mig, en eitthvað þvældust þessir fuglar fyrir mér. Við fjölskyldan fórum stundum í sumarbústað við Þingvallavatn þegar ég var krakki, með móðurömmu- og afa. Amma kenndi mér svolítið á fuglana, að hlusta og læra að þekkja þá, og æ síðan hafði ég verið hrifinn af þeim.“
Þegar ég kynntist Þórey hafði ég aldrei komið norður fyrir Holtavörðuheiði!
Þórey var sveitastúlka að norðan. Hún ólst upp á Halldórsstöðum í Bárðardal og sveitin kallaði hana heim úr borginni. „Þórey ákvað það eiginlega bara fyrir okkur að við færum norður. Þegar ég kynntist henni hafði ég aldrei komið norður fyrir Holtavörðuheiði!“ Þarna mætti kannski færa rök fyrir því að Sverrir væri að láta landkönnuðadraumana rætast, svona upp að vissu marki!
Stórutjarnarskóli, þegar hann var glænýr. Sverrir og Þórey fengu íbúð og kennarastöður og stofnuðu fjölskyldu sína í þessum skóla. Mynd úr safni Sverris.
Stundum raðast hlutirnir upp á ótrúlegan hátt, þegar fólk á síst von á því, en það voru ekki nein störf í hendi fyrir unga parið þegar þau fluttu norður eftir skólagönguna. „Þarna var verið að byggja skólahús að Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði, en við höfðum alls ekki neina hugmynd í kollinum um að komast þar að í vinnu. Mig langaði ennþá í jarðfræðina, en það kom á daginn að okkar fyrsta barn var á leiðinni og þá er ekkert annað í boði en að fara að vinna fyrir sér.“
Formaður skólanefndar, Sigtryggur í Hriflu, spurði hvernig það væri eiginlega með okkur, ætluðum við ekki að fara að mæta í vinnuna?
Vorið 1971 eru Sverrir og Þórey alflutt norður og þá fengu þau símtal frá Stórutjarnarskóla. „Þarna á línunni var enn einn maðurinn sem var að taka ákvörðun fyrir mig. Fyrsti formaður skólanefndar Stórutjarnarskóla, Sigtryggur í Hriflu, spurði hvernig það væri eiginlega með okkur, ætluðum við ekki að fara að mæta í vinnuna?“ Sverrir segist alls ekki sjá eftir þessu heillaskrefi, en þarna fengu þau hjónin ekki aðeins tækifæri til þess að starfa við kennslu, heldur líka að hafa áhrif á starfsstéttina og kennsluefnið til frambúðar, með hönnun nýs námsefnis og alls kyns tilraunastarfsemi í náttúrufræðikennslu.
- Á MORGUN – Til þess að merkja fugl, þarf að handsama hann
Þórey Ketilsdóttir, eiginkona Sverris, með syni þeirra þrjá sem allir fæddust á tíma þeirra í Stórutjarnarskóla. F.v. Ketill Þór, Sigurður Reynir og Kristján Óli. Mynd úr safni Sverris.