Fara í efni
Mannlíf

„Það sótti alltaf á mig að læra meira“

Þessa teikningu af Kristínu gerði Kristinn G. Jóhannsson. Mynd af mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Ég hafði verið með nokkra nemendur sem áttu í erfiðleikum og mér fannst ég ekki kunna að kenna þeim,“ segir Kristín Aðalsteinsdóttir, rithöfundur og fyrrum kennari. Þegar hún var búin að kenna í fjögur ár í Barnaskóla Akureyrar fékk hún mikinn áhuga á sérkennslufræðum og fór í framhaldsnám þess efnis. „Þegar Kennaraháskólinn bauð upp á nám í sérkennslufræðum vakti það strax áhuga minn.“ Nokkru síðar eða 1974 fóru Kristín og Hallgrímur Indriðason í nám til Noregs í þrjú ár og Kristín lauk BA námi í sérkennslufræðum við Háskólann í Osló.

Kristín býður til huggulegs kaffisamsætis á meðan viðtalinu stendur. Bananakakan er nýbökuð og gómsæt. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„í Noregi bjuggum við fyrsta árið í fjallakofa inni í skógi,“ rifjar Kristín upp. „Áður hafði ég varla séð tré, en þarna vorum við algjörlega umkringd trjám. Fyrstu mánuðina áttum við enga peninga vegna þess að við urðum að kaupa bíl og gátum ekki fengið millifærslu á meiri fjármunum milli landa strax. Kerfið var einhvernvegin erfiðara þá.“ Kristín segir að þessir mánuðir hafi verið einstaklega lærdómsríkir, en þau tömdu sér að lifa mjög einföldu lífi. „Þá áttum við eina dóttur, Berglindi, sem var 6 ára þegar við fluttum út. Við kynntumst nýju tungumáli og fólki sem hafði lifað öðruvísi lífi en við,“ segir Kristín. „Það var lærdómstríkt.”

„Fínu, nýtísku, útvíðu buxurnar sem ég hafði saumað á fjölskylduna, sem allir voru í heima á Íslandi, gengu ekki alveg þarna,“ segir Kristín, en hún varð að setjast aftur að saumum. Í fjallahéraðinu í Noregi gengu allir nánast í þjóðbúningum. „Ég útbjó einfaldari klæðnað, en ég saumaði yfirleitt alltaf á okkur öll.“

Í dag held ég úti vinsælli síðu á Facebook sem heitir 'Að baka brauð með Kristínu', en um daginn urðu fylgjendur síðunnar tíu þúsund

Í Noregi lærði Kristín að baka brauð. Á hverjum degi bakaði hún brauð að fyrirmynd nágrannakvenna sinna, og enn í dag fylgir baksturinn henni eins og skuggi. „Ég held ég geti sagt, að ég hafi ekki keypt mér brauð síðan ég bjó í Noregi. Í dag held ég úti vinsælli síðu á Facebook sem heitir 'Að baka brauð með Kristínu', en um daginn urðu fylgjendur síðunnar tíu þúsund.“ Kristín segir að brauðbaksturshópurinn hafi byrjað sem lítil hugmynd sem lyfti sér hratt. Kannski ekki ósvipað og myndarlegt gerbrauð.

Hallgrímur kemur inn í þessum töluðu orðum, rjóður í framan eftir göngutúr, en þau hjónin ganga saman á hverjum degi um Innbæinn og nærumhverfið. Hann spyr hvort blaðamaður vilji ekki vita hvernig sé að búa með konu sem á tíu þúsund fylgjendur, og uppsker nokkurn glaum við þá athugasemd. Blaðamaður segir hann öfundsverðan að vera giftur andlegum brauðleiðtoga íslenskra netheima. Að minnsta kosti fær hann nýbakað brauð á hverjum degi.

Hallgrímur, eiginmaður Kristínar, er mikið fyrir útivist og hefur unnið fyrir Skógræktina meðal annars. Mynd úr einkasafni Kristínar

En aftur að lífshlaupi Kristínar, vegna þess að brauðgerð er bara brotabrot af því sem hægt er að læra af Kristínu.

Það er ekki hægt að ætlast til einhvers af börnum, sem þau ráða ekki við

Sérkennslan höfðaði til Kristínar vegna þess að þegar hún var að kenna í Barnaskólanum, tók þáverandi skólastjóri ákvörðun um að búa til lítinn bekk, með 10 strákum, sem áttu það sameiginlegt að eiga erfitt með nám eða vera 'fyrirferðarmiklir' eins og Kristín orðar það. „Ég kunni ekkert að kenna þeim, ég þurfti að læra það.“ Aðspurð um það í dag, hvað þurfi að hafa í huga við sérkennslu, segir hún það ekki vera einfalt til útskýringar. „Það er ekki hægt að ætlast til einhvers af börnum, sem þau ráða ekki við,“ segir Kristín. „En það verður að muna, að öll börn geta eitthvað. Það er kennarans að finna styrkleika hvers og eins. Sum börn eiga erfitt með að læra að lesa, til dæmis. Þá þarf að laga efnið að getu hvers og eins, ekki ýta á börn að gera betur.“

Kristín lét ekki staðar numið í kennaranámi eftir framhald í sérkennslufræðum frá Osló. Næst fór hún til Bretlands. „Það sótti alltaf á mig að læra meira, og það endaði með því að ég fór í meistaranám í Bristol í Englandi,“ segir Kristín. „Það er eitt af því sem ég er svolítið stolt af, að hafa gert. Ég fór ein með börnin þrjú af því að Hallgrímur var fastur hér í vinnu.“ Meistaranámið tók eitt ár, en dóttir Kristínar var sextán ára og gat hjálpað mikið til. Á þessum tíma voru synir þeirra hjóna, Aðalsteinn og Tryggvi, orðnir 8 og 10 ára. „Krakkarnir höfðu ofboðslega gott af þessu, þau lærðu mikið, rétt eins og ég.“

Börn Kristínar og Hallgríms, f.v. Tryggvi, Berglind og Aðalsteinn. Á þessari mynd eru þau sennilega aðeins eldri en þau voru þegar þau fóru með mömmu sinni til Bristol. Mynd úr einkasafni Kristínar.

„Ég á svo góðan eiginmann,“ segir Kristín. „Hann hefur alltaf sýnt því skilning, þegar ég vil fara af landi brott til þess að læra hitt og þetta. Það var ómetanlegt að eiga þessi ár í Bretlandi, mér fannst fólkið svo elskulegt sem ég kynntist.“ Stuttu eftir að Kristín var flutt til Bristol var bankað á dyrnar. „Þar stóð nágrannakona fyrir utan, sem sagði við mig að hún hefði tekið eftir því að ég væri ein með börnin. Hún sagðist fara einu sinni í viku í búðina, hefði tekið eftir því að ég ætti ekki bíl, hvort ég vildi ekki fá að koma með henni í búðina einu sinni í viku. Hún vildi endilega hjálpa mér á einhvern hátt.“ Kristín segir að þessi kona, Hazel Perry, sé góð vinkona sín enn í dag.

Nemarnir luku BA prófi í sérkennslufræðum. Þróun og kennsla þessa náms, fyrir Kennaraháskólann, er það sem mér þykir vænst um á mínum ferli

Eftir meistaranám í Bretlandi fékk Kristín símtal frá Kennaraháskólanum. „Þau vildu stofna deild hérna fyrir norðan, sem byði upp á framhaldsnám fyrir sérkennara,“ segir Kristín. „Ég sagði þeim að það væri enginn betri í að stjórna slíku námi en ég, og meinti það. Þetta varð að veruleika og námið stóð í fjögur ár.“ Úr þessu námi, sem var kennt í lotum, aðallega á Stórutjörnum, útskrifaðist um það bil 40 manns. „Þetta var fólk, alls staðar að af landinu,“ segir Kristín. „Nemarnir luku BA prófi í sérkennslufræðum. Þróun og kennsla þessa náms, fyrir Kennaraháskólann, er það sem mér þykir vænst um á mínum ferli.“

„Þetta fólk fór út í skólana, allt í kring um landið og sá um sérkennslu,“ segir Kristín. „Við kynntumst líka mjög vel, þessi hópur. Þegar þau komu í námslotur gistu þau á Stórutjörnum og náðu góðum tengslum. Þetta var með því gagnlegra sem ég hef gert.“

Kristín við útskrift frá Háskólanum í Bristol. Mynd úr einkasafni Kristínar.

Enn var námsferli Kristínar ekki lokið. Hún fór því næst í þriggja ára doktorsnám í sérkennslufræðum, aftur til Bretlands. „Doktorsverkefnið mitt fjallar um kennslustarf í fámennum skólum. Hallgrímur sá um börnin og heimilið á meðan, nema yngsti sonur okkar, Tryggvi, fór út með mér fyrsta árið.“ Eftir doktorsnámið fór Kristín að kenna í Háskólanum á Akureyri, við kennaradeildina. Nú var setu Kristínar á skólabekk formlega lokið, þó að hún sé gott dæmi um manneskju sem er stöðugt að viða að sér fróðleik í lífi og starfi. 

  • Í síðasta hluta viðtalsins, sem birtist á morgun, mánudag, heyrum við meðal annars um rithöfundinn Kristínu

Heimili Kristínar og Hallgríms við Aðalstræti 52 er fallegt, en mörg og fjölbreytt listaverk prýða veggina. Mynd: Rakel Hinriksdóttir