Fara í efni
Mannlíf

„Það er margt líkt með okkur öllum, þvert á uppruna“

Hilal Sen og Mehmet Harma. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Hilal Sen og Mehmet Harma eru allt í senn; kennarar og fræðafólk við sálfræðideild Háskólans á Akureyri, foreldrar, hjón og innflytjendur á Íslandi. Þau búa í Innbænum með dóttur sinni, hinni 7 ára gömlu Piraye, en fjölskyldan er upphaflega frá Tyrklandi og flutti til Akureyrar árið 2022. Þá voru þau búin að tryggja sér stöðu við Háskólann og núna, tveimur árum seinna, eru þau orðin rótgróin í háskólasamfélaginu og hér í bænum. 

  • Viðtalið við hjónin Hilal og Mehmet birtist í þremur hlutum. Fyrsti í dag, annar á morgun og sá þriðji á laugardaginn.
  • Á MORGUN Ákvað að koma, vitandi að ég væri öðruvísi

„Ég sérhæfi mig í þroskasálfræði,“ segir Hilal. „Þá er ég að skoða þroska manneskjunnar frá móðurkviði til grafar. Hvernig samskipti okkar eru við umheiminn og annað fólk, og hvernig þetta þróast á lífsleiðinni. Hvernig einstaklingurinn upplifir sjálfan sig, þróar siðferðislegan skilning á tilverunni og tekst á við tilfinningar sínar, sem dæmi.“ Hilal segir að viðfangsefnin séu fjölmörg, en hún sérhæfir sig í uppeldisrannsóknum. „Ég fylgist með sambandi foreldra og barna, ekki síst hjá sjálfri mér!“

„Það er kannski helst að maður er erfiður við sjálfan sig!“

„Við njótum þess eiginlega, að hafa þessa sálfræðilegu innsýn,“ segir Mehmet, þegar blaðamaður spyr hvort að það sé ekki óumflýjanlegt að reyna að sálgreina alla sem maður hittir, þegar maður er sálfræðingur. „Ég upplifi það ekki þannig að maður gagnrýni eða reyni að finna að hegðun fólks, það er kannski helst að maður er erfiður við sjálfan sig!“ Hilal tekur hlæjandi undir þetta og segist mjög meðvituð um það þegar þau standa sig ekki nógu vel í uppeldinu og þá er gjarnan tekinn greiningarfundur um kvöldið við eldhúsborðið.

Mannfólkið sem kemur inn í líf okkar vekur með okkur áhuga, ekki síður þegar maður flytur á nýjan stað

Mehmet sérhæfir sig í félagssálfræði. „Ég hef áhuga á því hvernig umhverfið hefur áhrif á ákvarðanir okkar, hegðun og tilfinningar. Ég hef rannsakað það, hvernig skortur af ýmsu tagi getur haft áhrif á manninn. Til dæmis, ef innviðum einhvers lands stendur ógn af breytingum í fólksfjölgun, loftslagi, eða kannski óstöðugleika í efnahagsmálum, þá hefur það svipuð áhrif - sama í hvaða landi þú ert. Hvernig áhrifin birtast, gæti svo verið ólíkt eftir löndum og menningu.“

„Þegar kemur að mannlegri hegðun, er margt líkt með okkur öllum, þvert á uppruna,“ segir Hilal. „Að hafa bakgrunn í sálfræði getur líka hjálpað okkur við að spá í framtíðina, hvernig fólk muni bregðast við einhverjum aðstæðum eða haga sér. Við fylgjumst náttúrulega vel með og mannfólkið sem kemur inn í líf okkar vekur með okkur áhuga, ekki síður þegar maður flytur á nýjan stað.“

 

Mehmet, Hilal og dóttir þeirra; Piraye. Hún er 7 ára í dag og var að klára 1.bekk í Oddeyrarskóla. Mynd úr einkasafni.

„Við erum fædd og uppalin í Tyrklandi,“ segir Hilal. „Við höfum alltaf búið þar, fyrir utan hluta af námsárum okkar þar sem við fórum víða.“ Hilal er frá norður-Tyrklandi en Mehmet kemur að sunnan. „Við hittumst samt í miðju landi,“ segir Mehmet. „Þá vorum við bæði í háskólanum í Ankara, höfuðborginni. Við vorum bæði í sálfræði þó að sérhæfingin væri ólík. Við héldum áfram að mennta okkur og við tóku nokkur ár af fjarsambandi hingað og þangað, Istanbul til Ankara, Ankara til Bandaríkjanna, til dæmis.“ 

Áskoranir í efnahag og stjórnmálum í heimalandinu

„Við bjuggum í 10 ár í Istanbul áður en við fluttum hingað,“ segir Hilal. „Við vorum í einkareknum háskólum, bæði að kenna og stunda rannsóknir. Ástæðan fyrir því að við fórum að skoða atvinnumöguleika erlendis var tvíþætt. Eitt var, að ástandið innanlands í Tyrklandi var ekki gott og svo hinsvegar, voru vandamál í landinu á alþjóðlegu sviði varðandi sambandið við aðrar þjóðir.“ Efnahagsástandið í Tyrklandi var erfitt á þessum tíma og hjónin voru uggandi yfir stjórnmálaástandinu. „Þegar við fórum frá Tyrklandi var verðbólgan í landinu 70-80%,“ segir Mehmet.

Maður fer líka að velta fyrir sér hæfni sinni til þess að ala upp barn, þegar maður er undir stöðugu álagi

„Háskólasamfélagið er mjög alþjóðlegt, sama hvar þú býrð,“ segir Hilal. „Við vorum kannski að vinna með styrki til rannsókna í dollurum, sem styrktust hratt gegn gjaldmiðlinum okkar í Tyrklandi sem skapaði vandamál í fjármögnun. Við vorum í erfiðleikum með að brúa bilin, bæði heimavið og í vinnunni. Dóttir okkar var orðin fimm ára á þessum tíma og við fundum fyrir aukinni þörf um að færa okkur um set.“

„Álagið í vinnunni var mikið. Þegar stjórmálaástandið í landinu er umdeilt, er erfitt að kenna félagssálfræði,“ segir Mehmet. „Það er áskorun að kenna á hlutlausan hátt, þegar nemendur reyna sífellt að lesa í orðræðu kennarans, hverjar stjórnmálaskoðanir hans eru og það var orðið þreytandi að ritskoða sjálfan sig í sífellu til þess að reyna að forðast þetta.“ Hjónin segja að álagið í vinnunni, ekki síst hvað þetta varðar, og því bein afleiðing af ástandinu í landinu, hafi orðið til þess að þau hafi farið að skoða það alvarlega að flytja burt. „Maður fer líka að velta fyrir sér hæfni sinni til þess að ala upp barn, þegar maður er undir stöðugu álagi,“ bendir Mehmet á. 

Frelsisskerðing að ferðast á tyrknesku vegabréfi

Af pólitískum ástæðum hafa mörg lönd haft takmarkanir gagnvart Tyrkjum, en hjónin segja að þau hafi verið að lenda í því að fá ekki að ferðast til annara landa til þess að fara á ráðstefnur, sem dæmi. „Það, að vera með tyrkneskt vegabréf, gerði það að verkum að við þurftum að sækja um heimsóknarleyfi til þess að skreppa á ráðstefnur og við vorum að fá synjanir. Ástandið hefur enn ekki breyst, en við lendum ekki í þessu lengur, ekki síðan við fluttum til Íslands. Kollegar okkar í heimalandinu eru ennþá í veseni og fá synjanir þrátt fyrir að vera kannski mjög virt fræðafólk og eigi jafnvel að vera frummælendur á alþjóðlegum ráðstefnum. Geta síðan einfaldlega ekki mætt vegna uppruna síns.“

Það er í raun þannig, að við getum ekki fengið heimsókn frá fjölskyldunni. Þessi mál, eru að okkar mati komin á krísustig

Systir Mehmet vildi heimsækja bróður sinn og fjölskyldu á Íslandi. Hún á fyrirtæki á Tyrklandi og barn, sem hún ætlaði ekki að taka með. „Til þess að koma í stuttan tíma og heimsækja okkur á Íslandi, þurfti hún að sækja um heimsóknarleyfi, sanna að hún ætti fyrirtæki og sýna með óhyggjandi hætti að hún myndi fara aftur heim,“ segir Hilal. „Þrátt fyrir að eiga svo líka fimm ára dóttur sem átti að vera hjá ömmu og afa á meðan, fékk hún ekki leyfið, henni var ekki trúað að hún myndi snúa aftur heim eftir heimsóknina.“

Það eru ekki stjórnvöld á Íslandi sem taka þessa ákvörðun, umsóknin er gerð til Danmerkur, til Shengen. „Það er í raun þannig, að við getum ekki fengið heimsókn frá fjölskyldunni. Þessi mál, eru að okkar mati komin á krísustig. Við höfum líka tekið eftir frægu tónlistarfólki frá Tyrklandi á samfélagsmiðlum sem þarf að hætta við uppseldar tónleikaferðir erlendis vegna þess að þau fá ekki að koma inn í löndin sem þau ætluðu að halda tónleikana í.“

Þrátt fyrir að hafa búið við þessar áskoranir vegna uppruna síns, áttu Hilal og Mehmet ekki í erfiðleikum með að flytja til Íslands. „Við vorum búin að sækja um og fá stöðurnar við Háskólann á Akureyri og öll leyfi var auðvelt að fá með aðstoð skólans. „Við erum í forréttindastöðu hérna, sem innflytjendur,“ segir Hilal. „Við erum ekki að flýja stríð, við erum ekki að byrja frá grunni á nýjum stað, við komum beint í örugg störf við okkar hæfi.“

  • 2. HLUTI VIÐTALSINS BIRTIST Á MORGUN Ákvað að koma, vitandi að ég væri öðruvísi