„Það er aldrei of seint að byrja á neinu!“
Jóhannes Bjarki Sigurðsson er nýgræðingur í tónlist þrátt fyrir að vera orðinn 47 ára. Hann hóf að syngja og spila á gítar fyrir fáeinum árum, tók síðan upp á því að semja tónlist og lét þann draum rætast á dögunum að gefa út tvö lög.
„Það er aldrei of seint að byrja á neinu!“ segir Jóhannes Bjarki. Hann er uppalinn á Hjalteyri en hefur búið á Akureyri öll sín fullorðinsár.
Fyrra lagið sem Jóhannes Bjarki gaf út var Stuck og síðan fylgdi Endless Years í kjölfarið. Bæði lögin eru á streymisveitunni Spotify.
„Ég er nýr í þessu þrátt fyrir að vera á miðjum aldri en hef samið lög síðan 2020. Ég byrjaði að syngja 2016 og spila á gítar 2018. Í sumar fór ég með þessi tvö lög í stúdíó og útkoman er komin á Spotify. Ég fékk vana tónlistarmenn með mér í þetta verkefni, Hallgrím Jónas Ómarsson, Valgarð Óla Ómarsson og Stefán Gunnarsson. Allt var þetta partur af mottói mínu í lífinu – að leika mér og hafa gaman!“
Jóhannes hafði engan bakgrunn eða reynslu í tónlist þegar hann byrjaði að „fikta við að syngja“ árið 2016. „Í framhaldinu fannst mér eðlilegt að láta gamlan draum rætast og fór að læra að spila á gítar árið 2018, bara til að geta spilað eitthvað undir þegar ég væri að gaula. Í janúar 2020 prófaði ég í fyrsta skipti að semja lag og það kom mér algerlega á óvart þegar mér tókst það,“ segir hann. „Í framhaldinu hefur mér tekist að búa mér til aðferð til að semja lög á einfaldan hátt þannig að þegar ég sest niður og ákveð að semja þá er yfirleitt komin beinagrind að lagi á 15 mínútum.“ Jóhannes segir bæði lögin sem hann var að gefa út hafa orðið til á þennan hátt, Endless Years í nóvember í fyrra og Stuck í mars á þessu ári.
Smellið hér til að hlusta á Stuck
Smellið hér til að hlusta á Endless Years