Svelgdist einverjum á við nafngiftina?
Í nýjum pistli í röðinni Tré vikunnar fjallar Sigurður Arnarson um regnbogagífur, Eucalyptus deglupta Blume, sem er einstakt á heimsvísu vegna þess að börkur þess er öðruvísi en á öllum öðrum þekktum trjám.
Sigurður segir:
„Á latínu ber þetta tré hið hljómfagra nafn Eucalyptus deglupta. Þetta hljómar dálítið eins og einhverjum hafi svelgst á þegar tréð fékk nafn. Það var þýsk-hollenskur grasafræðingur að nafni Carl Ludwig Blume sem gaf tegundinni nafn árið 1850. Þess vegna er nafn hans aftan við latínuheitið hér að ofan þegar fræðiheiti tegundarinnar er fyrst nefnt.“
Orðið deglupta er komið úr latínu og merkir að skræla eða afhýða með vísan í börkinn á trénu. „Ef við vildum þýða latínuheitið á íslensku gætum við kallað tréð skrælingjagífur. Það gerum við ekki,“ segir Sigurður, heldur notar hann brjáðsnjallt nafn „sem Pétur Halldórsson stakk upp á. Hann benti á að nafnið gífur er gamalt hvorugkynsnafnorð yfir tröllskessur en er nánast horfið úr málinu nema sem forliður og merkir þá eitthvað voðalega stórt. Má nefna gífurlega, gífuryrði og fleira. Þess má geta að í Njálu kemur þetta orð fyrir í skemmtilegri samsetningu. Þar segir um Þórhildi skáldkonu, sem Þráinn Sigfússon frá Grjótá í Fljótshlíð sagði skilið við í brúðkaupi til að biðja sér unglingsstúlku: „Hún var orðgífur mikið og fór með flimtan. Þráinn unni henni lítið.“ Þarna er nú aldeilis orð sem nota má meira! Hver kannast ekki við orðgífur í netheimum?“
Smellið hér til að lesa meira