Sungið saman í Símey – allir eru velkomnir
Síðasta haust byrjaði Símey, Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, að bjóða upp á söngstundir tvisvar í mánuði. Markmiðið með söngstundunum, sem kallast „Syngjum í Símey“, er að efla íslenskunám hjá innflytjendum, mynda tengsl og hafa gaman.
Að sögn Sigurlaugar Indriðadóttur Unnarsdóttur, verkefnastjóra hjá Símey, eru allir velkomnir á söngstundirnar, hvort sem þeir eru að læra íslensku eða ekki. Segir hún að það sé alls ekki nauðsynlegt að vera góður í söng til þess að mæta, því fyrst og fremst er þetta til gamans gert. Hún tekur fram að hópurinn sé ekki að æfa fyrir tónleika eða neitt slíkt og getur fólk því mætt í eitt stakt skipti eða oftar, allt eftir hentugleika. „Það er misjafnt hversu margir mæta en yfirleitt mætir alltaf 10 manna kjarni, en við erum alltaf að reyna að fá fleiri til að koma, sérstaklega Íslendinga,“ segir Sigurlaug og bætir við að frítt sé að taka þátt í söngstundunum.
Það er gott að læra tungumál í gegn um söng. Íslenskunemar í Símey hafa verið duglegir að mæta á söngstundirnar sem eru haldnar í húsakynnum Símeyjar að Þórsstíg 4 á tveggja vikna fresti. Á næstu söngstund verða líklega einhver þorralög sungin enda stutt í þorrablótin.
Gefandi samvera
Það er Hermann Arason sem leiðir söngstundirnar og spilar undir á gítar en lagavalið eru íslensk lög með ekki of þungum texta. „Hermann er alveg dásamlegur og hann er með mikla reynslu af því að leiða ferðamannahópa í söng. Fólk fær textana útprentaða og við reynum að hafa lagavalið fjölbreytt en veljum þó helst lög með textum í einfaldari kantinum og gjarnan með endurtekningum, svo allir geti sungið með,“ segir Sigurlaug. Hún telur að söngstundirnar séu ekki bara góð leið fyrir fólk af erlendu bergi brotið til þess að læra íslensku heldur einnig gefandi samvera fyrir alla þá sem mæta. „Oft erum við líka með einhverjar veitingar og fólk á notalegt spjall fyrir og eftir söngstund,“ segir Sigurlaug og hvetur alla til að koma og syngja í Símey. Næsta söngstund í Símey er annað kvöld, föstudagskvöldið 17. janúar kl. 19.30.
Sigurlaug hjá Símey vill gjarnan sjá fleiri Íslendinga á söngstundunum. Aðeins eru sungin lög með íslenskum textum. Textarnir eru prentaðir út og innihald þeirra er rætt aðeins áður en þeir eru sungnir.