Fara í efni
Mannlíf

Sumarhátíð vegna aldarafmælis Laugaskóla

Framhaldsskólinn á Laugum er 100 ára í ár. Mynd: laugar.is

Framhaldsskólinn á Laugum fagnar 100 ára afmæli í ár, en því til fögnuðar verður opið hús í skólanum á sumardaginn fyrsta, 24. apríl frá 13-16. Kynning verður í matsalnum á sögu skólans, en einnig verða gönguferðir um skólasvæðið þar sem hægt verður að fá kynningu á skólastarfinu. Einnig verður ýmislegt í boði fyrir yngri kynslóðina, en BMX brós verða með hjólasýningu, það verður ratleikur fyrir börnin, þrautabraut og fleira.

Þar með er ekki allt upptalið, en nemendur ætla að sýna verkefni vetrarins, það verða tónlistaratriði, fatamarkaður, dýr og bíósýning. Gestir fá kaffiveitingar í matsal skólans og ís í íþróttahúsinu, og Þingeyjarsveit býður í sund á milli 12-17. 

Skólahald hefur verið samfleytt á Laugum í Reykjadal frá árinu 1925

Framhaldsskólinn á Laugum sem slíkur var stofnaður 1988, en skólahald hefur verið samfleytt á Laugum í Reykjadal allt frá árinu 1925, þegar Alþýðuskóli Þingeyinga hóf göngu sína. Á Laugum er því löng og rík menntahefð og í raun og veru er saga Laugaskóla menningarsaga Þingeyinga drjúgan hluta 20. aldar, segir á heimasíðu skólans, en þar er sérstök síða tileinkuð aldarafmælinu.

 

Fyrsta vetrardag 2025 verður haldið upp á 100 ára afmæli skólans. Skipuð hefur verið afmælisnefnd skólans og í henni sitja Kristján Guðmundsson, Hjördís Stefánsdóttir, Arnór Benónýsson og Sigurbjörn Árni Arngrímsson. Myndir: laugar.is