Fara í efni
Mannlíf

Sumarblær lék um fjölda heldri borgara

Ásta Soffía Þorgeirsdóttir harmonikkuleikari og Grétar Örvarsson tónlistarmaður á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri nýlega.

Ásta Soffía Þorgeirsdóttir harmonikkuleikari og Grétar Örvarsson tónlistarmaður hafa á undanförnum dögum heimsótt hjúkrunar- og dvalarheimili á norðaustanverðu landinu og leikið fyrir heimilisfólk lög af dagskránni Sumarblær – eftirlætislög Íslendinga. Í fyrra buðu þau upp á álíka dagskrá og var ánægjan svo mikil að þau voru beðin um að endurtaka leikinn í ár. Samherji var helst styrktaraðili verkefnisins.

Stutt í ættfræðina

„Það verður bara að segjast ein og er að þessum hópi tónleikagesta, elstu kynslóðinni, er lítið sinnt enda fjárhagslegt bolmagn heimilanna til að mæta kostnaði við slíkt lítið sem ekkert. Það er ekki amalegt að slá inn sumarið með lögum sem allir kannast við. Sjálfum finnst mér mjög svo gefandi að hitta og ræða við heldri kynslóðina og þær eru ófáar sögurnar sem heimisfólk hefur sagt okkur frá böllum þar sem Örvar Kristjánsson faðir minn lék á hérna fyrir norðan. Svo er gjarnan farið út í ættfræðina að loknum tónleikum en við Ásta eigum bæði því láni að fagna að tengjast svæðinu sem er auðvitað ávísun á gott og innihaldsríkt spjall.“

Varla gerlegt án stuðnings

„Við heimsækjum að þessu sinni sex dvalar- og öldrunarheimili frá Siglufirði til Húsavíkur. Þetta eru sérlega þakklátir áheyrendur, sem geta auk þess boðið aðstandendum sínum á tónleikana, sem er frábært. Í fyrra kom útgerðarfélagið Samherji að þessu verkefni með myndarlegum hætti og svo er einnig í ár, án slíks stuðnings væri þetta varla gerlegt. Það er heldur betur upplífgandi að ferðast um landið í sumarbyrjun og fá í kaupbæti að skemmta þakklátum áheyrendum sem skilað hafa drjúgu dagsverki,“ segir Grétar Örvarsson.