Fara í efni
Mannlíf

Sumar- og bjórhátíð í Lystigarðinum

Á Sumar- og bjórhátíðinni á Akureyri um helgina er hægt að smakka íslenska bjóra frá 13 handverks brugghúsum.

Þrettán handverksbrugghús kynna bjórframleiðslu sína á Sumar- og bjórhátíð veitingahússins LYST í Lystigarðinum um helgina. Boðið verður upp á pílumót, tónlistaratriði, götumat og fleira, en fyrst og fremst sumarstemmingu, sama hvernig viðrar.

Hátíðin stendur frá föstudegi til sunnudags en aðaldagurinn er laugardagurinn. Þetta er í þriðja sinn sem LYST blæs til sumarhátíðar í Lystigarðinum og verður sama snið á hátíðinni og í fyrra, þ.e.a.s. að handverksbrugghús taka yfir kaffihúsið á laugardeginum milli klukkan 13 og 18 og setja þar upp sölubása. Að sögn Reynis Gretarssonar, matreiðslumeistara og eiganda LYST, tókst hátíðin í fyrra einstaklega vel og því ekki annað í stöðunni en að endurtaka leikinn.

Armböndin fljót að borga sig upp

Eins og á bjórhátíðum erlendis geta gestir keypt armband sem gefur aðgang að bjór frá brugghúsunum þrettán og aðgang að tónleikunum á laugardagskvöldið. Þá fá armbandshafar einnig happy hour verð á bjór og drykkjum frá fimmtudegi til sunnudags hjá samstarfsaðilum hátíðarinnar, þ.e.a.s.; Eyju, Götubarnum, R5, Backpackers, Móa og að sjálfsögðu hjá LYST. Sem og afslátt á mat hjá Strikinu, Berlín, Múlabergi, Aurora og Ketilkaffi.  Að sögn Reynis kostar armbandið 10.500 kr. en er fljótt að borga sig upp ef fólk ætlar að gera vel við sig um helgina á Akureyri. Við bjóðum líka upp á klippikort á 5.500 kr. fyrir þá sem vilja bara rétt kíkja í Lystigarðinn á laugardag og þá er líka í boði að kaupa staka bjóra,“ segir Reynir. Hann mælir samt heilshugar með armböndunum því reynslan í fyrra hafi sýnt að margir sáu eftir því að kaupa ekki armband því þá langaði til þess að smakka fleiri bjóra en klippikortið bauð upp á. Margir gestir voru því fljótt komnir upp í sömu upphæð og verð á armbandi með því að kaupa staka bjóra. 

Það verður mikið um að vera á Akureyri dagana 19.-21. júli þegar Sumar- og bjórhátíð LYST verður haldin. Reynir segir að gestum hátíðarinnar í fyrra hafi fundið sérlega skemmtilegt að geta rætt beint við bjórframleiðendurnar enda önnur upplifun að fá bjórinn afgreiddan beint frá þeim.

Bjór, tónlist og götumatur

Laugardagurinn í Lystigarðinum verður með því sniði að brugghúsin koma sér fyrir innandyra en ætlast er til þess að gestir fari út með drykkina og komi sér fyrir í garðinum. Sett verður upp a.m.k eitt stórt tjald með bekkjum en fólki er velkomið að koma með eigin stóla og teppi. Klukkan fjögur eru fríir tónleikar í garðinum fyrir gesti með Lauru Roy og Rakel og píludeild Þórs stendur fyrir pílumóti. Þá verður hægt að gæða sér á „food truck style“ mat, eins og Reynir orðar það, auk þess sem Tony Mellado verður með paellu. Um kvöldið klukkan níu verður svo Una Torfa með tónleika sem eru hluti af útitónleikaseríu LYST. Tónleikarnir eru innifaldir fyrir armbands gesti en aðrir geta keypt miða á tónleikana.

Stjórnar ekki veðrinu

Reynir segist ekki vera að stressa sig yfir veðurspánni en voni auðvitað hið besta. Í fyrra voru veðurguðirnir hátíðinni sérlega hliðhollir, en daginn eftir hátíðina kom svo mesti rigningardagur sumarsins. „Við bætum við tjöldum ef það stefnir í úrkomu en ég stjórna víst ekki veðrinu,“ segir Reynir sem vill gjarnan sjá hátíðina stækka með hverju ári og verða að ómissandi föstum sumarviðburði á Akureyri. Segist hann ekki endilega vilja að dagskráin í Lystigarðinum stækki heldur frekar að stemningin dreifi sér víðar um bæinn og fleiri samstarfsaðilar komi að hátíðinni. „Við þurfum að passa upp á Lystigarðinn og vernda hann svo við fáum að vera hér áfram,“ segir Reynir og undirstrikar að hátíðin sé engin fylleríshátíð heldur fyrst og fremst kynning á íslenskum handverksbjórum. Lystigarðurinn verður því tæmdur eftir tónleikana en þeir sem vilja meira geta farið niður í bæ og haldið stemmingunni áfram hjá samstarfsaðilum. Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má fá á Facebook síðu hennar. Sala á armböndum er hafin á heimasíðunni Lyst.is en klippikort verða seld á staðnum.

Frá hátíðinni í fyrra. Helstu barir og veitingahús í bænum tengjast hátíðinni og fá þeir sem kaupa armband á hátíðina góðan afslátt á mat og drykk hjá samstarfsaðilum í bænum.