Fara í efni
Mannlíf

Sumar- og bjórhátíð LYST á laugardag

Reynir Grétarsson, veitingamaður á LYST, vill fá meira líf og fleiri Íslendinga til að njóta lífsins í Lystigarðinum.

Lystigarðurinn, eða að minnsta kosti hluti hans, mun væntanlega iða af lífi á laugardaginn og laugardagskvöldið. Þar er á dagskrá Sumar- & bjórhátíð LYST kl. 13-18 og aftur kl. 21-24. Bjór, matur og tónlist er það sem verður í hávegum haft.

Reynir Grétarsson, veitingamaður á LYST, hefur staðið í ströngu við undirbúning hátíðarinnar og sagði hann í samtali við Akureyri.net að honum hafi alls staðar verið vel tekið og hátíðin fengið góð viðbrögð. Hann hafi yfirleitt fengið níu já á móti einu nei þegar hann leitaði eftir samstarfi, aðstoð og þátttakendum. Það kostar líka talsverða vinnu að setja upp svona hátíð, leyfi og samstarf við ýmsa aðila hjá Akureyrarbæ, samstarf við stjórnendur garðsins, fá brugghús inn á hátíðina, veitingahús í bænum með í verkefnið, skemmtikrafta, hljóðkerfi, partítjöld og svo framvegis.

Undirbúningur fyrir hátíðina stendur sem hæst og að mörgu að hyggja á hátíðinni verða 11 brugghús með framleiðslu sína á dælum inni í húsinu, auk samstarfs við nokkra aðila um mat. Brugghúsin á hátíðinni verða með sitt eigið fólk við að afgreiða bjórinn þannig að starfsfólk Reynis í LYST getur þá sinnt öðrum verkefnum og séð til þess að allt fari vel fram. 

Góð reynsla af viðburðum í sumar

Aðspurður segist Reynir ekki vita til þess að neitt í þessa veru hafi verið gert áður í Lystigarðinum, en markmið hans er að fá meira líf í garðinn, fá fleiri Íslendinga til að koma þangað og njóta þess að vera í þessu listaverki sem Lystigarðurinn er. Reynir vísar til þess að Lystigarðurinn er mjög vinsæll viðkomustaður erlendra ferðamanna, einkum þeirra sem koma hingað með skemmtiferðaskipum. En um leið og hann kemur þessari sumar- og bjórhátíð á fót gerir hann sér líka grein fyrir að það þarf að vanda til verka, vera með öfluga gæslu og passa upp á listaverkið. Takist vel til má klárlega búast við fleiri álíka viðburðum.

Hann segir reynsluna af viðburðum í sumar einstaklega góða og vísar þar til þess að Akureyrarbær hafi ákveðið að færa alla hátíðardagskrána á 17. júní í garðinn og nýlega hafi Mugison haldið þar tónleika við góðan orðstír, sem tekist hafi einstaklega vel og myndast góð stemning.


Frá tónleikum Mugison á dögunum. Gott skjól er í Lystigarðinum og í góðu veðri getur myndast þar einstök stemning. Mynd: Mugison.

Ellefu brugghús í hring í húsinu

Brugghúsin sem verða með framleiðslu sína á hátíðinni eru RVK brewing, 6a Kraftöl, Húsavík öl, BORG, Malbygg, Dokkan, Segull 67, Grugg & Makk - Gæðingur, Og Natura, Brothers brewing og Álfur. Samstarf um veitingar í föstu formi er við Majo Sushi og Brauð & co. Ölið verður allt saman afgreitt inni í húsinu þar sem dælunum frá brugghúsunum ellefu verður komið fyrir í hring.

Kvöldpartíið verður fyllt af tónlist í umsjá KUSK & ÓVITA annars vegar og LOVE GURU hins vegar. Ókeypis aðgangur er á hátíðina, en ölið fæst með afslætti eftir ýmsum leiðum. Gestir geta keypt sér armbönd á www.dineout.is/lyst og veita þau aðgang að endalausum bjór eins og það er orðað á Facebook-síðu viðburðarins frá kl. 13-18 á laugardag, en að auki einnig afslátt á bestu veitinga- og drykkjarstaði bæjarins alla helgina, 21.-23. júlí. Afslátturinn felst einnig í að kaupa snemma og ná forsöluverði. Gestir sem vilja halda drykkjunni í meira hófi geta svo í stað armbands keypt sér klippikort eða staka drykki á meðan á hátíðinni stendur.