Fara í efni
Mannlíf

Súlur Vertical: Um 300 krakkar hlupu

Myndir: Skapti Hallgrímsson

Um 300 tóku í dag þátt í krakkahlaupinu sem markar jafnan upphaf hlaupahátíðarinnar Súlur Vertical á Akureyri um verslunarmannahelgina.

Um miðjan dag hellirigndi á Akureyri, allt var því rennandi blautt í Kjarnaskógi þar sem hlaupið fór fram en það dró ekki úr gleðinni. Aðeins komu fáeinir dropar úr lofti á meðan krakkarnir sprettu úr spori og fljótlega var að mestu skrúfað fyrir stóra kranann þaðan sem regnið kemur.

Fullorðna fólkið hleypur á morgun, laugardag, þeir hörðustu hlaupa 100 km, en einnig er boðið á 43 km, 28 km og 19 km hlaup. Í lengsta hlaupið er 31 þátttakandi skráður og leggur sá hópur af stað frá Goðafossi (og lögðu reyndar af stað ýmist í gærkvöldi eða snemma í nótt), en aðrir hefja leik í Kjarnaskógi. Endamark allra er í göngugötunni í miðbæ Akureyrar.