Tvö ný lög strákanna í Miomantis – hlustið
Akureyrska hljómsveitin Miomantis sendi á dögunum frá sér tvö lög af LP plötu sem væntanleg er á næsta ári. Fyrri singullinn var Rats Encaged og sá síðari Rotting Roses Turned to Gray.
Hljómsveitina skipa Davíð Máni Jóhannesson, söngvari og gítarleikari, Zophonías Tumi Guðmundsson sem leikur á bassa og Bjarmi Friðgeirsson trommari.
„Lagið kemur frá stað reiði, og fjallar um þunglyndi og sjálfsvígshugsanir,“ segir Davíð Máni um fyrra lagið, Rats Encaged, hann segir það ekki beint fyrir krakka til að hlusta á „en þetta er umfjöllunarefni sem skiptir mig máli, enda hef ég marg oft verið á svona stað. Fundist ég vera fastur í búri. Svona eins og rotta.“
Smellið á nöfn laganna til að hlusta: Rats Encaged Rotting Roses Turned to Gray
Ekki bara dans á rósum
„Ég samdi aðal riffið og fannst það nett,“ segir Davíð um fyrra lagið, Rats Encaged. So urðu riffin fleiri, svipuð en þó með lúmskum breytingum. Þegar lagið var tilbúið settist hann við tölvuna til að semja texta og lét hugann flæða. „Mér finnst umfjöllunarefni um svona vanta í íslenskri tónlist,“ segir Davíð. Þar sé léttleikinn oft áberandi, sem sé ekki slæmt, „en fólk þarf líka að heyra að raunveruleikinn er ekki bara dans á rósum.“