Fara í efni
Mannlíf

Stórt tap Þórsara og sætaskipti við Fjölni

Tim Dalger skoraði mest Þórsara eins og oft áður. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Heimavallarrétturinn í fyrstu umferð umspils 1. deildar karla í körfuknattleik gekk karlaliði Þórs úr greipum í kvöld þegar Þórsarar tóku á móti Fjölnismönnum í næstsíðustu umferð deildarinnar. Gestirnir fóru með sigur af hólmi og liðin höfðu sætaskipti. Úrslit lokaumferðarinnar skipta ekki máli í því sambandi, Fjölnir mun enda í 5. sæti og Þór í 6. sæti deildarinnar.

Ekki aðeins náði Fjölnir 5. sæti deildarinnar með sigrinum heldur einnig betri stigamun í innbyrðis viðureignum liðanna. Þór vann fyrri leikinn á útivelli með 18 stiga mun, en Fjölnismenn gerðu gott betur og unnu með 37 stiga mun í kvöld. Það þýðir að þó svo úrslit í lokaumferðinni yrðu hagstæð Þórsurum næðu þeir ekki sætaskiptum aftur. Líkurnar væru heldur ekki með Þórsurum því þeir mæta næstefsta liði deildarinnar, Ármanni, í lokaumferðinni á meðan Fjölnir tekur á móti botnliði Skallagríms.

Skemmst er frá því að segja að Þór skoraði fyrstu körfu leiksins, en Fjölnir hafði síðan forystu í leiknum í 39 mínútur. Munurinn var þó lengst af fyrri hálfleiks um tíu stig. Þórsarar náðu aldrei alveg í skottið á gestunum og lokafjórðungurinn endaði með 24ra stiga sigri gestanna. Lokatölur 77-114. 

Þór og Fjölnir mætast í fyrstu umferð umspils liðanna í 2.-9. sæti um laust sæti í efstu deild. Úrslitin í gærkvöld þýða að Fjölnir byrjar seríuna á heimaleik og á oddaleikinn heima ef til þess kemur.

Tim Dalger skoraði mest Þórsara í kvöld, 26 stig. Sigvaldi Eggertsson skoraði mest Fjölnismanna, 21. stig.