Fara í efni
Mannlíf

Svona eða hinsegin – þá erum við bara manneskjur og ég heiti Stína!

Áslaug Lind Guðmundsdóttir, Kristín Elva Viðarsdóttir og séra Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur í Akureyrarkirkju.

Kristín Elva Viðarsdóttir sálfræðingur á Akureyri flutti magnað erindi í Regnbogamessu í Akureyrarkirkju á sunnudaginn var ásamt konunni sinni, Áslaugu Lind Guðmundsdóttur. „Ég er lesbía… og ég er kristin. Það er minn kjarni sem skilgreinir mig,“ segir hún meðal annars í mjög umhugsunarverðum hugleiðingum sínum. Kristín Elva veitti Akureyri.net leyfi til að birta erindið. 
_ _ _

Komið þið sæl. Ég heiti Kristin Elva en alltaf kölluð Stína og með mér er konan mín Áslaug Lind. Við þökkum kærlega fyrir boðið að fá að tala hér í dag. Góður vinur minn sem ég hitti um daginn spurði mig hvort við værum ekki á leið suður á hinsegin daga. Við höfum reyndar ekki náð því í einhver ár og þar sem við erum ekki þar þá viljum við hvergi annars staðar vera en hér í kirkjunni að tala um mál sem er svo sannarlega mikilvægt og skiptir okkur máli. Ég hef oft mætt í regnbogamessu. Ég man eftir fyrstu regnbogamessunni i Laugarneskirkju sem ég fór með mömmu í. Ég hef samt aldrei talað sjálf fyrr en núna svo þetta er mér mikill heiður. Ég reyndar hugsaði um stund þegar séra Hildur spurði mig hvort ég vildi tala, hvað ég hefði fram að færa miðaldra lesbían, en eins og flest hinsegin fólk þá hef ég mína sögu og svo er ég líka unglingasálfræðingur sem hitti hinsegin fólk reglulega. Unglinga sem eru að fóta sig í heimi sem er ekki alltaf fallegur. Ég bað Áslaugu mína að vera rödd mína í dag líka. Hún mun lesa upp hugleiðingar mínar í fyrstu persónu hér inn á milli.

En ég heiti sem sagt Stína. Ég er sálfræðingur og starfa við Menntaskólann og aðeins á stofu og svo kenni ég líka sálfræði við Háskólann á Akureyri. Þegar ég er að kenna um sjálfsmyndina bið ég nemendur mína oft um að klára setninguna „ÉG ER…“ og bæta þá við einhverjum 5 mismunandi orðum. Þau spyrja mig oft á móti … „en þú Stína…“ hver ert þú. Í gegnum árin hefur svarið við þessu breyst eitthvað. Ég er alltaf fyrst og fremst mamma. Börnin okkar 5 eru reyndar ekki hér í dag. Einn er á fiskidögum, annar í útilegu með kærustunni og einn í sumarbústað. Allir voru þeir stoltir af mér og einn spurði hvort það mætti ekki bara skila kveðju. Svo var þetta einmitt dagurinn sem ein ætlaði sér að sofa út… sá yngsti er nýfermdur og brosti nú smá þegar við spurðum hann hvort hann ætlaði ekki að mæta og sagði svo „en ég þarf ekki lengur að safna messum“… svo er boltinn byrjaður og svona.

En talandi um hver ég er þá er ég í dag líka sambýliskona og amma. Ég er systir og ég er dóttir. Stundum nefni ég að ég sé KA manneskja en í seinni tíð hef ég reyndar líka haldið með Þór út af krökkunum mínum sem tvö keppa undir því merki. En ég held alltaf bara með Manchester United þó allt í kringum mig sé Liverpool lið og einn Tottenham gaur. Við pabbi minn erum glory glory alla leið. Það er reyndar létt grín í bransanum að maður megi skipta um maka – sem ég hef nú reyndar einmitt gert… en alls ekki um lið í enska boltanum… alla vega ekki eftir 12 ára aldur. Svo er ég líka auðvitað sálfræðingur og kennari… en í mínum kjarna koma alltaf tvö orð í þessu samhengi. Ég er lesbía… og ég er kristin. Það er minn kjarni sem skilgreinir mig.

„Vá hvað hún er sæt. Ég bara vil alltaf vera með henni. Þetta er eitthvað skrýtið. Mér fannst æðislegt þegar hún kyssti mig í gær. Það á samt ekki að kyssa stelpu svona. Hún er líka stelpa. Hvað er að mér. Þetta er ekki gott. En vá hvað hún er sæt. Og jú þetta er gott. Mig langar að hitta hana á eftir. Athuga hvort hún vill koma aftur og búa til snjóhús. Það var svo skemmtilegt. En þetta gengur ekki. Ég verð nú kannski bara að eignast kærasta. Allar hinar stelpurnar eru komnar með kærasta. Þær eru búnar að segja að einn strákur sé mjög skotinn í mér og kannski annar líka. Ég veit ekki. Hún er bara svo sæt. Ég get þetta ekki. Þetta má ekki“.

Þetta eru hugleiðingar ungrar lesbíu fyrir mörgum árum… enda er ég orðin fimmtug. Ég gerði nú ekkert í þessu, vissi svo sem ekki nákvæmlega hvað þetta þýddi og lífið hélt bara áfram. Varðandi bakgrunn minn, án þess að fara nákvæmt í það, þá tilheyrði ég sértrúarsöfnuði sem á tímabili litaði líf mitt og þetta var alveg útilokað og í raun mikil synd. Þannig að, eins og ég sagði, áfram hélt lífið og ég gifti mig inn í söfnuðinn en eftir 8 ár í hjónabandi kom loks að því.

„Ég er komin niður í miðbæ… fór á mína samkomu í morgun þar sem talað var um gönguna… alls ekki fallega. En mætt er ég. Klukkan var að verða 3. Á ég að þora??? Hvað ef fólk sér mig… Ég á mann… Nú er ég að verða þrítug. Það er annað hvort að hreinlega deyja eða að gera eitthvað í þessu. Ég bara skelli mér. Hópur fólks var búinn að bjóðast til að leyfa mér að ganga með sér. Fólk sem ég hafði hitt á netinu… þegar ég var að laumast að tala við fólk… sem er svipað og ég. Þau voru þarna. Ég fer… Og ég fór… og ég upplifði frelsi. Og ég upplifði að tilheyra. Það er svo gott að tilheyra samfélagi…“

Þetta hafði sínar afleiðingar. Ég fór í gönguna og nú fóru hlutirnir að gerast. Mér fannst ég reyndar ekki ráða neitt við neitt.

„Ég bara verð að skilja við hann. Þetta gengur ekki lengur svona. Annað hvort dey ég eða ég stend með sjálfri mér og tek þessi skref, sem þarf að taka. Ég er búin að segja minni fjölskyldu frá skilnaðinum og þar hef ég fullan stuðning. Svo hringi ég í nána vinkonu. Hæ þetta er ég… sko við Siggi erum að skilja. Þögn… ég er spurð af hverju… ég segi að ég treysti mér ekki til að segja henni það… og að hún verði ekki glöð. Ég átti fullt af nánum vinkonum og vinum í söfnuðinum og var hún ein af þeim. „Sama hvað Stína mín þá verður þetta í lagi“ segir vinkona mín. Ég hressist aðeins… „sendu mér bréf í tölvupósti Stína… ég hringi svo í þig – ég lofa… það er ekkert sem getur verið það slæmt að ég hringi ekki. Við erum og verðum alltaf vinkonur“… ég sendi bréfið – segi henni að ég sé samkynhneigð og geti bara ekki meir… Bréfið fer af stað… ég sit við símann… ekkert gerist. Ég reyni að hringja í símann úr farsíma mannsins míns sem lá á borðinu – ætli heimasíminn virki ekki … jú það hringir þegar ég hringi… bíð, bíð og bíð… ekkert gerist – ég heyri ekkert. Heyri samt aftur og aftur rödd vinkonu minnar „það er ekkert svo slæmt að ég hringi ekki“… en bara þögn. Löngu síðar hringdi hún og hringir í dag.

En ég fór í gleðigönguna og í framhaldinu tók ég þau skref sem þurfti að taka. Og í göngunni var ung kona sem varð konan mín ári síðar. Þá var ég skilin við manninn minn og ákvað að flytja hingað norður til þess að vera með henni. Ég var bjartsýn á framtíðina. Ég er reyndar þannig gerð að ég hef alltaf ofurtrú á sjálfri mér og ég hélt að mögulega myndi söfnuðurinn minn taka þessu. En fordóma hafði ég líka … fordóma gagnvart sjálfri mér.

„Þetta var ég… þeir hljóta að vilja að hafa mig. Ég breyti þessu bara, þessum reglum í söfnuðinum og nú verða samkynhneigðir velkomnir. „Við förum í kirkjuna“ segi ég við konuna mína þáverandi þegar við vorum staddar fyrir sunnan eina helgi. Hún varð við því. Nú verður þú rekin sagði nákominn ættingi. Ég hélt nú ekki. Þetta verður í lagi. Ég sendi bréf og bið um að safnaðarbréf mitt verði fært hingað norður. Það kom svar. Æðsti presturinn vill hitta mig… in person eins og það var orðað… á Bláu könnunni… ég man nákvæmlega í hvaða sætum við sátum… sæl Kristín… hvað er hann að segja… við höfum komist að þeirri niðurstöðu að þar sem þú býrð með konu þá átt þú ekki lengur samleið með okkur… ha… ég man ekki mikið meir… ég reyni bara að skæla ekki og drekk kaffið mitt… bless. Guð er farinn… ó hvað þetta er erfitt. Af hverju er ég svona…“

Ég man að ég hitti kunningjakonu mína fyrir tilviljun nokkru síðar og hún vissi greinilega af þessu samtali og sagði „vonandi var hann samt alla vega kurteis“. En lífið hélt áfram og við þáverandi konan mín áttum svo von á barni. Þessu hafði ég beðið eftir lengi og var svo sannarlega glöð. Fyrsta barnið mitt. Ég hélt lengi að þetta væri ekki möguleiki verandi samkynhneigð.

„Það er Hvítasunnudagur. Ég fæ að hringja í mömmu mína beint af fæðingardeildinni. „hún er komin mamma“. Er hún ekki sætust allra segir mamma… jú. Við afi erum á leiðinni norður Stína mín. Þetta var fallegasti dagur lífs míns. Það var snjór þó það væri kominn lok maí. Ég horfði á þessa litlu stelpu mína. Ég fékk svo að setja hana í bað og allt starfsfólkið stóð sig svo vel gagnvart okkur. Þetta var fyrsta barnið sem samkynja foreldrar eignast á Sjúkrahúsinu á Akureyri og allir standa sig svo vel gagnvart okkur. Inga ljósmóðir var einstök. Ég horfi á bleika bandið á úlnliðnum á mér – glöð að ég fékk líka band… hún er komin… ég er loksins orðin mamma. Og í því hlutverki ætla ég sko að standa mig. Þessir fordómar … innri fordómar ganga ekki lengur. Ég heyri í kirkjunni. Það var hvítasunnudagur og ég heyrði í mínu fólk í kirkjunni. Mér var tekið vel… „við hittumst á morgun Stína og förum yfir þetta“. Ég mætti næsta dag niður í Akureyrarkirkju… ný orðin mamma. Við fórum yfir þetta… fordómar ganga ekki. Ég get ekki alið upp barn og upplifað mig synduga og ekki í lagi. Þarna breyttist allt… og Guð kom til baka… og hann hefur ekki farið síðan… sem er gott því það er svo gott að hafa Guð… það gerir allt betra og léttara. Og ég var skráð í Þjóðkirkjuna. Ég hafði eignast kirkju aftur. Ég var bjartsýn á framtíðina“.

Það má svo sannarlega þakka starfsfólki Akureyrarkirkju fyrir vel unnin störf í tengslum við þetta. Svo leið tíminn og barn tvö fæddist. Ég er svo heppin að eiga samtals í dag 5 börn eins og ég sagði í upphafi. Þó lífið með barnsmóður minni hafi ekki gengið upp þá var ég svo heppin að hitta síðar lífsförunaut minn og með henni stend ég í dag… Vinkonur mínar segja reglulega „við þökkum fyrir Áslaugu“ og hvar haldið þið að fyrsta deitið okkar hafi verið. Nú á Bláu könnunni. Í sömu sætum og forðum daga þegar ég sat þar og hlustaði á æðstaprestinn… og lífið heldur áfram. Ég hef í raun átt mjög fallegt líf og ekki upplifað mikið af fordómum. Bara alls ekki. Og ég á þessa dásamlegu fjölskyldu. Ég hef hins vegar áhyggjur…

„Það kemur bréf frá skólanum… Leikritið Góðan daginn faggi var sýnt fyrir nemendur. Ég held áfram að lesa bréfið… nemendur kölluðu ljóta hluti í átt að leikurunum og sumir skrifuðu mjög slæma hluti í opnar nafnlausar spurningar. Ekki margir… en samt. Umsjónarkennari hringir. Sæl Kristín… mig langaði bara að nefna við þig að það kom mikið að ljótum kommentum á sýningunni í dag. Þetta voru alls ekki margir nemendur en samt. Ég fékk kökk í hálsinn. Eðlilega hafði ég áhyggjur af börnunum mínum því ef krökkum finnst þetta um það fólk sem þarna kom fram þá finnst þeim þetta mögulega um mig og hina mömmu þeirra og Áslaugu. Tárin runnu hjá mér… fordómarnir birtast á ýmsan hátt. Ég hringi í skólastjórann og röddin brestur. Skólastjórinn boðar mig á fund og ég hitti alla stjórnendur. Þær hlusta – ég skæli smá. Þetta tekur á. En þær hlusta og skilja og lofa að taka á þessu. Takk“

Og áfram held ég með hugleiðingar mínar

„Það eru fordómar… bakslag… þó við verðum að passa okkur að tala ekki of mikið um það því margt jákvætt er líka í gangi - en baráttan er svo sannarlega ekki búin… Ég keyri fram hjá Naustaskóla. Hvar er fáninn? Þessi fallegi stóri hinsegin fáni sem var svo gaman að sjá á hverjum morgni. Seinna heyri ég að hann hafi verið skorinn niður… eins og svo margir sambærilegir fánar á Íslandi í dag… „Stína þetta er svo scary heimur ég þori ekki“… „Stína af hverju taka þau mér ekki eins og ég er“… Stína af hverju geta þau ekki kallað mig nafninu sem ég vil þau kalli mig“… „ Stína ég verð bara að bíða… þetta gengur ekki núna… ég bara get þetta ekki Stína“. „Stína ég er svo hrædd“. Þetta eru raddir unglinga sem ég tala við. Hinsegin unglinga sem ég hitti. Svo fæ ég að sjá öll skelfilegu kommentin sem unglingarnir eru að sýna mér úr netheimum…sérstaklega gagnvart trans ungmennum. Þetta er erfitt. „Við gerum þetta saman – þetta verður í lagi“ segi ég.“

Sjálf þakka ég fyrir mitt fólk. Mömmu mína og pabba minn sem eru mitt bjarg og akkeri. Sem sögðust vera svo stolt af mér að vera að tala í dag. Þið sem þekkið mömmu vitið auðvitað að hún er svo mikil skvísa þannig að hún fór nú líka að spá í í hverju ég yrði í kirkjunni– hvort ég ætlaði ekki að vera smart. Og pabbi sagði „þetta er stórkostlegt eintak sem við eigum“ við mömmu. Ég vinn líka á heimsins besta vinnustað og vinkonur mínar eru sko í meistaradeildinni allar sem ein. Svo á ég dásamlega konu og börn.

Mín von er að einn daginn verðum við samfélag þar sem mannréttindi verði við lýði þannig að öll verðum við jöfn og unglingarnir mínir sem ég vinn með þurfi ekki að fara í gegnum þetta allt. Og að börnin okkar þurfi ekki að upplifa fordóma í garð foreldra sinna. Að allir verði jafnir og að við verðum samfélag. Það mun gerast. Þangað til þurfum við að hlú hvert að öðru. Allir þurfa samfélag og stundum er bara einn nóg… höfum það í huga. Við getum verið þessi eini.

„Ég fæ oft samviskubit. Af hverju beið ég svona lengi. Af hverju var ég svona mikil gunga. Ég faldi mig á meðan aðrir tóku slaginn og gengu með vindinn í fangið. Fullt af fólki. Þessu fólki er ég óendanlega þakklát, bæði gagnkynhneigt og hinsegin fólk. Það er þeim að þakka að ég á mína fallegu fjölskyldu. Ég gleymi ekki stundinni þegar ég hitti Guðrúnu Ögmundsdóttur þáverandi alþingismann fyrir tilviljun í afmæli en það er m.a. henni að þakka að lög um réttindi til barneigna voru samþykkt á alþingi. Ég kom varla upp orðinu takk en ó hvað ég er henni og mörgum öðrum þakklát.“

Við þurfum að virða fortíðina og þakka fyrir hana og horfa björtum augum á framtíðina því þegar öllu er á botninn hvolft: svona eða hinsegin – þá erum við bara manneskjur og ég heiti Stína!