Fara í efni
Mannlíf

Steypustöð M og S frá Súluvegi í Sjafnarnes

Séð yfir athafnasvæðið sem um ræðir og teygir sig inn á verndarsvæði Glerár. Glerárgil er á náttúruminjaskrá, ekki friðlýst heldur á skrá undir flokknum aðrar náttúruminjar. Mynd: Þorgeir Baldursson
Bæjarráð Akureyrarbæjar hefur að tillögu skipulagsráðs samþykkt að gera tímabundinn lóðarleigusamning til tíu ára um lóð við Súluveg 2 við M og S ehf. Takmarkaður gildistími samningsins gæti verið vísbending um breytta landnotkun svæðisins til lengri framtíðar. 
 
Jafnframt úthlutuninni hefur verið gert samkomulag um brotthvarf steypustöðvar og tilheyrandi starfsemi af nyrðri hluta sama skipulagsreits og úthlutun lóðar í Sjafnarnesi 9 fyrir starfsemina. Gert er ráð fyrir að steypustöðin og tilheyrandi starfsemi verði komin í rekstur í Sjafnarnesinu á árinu 2025, en leyfi fyrir verkstæði við Súluveginn verði áfram til 1. maí 2027.
 
Umræða hefur farið fram um landnotkun svæðisins til lengri framtíðar, en þó ekkert fast í hendi um breytingu á henni. Eins og staðan er í dag er svæðið skilgreint sem athafnasvæði, bæði í aðal- og deiliskipulagi. Mögulega er það þó vísbending um að gert sé ráð fyrir breytingum á landnotkuninni í framtíðinni að lóðarleigusamningurinn skuli aðeins vera til tíu ára. Í því sambandi má rifja upp bókanir sem lagðar voru fram í þáverandi skipulagsráði árið 2013 þegar gerðar voru breytingar á aðal- og deiliskipulagi.
 
Nyrsti hluti athafnasvæðis M og S ehf. á lóðinni við Súluveg. Þessi starfsemi mun flytjast í Sjafnarnes á komandi mánuðum. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Þurfa að uppfylla skilmála deiliskipulags
 
Fulltrúar Akureyrarbæjar og M og S ehf. undirrituðu samkomulag þann 8. júlí um brotthvarf starfseminnar af lóðinni við Súluveg (L149595 í skipulagi). Í samkomulaginu felst meðal annars að M og S ehf. verði úthlutað lóð að Sjafnarnesi 9 án auglýsingar fyrir steypustöð ásamt tilheyrandi verkstæði, starfsmannaaðstöðu og skrifstofu. Einnig verður heimilt að byggja verslun á lóðinni.
 
Í raun er hér um tvö mál og tvær lóðir að ræða, en starfsemin á svæðinu eins og hún er í dag er ekki í samræmi við skilmála deiliskipulags enda er úthlutun lóðarinnar gerð með þeim skilyrðum að samningurinn og úthlutunin taki gildi þegar hreinsað hefur verið til á lóðinni og skilmálar deiliskipulags uppfylltir. Þar er vísað til þess að athafnasvæði fyrirtækisins er ekki í samræmi við afmörkun lóðarinnar samkvæmt gildandi deiliskipulagi, eins og skýringarmyndirnar hér að neðan sýna. 
 

Loftmynd af umræddum lóðum. Steypustöðin ásamt tilheyrandi nyrst á svæðinu mun víkja í síðasta lagi á næsta ári, en gerður hefur verið lóðarleigusamningur til tíu ára um syðri hlutann.

Deiliskipulag athafna-, verslunar- og þjónustusvæða við Súluveg, Miðhúsabraut og Þingvallastræti. Gráa svæðið (A) er lóð fyrir almenna atvinnustarfsemi. Gula svæðið (B) er lóð undir eldsneytisafgreiðslustöð.
Fyrirvari um gildistíma og bótalaust brotthvarf
 

M og S ehf. hefur hins vegar gert fyrirvara varðandi gildistíma lóðarleigusamninga og telur að líta ber á þá sem ótímabundna lóðarleigusamninga samkvæmt venjum og hefðum. Áðurnefnt samkomulag um Sjafnarnes 9 er því gert með þeim fyrirvara að M og S ehf. áskilur sér rétt til að leita réttar síns fyrir dómi vegna gildistímans og þeirrar kröfu sem Akureyrarbær hefur gert að M og S ehf. fjarlægi mannvirki af lóðinni Súluvegi 2 bótalaust.

Samkvæmt samkomulaginu ber M og S ehf. að fara af lóðinni við Súluveg þann 1. júlí 2025 og vera búið að rífa og flytja allar fasteignir af lóðinni innan þriggja mánaða frá þeim degi, eða 1. október á næsta ári, bótalaust sbr. ákvörðun bæjarráðs frá 2. september 2021. Undantekning frá þessu er þó að M og S ehf. og tengdir aðilar skuli hafa afnot bílaverkstæðis við Súluveg til 1. maí 2027 þar sem fyrirsjáanlegt er að ný aðstaða fyrir fyrirtækið sem leysir verkstæðið af hólmi verði ekki til fyrr. Fram kemur í samkomulaginu að Akureyrarbæ verði eftir sem áður heimilt að setja hringtorg á gatnamót Súluvegar og Þingvallastrætis.

Áætluð tímalína

Í fylgiskjali með samkomulaginu er sett fram tímalína, áætlun fyrir flutning steypustöðvarinnar yfir í Sjafnarnes og frágang á lóðinni við Súluveg.

  • Afhending lóðar við Sjafnarnes – júlí 2024
  • Jarðvegsvinna á lóð í Sjafnarnesi – júlí-ágúst 2024
  • Steyptir sökklar og annað undir steypustöð – september-október 2024
  • Starfsemi hefst í Sjafnarnesi - janúar 2025
  • M og S ehf. ber að fara af lóðinni við Súluveg – fyrir 1. júlí 2025
  • Framlenging á starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits fyrir starfsemi steypustöðvar á núverandi lóð – til 1. september 2025
  • M og S ehf. ber að rífa og flytja allar fasteignir af lóðinni við Súluveg – fyrir 1. október 2025
  • Byrjað að taka niður steypustöð við Súluveg – apríl 2025
  • Samráð við Akureyrarbæ um frágang lóðar við Súluveg – apríl-maí 2025
  • Afnot bílaverkstæðis við Súluveg – til 1. maí 2027
Umdeild breyting á skipulagi 2013
 
Í deiliskipulaginu og greinargerð með því frá 2013 var gert ráð fyrir að steypustöðin nyrst á lóðinni myndi víkja 2016. Segja má að starfsemin á svæðinu hafi verið umdeild, eða öllu heldur að staðsetning steypustöðvar ásamt tilheyrandi, á þessum stað hafi verið umdeild og þyrnir í augum næstu nágranna. Bent hefur verið á að stutt sé í íbúðabyggð, auk þess sem deiliskipulagssvæðið teygi sig langt inn á verndarsvæði Glerár. Glerárgil er á náttúruminjaskrá, ekki friðlýst heldur á náttúruminjaskrá undir flokknum aðrar náttúruminjar.
 
Við breytingar sem gerðar voru á aðal- og deiliskipulagi fyrir umrætt svæði árið 2013, meðal annars vegna áfyllingarstöðvar fyrir metan, var ekki einhugur í þáverandi umhverfisnefnd Akureyrarbæjar. Hulda Stefánsdóttir og Páll Steindórsson, fulltrúar L-listans í umhverfisnefnd, lögðu þá til að settar yrðu kvaðir inn í skipulagslýsinguna þess efnis að einungis verði um umhverfisvæna starfsemi að ræða á reitnum. Jón Ingi Cæsarsson S-lista og Petrea Ósk Sigurðardóttir B-lista lögðust gegn breytingu á skipulaginu og lögðu fram bókun þar sem þau bentu á nokkur atriði því til stuðnings:
  • Mjög stutt í íbúðabyggð við Furulund og íbúar sem ákváðu að festa sér fasteignir þar hafi haft þær upplýsingar að þarna ætti bráðabirgðastarfsemi að hverfa í fyllingu tímans
  • Stutt í einn stærsta leikskóla bæjarins (sem á reyndar ekki lengur við)
  • Íbúar hafa lengi talið iðnaðarstarfsemi við Glerána á þessum stað vera barn síns tíma sem hyrfi í fyllingu tímans. Af þeim sökum hafi svæðið verið óskipulagt og stefna bæjaryfirvalda að starfsemin hyrfi af svæðinu, starfsleyfi hafi verið tímabundin og landið ekki skilgreint í aðal- og deiliskipulagi
  • Kúvending með því að festa iðnaðarsvæði í aðal- og deiliskipulagi á þessu svæði sé stílbrot og ekki bjóðandi þeim sem reist hafa íbúðir sínar þarna í grenndinni
  • Óviðunandi að festa iðnaðarstarfsemi í sessi á verndarsvæði Glerár