Fara í efni
Mannlíf

Stefán Þór: Undrabörn, aðgerðir og ferðalög

Stefán Þór Sæmundsson, kennari og rithöfundur, hefur skrifað marga pistla fyrir Akureyri.net en hann dundar sér líka við að taka ýmislegt upp á myndband og birta á YouTube. Myndband hans um ferð til norðurhluta Tenerife fyrr á þessu ári hefur fengið yfir 1.000 áhorf og ferðamyndband frá Albaníu er í sókn, segir hann.

Hér að neðan má sjá hlekki á þessi myndbönd en Stefán Þór ætlar líka að gefa lesendum Akureyri.net innsýn í hvernig hann les upp og túlkar eigin skáldskap, sem oft er í gamansömum anda og ekki ólíkur pistlum hans.

Gamansagan Uppeldi snýst um foreldra sem telja sig hafa eignast undrabarn því sonurinn er byrjaður að tala aðeins fimm mánaða gamall. Inn í þetta fléttast vandræðaleg fæðingarsaga en niðurstaðan kemur skemmtilega á óvart. Einnig er hér smásaga sem heitir Á vöknun og fjallar eins og nafnið bendir til um það að vakna eftir aðgerð en þráðurinn tekur óvænta stefnu. Ennfremur má nefna upplestur skáldsins á fáeinum ljóðum úr ljóðabókinni Mar.

Eftirfarandi bútur er úr sögunni Uppeldi en neðst eru svo hlekkir á myndböndin.

„Þetta er ótrúlegt. Ekki fimm mánaða. Og hvað segir hann?“

Bergur brosti með föðurlegu stolti. „Hann segir pabbi og mamma og dýr og dótið og svo ýmislegt fleira sem við skiljum kannski ekki.“

„Tja, mér þykir hann skýrmæltur.“

„Æ, enga stæla. Ég meina, auðvitað segir hann baba og mama og dí og dódí og meira að segja dúmí, sem við höldum að sé Tumi litli frændi hans.“

Sigtryggur var hugsi. „Mér þykir þú segja fréttir. Þú ættir að taka upp myndskeið þegar Hristar Háleggur er að tjá sig og senda þetta í sjónvarpið. Þetta er frétt. Ég segi það sem gamall blaðamaður. Fínt svona „human interest“ í lok fréttatímans.“

„Ég veit ekki,“ sagði Bergur. „Kannski ekkert sniðugt að gera eitthvert undrabarn úr honum og svo talar hann ekki eftir pöntunum.“

„Nei, einmitt. Þess vegna þýðir ekkert að hóa í tökulið í beina útsendingu heldur þarftu að vera með símann til taks. Er ekki góð vídeókamera í honum?“

„Jú, þrælgóð. Við eigum auðvitað fullt af vídeóum en já… þetta er rétt, auðvitað ætti maður að vera tilbúinn þegar hann fer að tala. Ég hef bara verið svo bergnuminn að ég hef alveg gleymt að taka þetta upp,“ sagði Bergur og fór að rifja upp þegar foreldrar hans tóku upp söng hans á gamalt segulbandstæki og síðan einhver VHS vídeó af skírninni og fleiri athöfnum.

Hann gretti sig. Sem betur fer var fæðingin þó ekki fest á myndband eins og byrjað var að gera á þessum árum. Það hefði líka orðið svakaleg hryllingsmynd ef marka mátti frásagnir móður hans sem urðu æ hroðalegri eftir því sem hún sagði söguna oftar en það gerðist gjarnan þegar hún var búin að drekka aðeins of mikið og veislugestir fengu óumbeðnar fæðingarsögur í desert.

Gamansagan Uppeldi https://www.youtube.com/watch?v=wfsCBV2_nP4

Smásagan Á vöknun https://www.youtube.com/watch?v=69wG1IDn2Os

Glefsur úr ljóðabókinni Mar https://www.youtube.com/watch?v=P-qjcK28yq4

Albanía https://www.youtube.com/watch?v=qGZSy1q_R60

Tenerife (norður) https://www.youtube.com/watch?v=muLgv_aL_lI