Fara í efni
Mannlíf

Spurðu um störf og áhugamál Ásthildar

Börnin í elstu deild leikskólans Kiðagils gerðu sér ferð í Ráðhúsið Akureyrar í dag til þess að hitta Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra, og lögðu fyrir hana margar forvitnilegar spurningar. Frá þessu er greint á vef bæjarins.

„Börnin komu í tveimur hópum, fyrir og eftir hádegi. Tilefni heimsóknarinnar er verkefni sem börnin vinna að um bæinn sinn, Ráðhúsið og bæjarstjórann. Afraksturinn verður sýndur á Barnamenningarhátíð í apríl en styrkur til að vinna verkefnið fékkst úr Barnamenningarsjóði Akureyrarbæjar,“ segir í fréttinni á vef Akureyrar.

„Spurningar barnanna snerust mikið til um starf bæjarstjórans en líka hvað Ásthildi finnst skemmtilegast að gera utan vinnunnar og almennt um fjölskylduhagi hennar og frítíma. Upp úr spjallinu verður unnið viðtal við Ásthildi og einnig ætla krakkarnir að teikna og lita myndir af henni og Ráðhúsinu.“