Spítalavegur 15 – reisulegt og glæst hús
Arnór Bliki Hallmundsson fjallar í nýjum pistli í röðinni Hús dagsins um Spítalaveg 15 á Akureyri. Í síðasta pistli kom við sögu húsið Stóruvellir sem stóð sunnan undir Akureyrarkirkju. Það hús reisti Albert Jónsson frá Stóruvöllum í Bárðardal en húsið við Spítalaveg byggði bróðir hans, Sigurgeir, söngkennari og organisti, í félagi við Ólaf Tryggva Ólafsson, verslunarmann frá Borgarhóli í Öngulsstaðahreppi. Bjuggu þeir á sinni hæðinni hvor ásamt fjölskyldum sínum og húsið tvíbýli frá upphafi og hefur verið svo í tæp 118 ár þegar þetta er ritað.
Í skemmtilegum pistli vitnar Arnór Bliki í skrifleg samskipti við Aðalstein Svan Sigfússon.
„Það var vorið 1983 sem við keyptum efri hæðina á húsinu númer fimmtán við Spítalaveg, ég og sambýliskona mín Sóldís ásamt Gesti vini mínum Helgasyni og eiginkonu hans, Hólmfríði Eiríksdóttur,“ segir Aðalsteinn Svanur. „Barnung dóttir Hólmfríðar, Árný Þóra, var hluti þessarar „kommúnu“. Við vorum mjög ung þegar þetta var. Grannar okkar á neðri hæðinni, Haraldur [sonur Sigurgeirs og Friðriku, sem byggðu húsið] og Sigga Palla, tóku okkur mjög vel og margra ára nábýli við þau var sérstaklega ánægjulegt.“
Smellið hér til að lesa pistil Arnórs Blika