Spilamiðstöðin Goblin flytur á Glerártorg
Goblin, spilasalur og sérvöruverslun með spilavörur, tekur vaxtarkipp í vikunni þegar starfsemin verður flutt og opnuð á Glerártorgi. Verslunin og spilasalurinn hafa verið rekin í um helmingi minna rými við Ráðhústorgið en það sem starfsemin flytur í á Glerártorgi.
Nýja verslunin og spilasalurinn verða opnuð á Glerártorgi á fimmtudag, 18. apríl, kl. 15. Í tilkynningu frá Goblin kemur fram að opnunarhelgina verði ýmsir viðburðir á dagskránni og opið til kl. 22 að kvöldi fimmtudags og föstudags. Veittur verður 15% afsláttur af flestum vörum á opnunardaginn, fyrstu 30 viðskiptavinirnir fá gjöf frá Goblin, lukkuhjól á staðnum, örkynningar á ýmsum skemmtilegum spilum, allir krakkar fá Pokémon-glaðning á meðan birgðir endast. „Skjálaus skemmtun fyrir alla fjölskylduna!“ eins og það er orðað í tilkynningunni.
Að sögn eigenda Goblin gefur flutningurinn þeim tækifæri til að vaxa og þróast áfram, bjóða upp á rýmra og notalegra spilasvæði og aukið úrval af vörum og þjónustu. Fjölmargir spilaviðburðir, spilakeppnir og námskeið fyrir börn og fullorðna eru á döfinni hjá Goblin. Nánar er fjallað um nýju verslunina, hvenær er opið og hvað er á döfinni í fréttinni á vef Glerártorgs.
Goblin hefur starfað á Akureyri frá 2021 og er fjölskyldurekið fyrirtæki, fyrsta verslunin á sínu sviði á landsbyggðinni og leiðandi í námskeiðum og viðburðum tengdum safn- og borðspilum á Akureyri og í nágrenni.
- Akureyri.net fjallaði um starfsemi Goblin síðla árs 2022. Smellið hér til að sjá þá frétt.