Fara í efni
Mannlíf

Sortuæxli hegðar sér eins og skítadreifari

Sigurbjörn Árni Arngrímsson, þulur á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum á Akureyri sumarið 2020. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólameistari Framhaldsskólans á Laugum, sem landsþekktur er fyrir ástríðufullar lýsingar á íþróttaviðburðum, greindist nýverið með sortuæxli á fjórða stigi, aðeins 47 ára gamall.

„Það er örlítið kaldhæðnislegt, og næstum því kómískt að einhver sem hafi í rauninni gert allt rétt, heilsusamlega séð, upplifi sig í þessari stöðu. Ég tók nokkra daga í upphafi þar sem mér fannst þetta bara ótrúlega ósanngjarnt,“ segir Sigurbjörn Árni við Rakel Hinriksdóttur, dagskrárgerðarkonu á N4, í viðtali sem sýnt verður á sjónvarpsstöðinni í kvöld. Tilefnið er Mottumars, átak Krabbameinsfélags Íslands til vitundarvakningar um krabbamein í körlum.

Rakel ræðir við Sigurbjörn Árna um áfallið sem greiningin var, hvaða hugsanir þjóta um hugann og þá óraunverulegu stöðu að vera fárveikur á pappír, en líða eins og maður sé stálsleginn, eins og það er orðað á vef N4.

Sigurbjörn segir frá því í viðtalinu þegar hann greindist með nokkur æxli víðsvegar um líkamann fyrir um það bil mánuði síðan. Lítið sortuæxli hafði verið fjarlægt fyrir nokkrum árum, en ekki talið að það hefði náð að dreifast, þar til annað kom í ljós. „Það var ljóst að þetta væri komið í lungun og eitt ber upp í heila, og þá fannst mér lang líklegast að þetta væri sortuæxli. Það hegðar sér svona eins og skítadreifari, fer bara þangað sem því sýnist," segir Sigurbjörn í viðtalinu.

  • Þátturinn Karlar og krabbamein: Sigurbjörn Árni Arngrímsson, er á dagskrá N4 í kvöld klukkan 20.00.