Fara í efni
Mannlíf

Sólveig Baldursdóttir og Augnablik – til baka

SÖFNIN OKKAR – 57

Frá Listasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Sólveig Baldursdóttir
Barnshöfuð
1987-88
Granít

Sólveig Baldursdóttir nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1980-1982 og við skúlptúrdeild Det Fynske Kunstakademi í Danmörku, þaðan sem hún útskrifaðist 1987. Hún flutti til Carrara á Ítalíu 1990 og vann þar að sinni list við Studio Niccoli næstu 4 árin. Sólveig rak vinnustofu á Akureyri 1995-2001 og vann að ýmsum útilistaverkum sem og sýningum hér heima og erlendis. Hún var bæjarlistamaður Akureyrar 1999 og hefur hlotið starfslaun myndlistarmanna. Sólveig hefur unnið fyrir ýmsar opinberar stofnanir, t.d. Útflutningsverðlaun forseta Íslands og Utanríkisráðuneytið. Útilistaverk hennar má sjá víða um Ísland og einnig erlendis.

Meðfylgjandi verk má sjá á einkasýningu Sólveigar, Augnablik – til baka, sem nú stendur yfir í Listasafninu á Akureyri, sal 11.

Um sköpunarvinnuna segir Sólveig: „Náttúran hefur alltaf verið mér og minni sköpun mikilvæg. Hún veitir öryggi og fótfestu í allri sinni mildi og fegurð, en er jafnframt óútreiknanleg og vægðarlaus. Sama forvitnin og ósk um samvinnu við steininn er ætíð til staðar áður en ég byrja á verki. Samtalið verður að taka í hljóði áður en hamarinn er reiddur til höggs.“