Fara í efni
Mannlíf

Sóley Björk: Ekki þarf að óttast breytingar

Útivist er stór þáttur í að næra sjálfa sig og hlaða batteríin fyrir Sóleyju Björk, en líka bara að slaka á og njóta stundarinnar.

Sóley Björk Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum við Eyjafjörð, segist vera áhugakona um breytingar. Hún telur óumflýjanlegt að framundan séu breytingar í hegðun og lífsstíl og leggur áherslu á mikilvægi þess að fólk taki lítil skref í átt að sjálfbærari lífsstíl, fremur en að standa í stað og vera síðan hrint í gegn um breytingarnar þegar þær eru orðnar óumflýjanlegar.

„Það er svo vont að vera hræddur við breytingar og finnast þær óþægilegar,“ segir hún. „Ef ég ætti töfrasprota sem ég gæti sveiflað, þegar ég væri búin að fá frið á jörð og útrýma hungri, þá myndi ég óska þess að enginn yrði hræddur við breytingar. Ég held að það sé ein af okkar stærstu hindrunum.“

Sóley er viðmælandi í nýjum þætti hlaðvarpsins Transformia – sjálfsefling og samfélagsábyrgð, sem Auður H. Ingólfsdóttir stýrir. Sóley var bæjarfulltrúi á Akureyri í átta ár en gaf ekki kost á sér áfram vorið 2022 heldur réð sig til starfa hjá Rauða krossinum. Hún brennur fyrir samfélagsmálum, ekki síst umhverfimálum og jafnréttismálum og finnst það mikil gæfa að vera í starfi sem hún getur gefið af sér. Í því felist mikil lífsfylling en það þurfi jafnframt að gæta að því að setja sér mörk og næra sjálfa sig. Annars brenni fólk upp.

Sóley þekkir það á eigin skinni hversu mikilvægt það er að velja vel hvernig hún notar orkuna, en í mörg ár glímdi hún við mikið orkuleysi sem lengi vel fannst ekki skýring á. Hún var ein af þeim sem vann mikið og var alltaf að, en á þessu tímabili þurfti hún að læra að forgangsraða. Klukkutíma göngutúr gat þýtt að hún þurfti að hvíla sig í þrjá daga á eftir. Þrátt fyrir að þetta hafi verið erfið glíma þá fann Sóley leið til að upplifa innri sátt og lærði gildi þess að hægja á sér, hvíla sig og njóta stundarinnar. Þótt orkan sé meiri núna þá fylgir þessi lærdómur henni og hún er óhrædd við að taka sér tíma til að hlaða batteríin. Útivera spilar þar stórt hlutverk, en líka bara að slaka á, segja stopp og passa sig á því að klára ekki orkuna.

Lífsgæði, í huga Sóleyjar, snúast um að meta það sem maður hefur hverju sinni. Líða vel og vera sátt. „Mér finnst mikilvægt að við leyfum okkur að dreyma um allskonar möguleika en það þarf að vera samspil þarna á milli, að vera spennt fyrir framtíðinni en jafnframt njóta þess sem að er.“ Lykillinn að því telur hún m.a. vera að leyfa sér að njóta stundarinnar, hvíla í augnablikinu og vera bara. Ekki alltaf að vera á fullu að gera eitthvað.

Áhugi Sóleyjar á umhverfismálum kviknaði í tengslum við umræðu um Kárahnjúkavirkjun og í kjölfarið fór hún að beita sér í pólitík, tók þátt í nefndarstörfum hjá Vinstri grænum og var síðan bæjarfulltrúi á Akureyri í átta ár, eins og fyrr segir. Hún segist alltaf hafa verið frekar nægjusöm hvað varðar efnisleg gæði. Hún vann í mörg ár hjá Símanum en sagðist aldrei hafa tengst almennilega þeim hugsunarhætti sem viðgengst í viðskiptaumhverfinu. En hún tengdi sterkt við fólk og hópa sem var að velta umhverfis- og náttúruvernd fyrir sér:

„Það var þessi ástríða fyrir náttúrunni. Ég var aldrei með ástríðu fyrir viðskiptum eða tækninni. Þó ég elski tækni og finnist hún skemmtileg, þá var ég aldrei með ástríðu fyrir viðskiptahlutanum. Þarna fann ég eitthvað sem mér fannst skipta mjög miklu máli. Ég var líka búin að átta mig á að við getum öll haft áhrif á samfélagið og af hverju ætti ég ekki að beita mínum áhrifum.“

Hægt er að hlusta á spjall þeirra Sóleyjar og Auðar á helstu efnisveitum eða nálgast það með því að smella hér