Fyrst íslenskra kvenna í heimsstjórn Rótarý

Soffía Gísladóttir er fyrsta íslenska konan til þess að taka sæti í stjórn Rotary International, en hún mun taka sæti árin 2026-2028. Hún situr í stjórninni fyrir svæði 17 og 18; Norðurlöndin, Grænland, Færeyjar, Álandseyjar, Eystrasaltsríkin, Pólland og Rússland. Hún var búsett lengi á Akureyri, en upphaflega frá Húsavík og er búsett í Kelduhverfi núna. Pabbi hennar er félagi í Rótarýklúbbi Húsavíkur, og þegar Soffíu bauðst að vera með í Rótarý á Akureyri árið 2012, var hún ekki lengi að samþykkja það.
Það sem hefur breyst á seinni árum er að konur eru yngri í Rótarý, þær hafa verið að komast í stjórnunarembætti og fyrsta konan fór í stjórn á heimsvísu árið 2008
„Reyndar hafði ég fengið boð í klúbbinn á Húsavík tíu árum áður, en þá var ég félagsmálastjóri, fjögurra barna móðir og varaþingmaður,“ segir Soffía hlæjandi.„ Ég hafði ekki séns þá, en ég hafði þetta alltaf í bakhöfðinu. Það var því ekki að spyrja að mér þegar möguleikinn kom aftur upp á Akureyri. Þá hittumst við alltaf í föstudögum á hádeginu, og ég man að ég hugsaði fyrst að ég ætlaði bara að sjá til hvað ég kæmist oft. Það varð einhvernvegin þannig að ég mætti alltaf. Setti þetta í forgang.“
T.v. Soffía með manni sínum, Guðmundi Baldvin, að gróðursetja umdæmisstjóratréð í Botnsreit í Eyjafirði. T.h. Soffía með fyrsta kvenheimsforseta Rotary, Jennifer Jones.
Saga kvenna í Rótarý aðeins brot af 120 ára sögu félagsins
„Það er svo upplýsandi að taka þátt í fundum,“ segir Soffía. „Mikið af skemmtilegum fræðsluerindum. Ég vil aldrei missa af neinu, þannig að ég mæti alltaf. Rótarý er einmitt þekkt fyrir fræðslutækifæri, en Vigdís Finnbogadóttir, sem er Rótarýfélagi sagði þetta um Rótarý; Hvernig ætti ég annars að vita eitthvað um Bílgreinasambandið, nema af því að ég er í Rótarý.“ Þú færð sem sagt alls konar fræðslu um allt á milli himins og jarðar.
Þegar fyrsta konan var gerð að félaga, þurfti hæstaréttardóm í Bandaríkjunum til þess að hleypa henni að
Rótarý er ekki kynjaskipt, konur og karlar eru saman í félagsskapnum, en saga kvenna í hreyfingunni er ekki löng í sögulegu samhengi. „Fyrsta konan kemur inn í Rótarý árið 1987,“ segir Soffía. „Í ár er 120 ára afmæli Rótarý, þannig að saga samtakanna hefst í rauninni árið 1905 með einum manni í Chicago, Paul Harris. Smátt og smátt hefur hreyfingin teygt sig út um allan heim og kom til Íslands árið 1934.“
„Rótarý hefur þróast með tíðarandanum hverju sinni, en árið 1987, þegar fyrsta konan var gerð að félaga, þurfti hæstaréttardóm í Bandaríkjunum til þess að hleypa henni að,“ segir Soffía. „Það var merkilegur áfangi og algjörlega þess virði. Á Íslandi verður kona fyrst félagi árið 1988, en síðan hefur hlutfall kvenna hækkað og í dag erum við 35% félaga á Íslandi. Það sem hefur breyst á seinni árum er að konur eru yngri í Rótarý, þær hafa verið að komast í stjórnunarembætti og fyrsta konan fór í stjórn á heimsvísu árið 2008, en það var ekki fyrr en 2022 að kona tók við æðsta embættinu, heimsforseta Rótarý.“
T.v. Soffía flytur ræðu á Ítalíu sem fulltrúi heimsforseta Rotary International. T.h. Soffía og Guðmundur Baldvin í Flórída þar sem þau þjálfuðu verðandi umdæmisstjóra um allan heim og þar á meðal íslenska verðandi umdæmisstjórann Sigríði Björk Gunnarsdóttur og manninn hennar Hermann Þráinsson sem eru hér með á myndinni.
Alltaf haft mikinn áhuga á vinnumarkaðnum
Upphaflega hugmyndin með Rótarý var að vera starfsgreinaklúbbur. „Félagar klúbbsins voru í mikilvægum stjórnendastörfum í mismunandi atvinnurekstri í hverju samfélagi fyrir sig,“ segir Soffía. „Það máttu svo aldrei vera fleiri en einn úr hverri starfsgrein, en svoleiðs er það nú ekki lengur. Þó er það enn þannig, að félagar kynna sína starfsgrein og því er hreyfingin vinnumarkaðsvæn ef maður getur sagt sem svo. Það hentar mér mjög vel af því að ég hef mikinn áhuga á vinnumarkaðinum og hef alltaf haft.“ Soffía hefur starfað sem forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra, sem dæmi.
Meðalaldur félaga í Rótarý lækkar stöðugt
„Æðsta embætti Rótarý á Íslandi er umdæmisstjóri,“ segir Soffía, en hún gegndi því árin 2020-21. „Það var á Covid-tíma og var mjög áhugavert. Það reyndi á útsjónarsemi og hugmyndaauðgi að halda félagsskapnum lifandi í samkomutakmörkunum.“
Það eru yfir 500 umdæmi um allan heim, en umdæmisstjórar fara í sérstaka þjálfun áður en þeir taka við embætti, og Soffía var valin ásamt eiginmanni sínum, Guðmundi Baldvin Guðmundssyni, til þess að standa að þessari þjálfun í Flórída fyrir skömmu. „Það var ofboðslega gaman, og þar sá maður bersýnilega, hvað hreyfingin er í raun að yngjast. Það var mikið af ungu fólki í þessum hópi, og kynjahlutfall er mjög jafnt.“
Soffía er hér að innsigla Umdæmisstjóraembættið fyrir íslenska umdæmið með þáverandi heimsforseta, Holger Knaack í janúar 2020.
Reynslan af fjölbreyttri stjórnun vó þungt
Valið í stjórnina yfir samtökunum á heimsvísu er mjög flókið, en Soffía var upphaflega tilnefnd af Rótarýsamtökunum á Íslandi. „Ég er bara þriðji Íslendingurinn til þess að taka sæti í stjórninni frá upphafi,“ segir hún. „Helgi Tómasson læknir sat í stjórn 1950 og Ómar Steindórsson, í Rótarýklúbbi Keflavíkur, sat í stjórn Rotary International á árunum 2002-2004. Eftir þessa tilnefningu fór í gang mikið ferli sem fólst meðal annars í því að skrifa hugleiðingar um mína sýn og hvernig ég myndi vilja sjá Rótarý þróast til framtíðar. Ég var svo boðuð í viðtal innan svæðisins sem við tilheyrum. Viðtalið var í Noregi, en við vorum fimm sem sóttumst eftir þessu embætti fyrir tímabilið 2026-2028, og ég fékk þær góðu fréttir stuttu eftir viðtalið að ég hefði verið valin.“
Ég hef alltaf verið stjórnandi í mínum störfum, auk þess átt sæti í mörgum stjórnum og verið formaður þeirra oft á tíðum
Ferilskrá Soffíu yfir störf fyrir Rótarý er ekki löng, enda er hún bara búin að vera félagi í 13 ár, sem er óvenju stutt fyrir einstakling sem er valinn í stjórn Rotary International, en hún telur að það hafi verið hennar persónulega ferilskrá sem réði úrslitum. „Ætli það sé ekki helst þessi víðtæka stjórnendareynsla sem ég hef,“ segir Soffía. „Ég hef alltaf verið stjórnandi í mínum störfum, auk þess átt sæti í mörgum stjórnum og verið formaður þeirra oft á tíðum. Það þarf að hafa þekkingu á því hvernig stjórnarstörf virka. Soffía hefur líka bakgrunn í stjórnmálum, hefur verið varaþingmaður, frá 1999-2003, og situr í sveitarstjórn Norðurþings. Svo hef ég alþjóðlegar tengingar og hef búið erlendis, sem þau sjá sem kost líka.“
Soffía í sjónvarpssetti með Bala Kamallakharan (Rótarýfélaga í Rotary Reykjavík International), Guðríði Helgadóttur (Rótarýfélaga í Rkl. Borgum í Kópavogi og Boga Ágústssyni á Rótarýdeginum 2021, en þá var fundur fyrir alla Rótarýfélaga á Íslandi í beinni útsendingu.
Fyrst og fremst fólk sem vill láta gott af sér leiða
„Rótarý eru ein virtustu mannúðarsamtök í heimi,“ segir Soffía. „Ég er ekkert viss um að allir viti það. Yfir 90% af fjármagni Rótarýsjóðsins fer beint í verkefni, á meðan mörg önnur mannúðarsamtök þurfa gjarnan að taka meira af framlögum til reksturs samtakanna. Á síðasta ári fóru 40 milljarðar úr Rótarýsjóðnum til samfélagsverkefna um allan heim.“ Allir sem starfa fyrir Rótarý eru í sjálfboðavinnu og það á líka við um þá sem taka sæti í stjórn Rotary International, sem og um heimsforsetann sjálfan.
Hver sem er getur stofnað klúbb, með aðstoð umdæmisins. Lágmarks fjöldi er átta manns og við köllum þessa nýju klúbba 'Rótarskot'
Á heimasíðu Rótarý, bæði innlendu og alþjóðlegu, er hægt að lesa allt um samfélagsverkefni hreyfingarinnar, en þau eru ótalmörg. „Við erum einfaldlega hópur fólks sem vill láta gott af sér leiða,“ segir Soffía. Það eru 1,2 milljónir félaga í Rótarý á heimsvísu. „Hreyfingin er að opnast mikið á seinni árum fyrir ungt fólk,“ segir Soffía. „Hér áður var mætingaskylda á fundi og félagsgjöldin gátu verið há sem lá m.a. í því að greiða fyrir málsverði. Nú má stofna klúbba sem hittast á tveggja vikna fresti, ekki er um mætingarskyldu að ræða og það má funda á netinu, hafa útivistarfundi og fara í fyrirtækjaheimsóknir svo eitthvað sé nefnt. Fundarformið er sem sé orðið mjög frjálslegt. Þess vegna eru að spretta upp klúbbar með ungu fólki um allan heim sem vill fyrst og fremst láta gott af sér leiða í sínum samfélögum og mögulega um heim allan. Það er ávinningur í því að gera það undir merkjum Rótarý því þar er öflugt styrkjakerfi sem má nýta til góðra verka. Hver sem er getur stofnað klúbb, með aðstoð umdæmisins, en lágmarksfjöldi er átta manns og við köllum þessa nýju klúbba 'Rótarskot'.“
Hefur dýrmætan stuðning heima við
„Ég hef alltaf verið með marga bolta á lofti, og er mjög skipulögð,“ segir Soffía að lokum, aðspurð um það hvernig hún muni geta komið þessu mikilvæga starfi sem stjórnarkona í Rotary International inn í dagskrána. „Það er ekki bara fyrir eftirlaunaþega að vera í stjórn svona stórra alþjóðasamtaka. Áherslan er á fjölbreyttan hóp fólks á öllum aldri sem er virkt í samfélaginu. Umhverfið er breytt með tilkomu þess að hægt er að funda og hittast á netinu og viðburðir eru alla jafna tengdir helgum. Ég hef ofboðslega góðan stuðning frá fjölskyldunni og ég verð áfram í mínu starfi hér heima,“ segir Soffía að lokum.