Fara í efni
Mannlíf

Smíða kerrur og eldstæði – kerrurnar til sölu

Nemendur átta með Kristjáni Kristinssyni kennara. Mynd af vef VMA.

Það er orðinn fastur liður að nemendur á síðustu önn í blikk- og stálsmíði í Verkmenntaskólanum á Akureyri smíði í sameiningu voldugar kerrur. Svo er einnig nú. Tveir nemendur í blikksmíði og sex í stálsmíði eru nú á lokametrunum í námi sínu í VMA og punktinn yfir i-ið hafa þeir sett með smíði á tveimur kerrum og einnig hefur hver nemandi smíðað eldstæði sem nýtist til dæmis til þess að grilla. Frá þessu er greint á vef skólans.

„Nú hafa nemendurnir átta lokið við smíðagripi sína og því var efnt til myndatöku í vikunni. Hér hefur heldur betur verið vandað til verka og sannarlega eru kerrurnar rammgerðar og sterkar og eldstæðin voldug.“

Kerrurnar, sem eru 3 x 1,5 m að stærð með 750 kg burðargetu, eru nú boðnar til sölu og veita allar upplýsingar Hörður Óskarsson brautarstjóri málmiðnbrautar VMA (hordur.oskarsson@vma.is) og Kristján Kristinsson kennari (kristjan.th.kristinsson@vma.is).