Fara í efni
Mannlíf

Smæð aðstöðunnar pólitísk ákvörðun

Stækkun flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli hefur gjörbreytt aðstöðunni þar en hefði að margra mati mátt vera veglegri. Mynd: Þorgeir Baldursson

Ný og endurbætt flugstöð á Akureyrarflugvelli sem tekin var í notkun á síðasta ári hefur fengið á sig nokkra gagnrýni. Annars vegar hefur verið kvartað yfir þrengslum í innritunarsal en á stærstu dögunum hafa farþegar á leið í millilandaflug þurft að standa í röð utandyra. Hins vegar hefur verið kvartað yfir skorti á skjóli fyrir komufarþega.

Það var reyndar ekki þröng á þingi í innritunarsalnum þegar ljósmyndari leit við í flugstöðinni í gærmorgun, flæði farþega nokkuð jafnt og stöðugt, en myndin sýnir þó ef til vill smæð salarins sem fyllist fljótt þegar fjöldi farþega mætir á svipuðum tíma og dæmi um að biðröðin hafi náð út fyrir dyr og fólk þurft að húka þar í misgóðu veðri. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli, segir þessa gagnrýni réttmæta. „Auðvitað hefði þetta allt mátt vera stærra og rýmra. En við starfsfólk Isavia erum samt mjög ánægð með það sem náðist. Þessi stækkun á flugstöðinni hefur breytt okkar vinnuaðstöðu gríðarlega og einnig gert mikið fyrir farþega. Þá værum við ekki að taka á móti öllu þessu millilandaflugi ef ekki væri fyrir þessa stækkun. Hún hefur gjörbreytt öllu,“ segir Hjördís og útskýrir málið betur: „Ríkið á þennan flugvöll og við erum bundin því fjármagni sem við fáum frá ríkinu. Það setti því ákveðin mörk á umfang framkvæmdanna. Þessu er öðruvísi farið í Keflavík, þar á Keflavíkurflugvöllur allar eignir og getur þar af leiðandi tekið lán fyrir sínum framkvæmdum. Ríkið á hins vegar alla innanlandsflugvelli og þar eru ekki tekin nein lán fyrir framkvæmdum. Auðvitað hefði verið betra að vera með stærri viðbyggingu þannig að innritunarsalurinn hefði verið stærri og aðstaðan betri til þess að taka á móti komufarþegum, en þetta verkefni var sem sagt háð fjármagni frá ríkinu og það var pólitísk ákvörðun að setja ekki meiri peninga í þetta verkefni.”

Auðvitað hefði verið betra að vera með stærri viðbyggingu þannig að innritunarsalurinn hefði verið stærri og aðstaðan betri til þess að taka á móti komufarþegum, en þetta verkefni var sem sagt háð fjármagni frá ríkinu og það var pólitísk ákvörðun að setja ekki meiri peninga í þetta verkefni.

Byrja innritun fyrr til að minnka raðir

Þegar Hjördís er spurð að því hvort eitthvað sé hægt að gera til að bæta þessi tvö atriði sem helst hefur verið kvartað yfir segir hún að nauðsynlegt sé að halda áfram að þrýsta á stjórnvöld um aukið fjármagn til þess að bæta aðstöðuna enn frekar.

„Varðandi þrengslin í innritunarsalnum þá höfum við brugðist við þeirri gagnrýni með því að byrja innritun í leiguflug þremur tímum fyrir brottför. Þannig höfum við náð að dreifa álaginu betur og það hefur virkað vel því í leiguflugunum eru oft fleiri og stærri hópar að ferðast saman heldur en í áætlunarflugi easyJet. Hvað varðar aðstöðuna fyrir komugesti þá væri hægt að setja upp skýli eða einhvers konar vindhlíf utandyra en ég tel að slíkt yrði til mikilla bóta. Það er hins vegar ekkert sem Isavia getur ákveðið einhliða að gera, allar svona framkvæmdir þurfa að vera ákveðnar af ríkisstjórninni og fara inn á samgönguáætlun. Í raun og veru þarf ferðaþjónustan, sem hefur gagnrýnt aðstöðuna fyrir komufarþegana hvað mest, að ýta á pólitíkina. Við íbúar á þessu svæði verðum að halda áfram að berjast fyrir hlutunum, við eigum ekki að hætta núna þótt þessi áfangi sé kominn. Við verðum að passa upp á það að flugvöllurinn fái fjármagn til að þróast með því sem er í gangi,“ segir Hjördís.

„Við íbúar á þessu svæði verðum að halda áfram að berjast fyrir hlutunum, við eigum ekki að hætta núna þótt þessi áfangi sé kominn. Við verðum að passa upp á það að flugvöllurinn fái fjármagn til að þróast með því sem er í gangi,“ segir Hjördís.

Endurbætur á flugturni fram undan

Aðspurð að því hvort völlurinn geti tekið við meiru millilandaflugi miðað við núverandi aðstöðu þá segir Hjördís svo vel vera. „Núna erum við að slotta á flugvellinum, þ.e.a.s. við getum ekki tekið á móti nema einni millilandaflugvél í einu og það mega ekki líða minna en 110 mínútur á milli véla. Ef flug hingað eykst þá þarf bara að nýta aðra daga og tíma en þegar easyJet-flugin eru hér og þannig má vel auka flug hingað. Þá er rétt að benda á að byggingin var hönnuð þannig að það er hægt að stækka hana frekar til vesturs í framtíðinni.“

Næst á dagskrá eru hins vegar endurbætur á flugturninum, sem er orðinn gamall og þarfnast viðhalds. „Turninn er kominn til ára sinna, það er farið að leka inn í hann og hann þarfnast lagfæringa. Þá stendur til að bæta aðstöðuna fyrir flugumferðarstjórana. Við reynum alltaf að forgangsraða verkefnunum og þetta er það sem liggur mest á núna,“ segir Hjördís.

    • Akureyri.net ræðir nánar við Hjördísi um Akureyrarflugvöll næstu daga og hennar tíma þar sem flugvallarstjóra en hún lætur brátt af störfum.