Slegið á létta strengi við Saurbæjarkirkju
Slegið var á létta snjóstrengi við Saurbæjarkirkju í Eyjafjarðarsveit á miðvikudaginn. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var þar á ferð ásamt Ríkarði Má Ríkarðssyni, bílstjóra embættisins, og Sigríði Rósu Sigurðardóttur, safnstýru Smámunasafns Sverris Hermannssonar.
Forsetinn sótti Smámunasafnið heim í fyrsta sinn síðdegis – eins og hér er greint frá – og þar sem stærsta varðveitta torfkirkja á Íslandi er aðeins steinsnar frá gamla félagsheimilinu, Sólgarði, þar sem safnið er hýst, var ákveðið að nota tækifærið og skoða hana líka áður en gestirnir brunuðu norður til Akureyrar á ný og flugu suður.
Ekki er hægt að segja að veðrið hafi leikið við gestina því hvasst var og kalt. Dálítill snjór hafði safnast saman við girðinguna sem umlykur spilduna við kirkjuna og skafið hafði að kirkjudyrum. Sigríður Rósa hafði skóflu meðferðis og hófst þegar handa við ryðja þjóðhöfðingjanum braut og naut dyggrar aðstoðar Ríkarðs bílstjóra sem vippaði sér léttilega yfir grindverkið.
Forseti vor hafði gaman af; fannst mikið til Smámunasafnsins koma og kirkjan falleg – og svo hreifst hann eðlilega af tilþrifum fólksins með skófluna!