Fara í efni
Mannlíf

Skyldi Rebekka Rún fá einkanúmerið A20000?

Guðmundur Sigurjónsson við Honda bifreiðina sem hann keypti árið 1985. Myndin í birtist með viðtali við hann í Degi 8. maí það ár.

Guðmundur Sigurjónsson, sem fæddist 14. apríl 1967, var 10 þúsundasti íbúi Akureyrar eins og Akureyri.net rifjaði upp í morgun. Í gær var upplýst að stúlka sem fæddist 14. þessa mánaðar og fær nafnið Rebekka Rún Alexandersdóttir væri 20 þúsundasti íbúi bæjarins.

Guðmundur brá á leik á sínum tíma og pantaði sér bílnúmerið A10000. Þá var númerakerfið annað en í dag, þegar hverri bifreið fylgir fastnúmer; sama skráningarnúmer, frá fyrsta degi til þess síðasta. Ekki er það þó algilt því hægt er að fá einkanúmer kjósi fólki það og greiði sérstaklega fyrir.

„Ég lagði inn pöntun árið áður en ég fékk bílprófið og númerið fékk ég svo ári eftir að ég tók prófið, þannig að ég beið í rauninni í tvö ár eftir að fá þetta númer. Ég ætlaði ekki að missa af þessu númeri,“ sagði Guðmundur í viðtali við Akureyrarblaðið Dag í maí árið 1985, fljótlega eftir að hann keypti Honda bifreiðina sem númerið var skrúfað á.

Þegar stórt er spurt er oft lítið um svör ... Skyldi Rebekka Rún einhvern tíma fá sér einkanúmerið A20000? Við því fæst varla svar á næstunni. Ekki nema foreldrarnir pantaði það í snarhasti!

Tímamótabörn eiga sama afmælisdag

Tímamótaskúlkan fær nafnið Rebekka Rún

Dóttir Þóreyjar og Alexanders 20 þúsundasti íbúi Akureyrar

Viðtalið sem Margrét Þóra Þórsdóttir tók við Guðmund Sigurjónsson og birtist í Akureyrarblaðinu Degi 8. maí árið 1985.