Skraut Bakkusar: Óli og Einar Áskelsson
Óli Stefán Flóventsson, þekktur knattspyrnuþjálfari, heldur úti hlaðvarpinu Skraut Bakkusar þar sem hann fjallar um alkóhólisma á margvíslegan hátt. Óli Stefán er mörgum Akureyringum kunnur eftir að hann þjálfaði KA fyrir nokkrum árum og viðmælandi hans í nýjasta þættinum er Akureyringurinn Einar Áskelsson
Margir muna án efa eftir Einari, þótt hann sé fluttur frá Akureyri fyrir mörgum árum. Hann var mjög efnilegur íþróttamaður, lék með Þór í yngri flokkum í fótbolta, handbolta og körfubolta, og í síðan í meistaraflokki í fótbolta bæði með Þór og KA.
„Hann segir hér sögu af ungum og efnilegum íþróttamanni sem villtist af leið,“ segir Óli Stefán í kynningu á þættinum.
„Einar þótti efnilegur í fótbolta, handbolta og körfubolta áður en Bakkus konungur kom í heimsókn. Hann fer hér á einlægan og opinn hátt yfir bardagann við alkóhólismann, batann og veikindin sem fylgdu svo í kjölfarið mörgum árum seinna,“ segir Óli Stefán.
Hlustun er sannarlega sögu ríkari. Smellið hér til að hlusta á þáttinn.