Skíðaskotfimi mjög skemmtileg - MYNDIR
Skíðaskotfimi er ótrúlega skemmtileg íþrótt, eins og margir hafa eflaust orðið varir við þegar RÚV sýndi frá heimsmeistaramótinu í norrænum greinum sem lauk um helgina. Íþróttin hefur ekki verið stunduð hérlendis en Skíðafélag Akureyrar á nokkrar byssur og á æfingum er gjarnan gripið til þeirra, í því skyni að auka fjölbreytnina. Bæði yngsta göngufólkið og það eldra hefur afar gaman af, að sögn Vadims Gusen, sem lengi hefur þjálfað í Hlíðarfjalli.
Vadim og eiginkona hans, Verinoka Lagun, fluttu til Íslands frá Litháen fyrir einum 13 árum en hafa búið á Akureyri í áratug. Þá vantaði einmitt tvo þjálfara norður, þau sóttu um og fengu – og hafa verið hvalreki fyrir Skíðafélagið, að sögn þeirra sem til þekkja.
Veronika starfar sem íþróttakennari í Síðuskóla en Vadim er smiður hjá byggingarverktakanum Sigurgeiri Svavarssyni, fyrrverandi gönguskíðakempu. „Við erum bæði með háskólapróf sem gönguskíðaþjálfarar og íþróttakennarar, en það er erfitt að finna starf sem íþróttakennari svo ég fór og lærði trésmíði eftir að við komum hingað,“ segir Vadim við Akureyri.net.
Veronika keppti í skíðaskotfimi á sínum tíma og tók þátt í heimsbikarmótaröðinni. Vadim keppti á gönguskíðum, tók þátt á heimsmeistaramóti unglinga fjórum sinnum og síðan á Ólympíuleikunum í Salt Lake City árið 2002. Þegar leið á ferilinn prófaði hann skíðaskotfimi og keppti í þeirri grein í tvö ár, m.a. á heimsbikarmótum. Þau eru því engir aukvisar og höfðu augljóslega gaman af því að leiðbeina fólki þegar blaðamaður leit við á göngusvæðinu nýverið.
Ekki eru notuð venjuleg keppnisvopn, heldur leiserbyssur og skotið af aðeins nokkurra metra færi í stað þess að í keppni er skotið af 50 metra færi. „Þessar byssur líta alveg eins út og alvöru keppnisbyssur og eru jafn þungar. Þær passa mjög vel á Íslandi, því hér er ekkert sérstakt skotsvæði tengt gönguskíðasvæðinu,“ segir Vadim. Hann segir skíðafélög á Ísafirði og í Reykjavík íhuga að kaupa einnig byssur sem þessar og gleðst yfir því. Gaman yrði að halda mót. Akureyrarmót hafi að vísu verið haldið en skemmilegt yrði ef fleiri reyndu með sér.
Þegar Akureyri.net staldraði við á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli var mikill fjöldi fólks á gönguskíðum, eins og hefur verið undanfarna vetur. „Þetta er reyndar fyrsti veturinn síðan við komum sem við erum ekki að þjálfa. Vildum taka pásu en erum stundum hér að leiðbeina,“ sagði Vadim þar sem hann sagði börnum til og síðar þeim sem eldri eru. Veronika var aldrei langt undan við leiðbeiningar og blés meira að segja til keppni við tvo karla; þau gengu og skutu og ég er ekki frá því að hún hafi unnið.
Gaman yrði ef þessi skemmtilega grein festi rætur hérlendis.
Mamma myndar með símanum! Jana Kristín Jónsdóttir nær, og Hekla Malín Ellertsdóttir, báðar frá Akureyri, æfa gönguskíði og fá stundum að prófa byssurnar.
Veronika Lagun og Vadim Gusev.
Ekki er sama hvernig skytturnar bera sig að. Vadim leiðbeinir.
Börn Veroniku og Vadims, þau Viktoría Rós og Viktor Aleksander.