Skemmtileg ævintýri möguleg hvar sem er
Hjónin Edda G. Aradóttir og Halldór Arinbjarnarson fengu langþráð tækifæri til að sleppa við svartasta skammdegið á Íslandi. Þau verja nú þremur fyrstu mánuðum ársins á Tenerife í birtu og yl.
Halldór er upplýsingastjóri Ferðamálastofu, með aðsetur á Akureyri. Hann er í þriggja mánaða námsleyfi og nemur fjölmiðla- og boðskiptafræði í sveigjanlegu námi við Háskólann á Akureyri. Edda er geislafræðingur og gæðastjóri hjá Raferninum ehf. Hún getur sinnt sinni vinnu hvar sem í heiminum þar sem nettenging er í boði.
Þegar ljóst var orðið að þau hjónin gætu leyft sér að dvelja erlendis um tíma var fyrst upp á teningnum að fara í ævintýraferð. Í samtali við Akureyri.net sagði Edda: „Ástralía var efst á óskalistanum, Hawaii kom til greina og fáein fleiri lönd þar sem er „sumar“ á þessum árstíma. Covid lokaði Ástralíu fyrir okkur, það var ekki álitlegt að fara til Bandaríkjanna og við komumst líka að þeirri niðurstöðu að það sem við þyrftum á að halda núna væri hvíld og öryggi, frekar en spenna og óvissa.“
Ekki hættulegra en á Íslandi
„Skemmtileg ævintýri getur maður átt hvar sem er, líka á Tenerife,“ segir Halldór. „Við höfum gaman af útivist, þvælumst um fjöll og dali og skoðum náttúru og mannlíf. Titsa strætóarnir geta skilað manni næstum hvert sem er og líka bjargað manni heim ef í ógöngur er komið“, bætir hann við.
Hvorugt þeirra hefur fengið Covid; að minnsta kosti ekki svo þau viti til. „Við komumst væntanlega að því þegar við förum heim“, segir Edda.
Um hvort þau telji meiri hættu á að fá veiruna á Tenerife eða Íslandi segir Edda enn fremur: „Í grunninn er voða lítill munur á Covid-áhættu hér og heima. Smittölur ekkert ólíkar og varúðarráðstafanir ósköp svipaðar. Hvar í heiminum sem maður er, þá er það manns eigin hegðun sem ræður mestu um áhættuna. Að búa á hóteli með 1000 öðrum eykur áhættuna og að fara út að borða á hverjum degi sömuleiðis. Að ekki sé talað um að skella sér á barinn, slæva dómgreindina og faðma mann og annann“, bætir Edda við. „Fyrir fólk eins og okkur, í lítilli íbúð, eldum yfirleitt heima og erum óskaplega lélegir djammarar, þá er maður álíka öruggur eða óöruggur hér eins og hvar annars staðar“, segir Halldór.
En hafa Edda og Halldór einhver ráð í farteskinu fyrir alla þá Íslendinga sem munu heimsækja eyjuna björtu og hlýju næstu mánuði? Um það segir Edda: „Bara þetta klassíska: Kynna sér rosa vel hvaða reglur og takmarkanir eru í gildi varðandi ferðalög. Akkúrat núna má benda á breytingar sem Evrópusambandið er að gera á gildistíma bólusetningavottorða og taka gildi 1. febrúar. Það kom frétt á www.landlaeknir.is 18. janúar sl. en þetta verður örugglega líka kynnt vel.“
Birtan og ylurinn bæta geðheilsuna
Edda hefur lengi barist við kvíða og þunglyndi. Hún hefur rætt opinskátt um það, meðal annars á Facebook-síðu sinni. Þar hefur hún einnig rætt þau bjargráð sem hún hefur notað og hafa gagnast henni. Það hefur án efa hjálpað mörgum sem eru í sömu sporum. Oft er þunglyndi, depurð og kvíði tengd skammdeginu en það á ekki við í tilfelli Eddu. Um það segir hún: „Kvíðinn minn og þunglyndið er ekki beint árstíðabundið en eins og fleiri sem eru með svoleiðis þá þarf ég að leggja talsvert meira á mig til að halda heilsunni góðri í mesta skammdeginu.“
Hún bætir við: „Dagsbirta í 12 tíma á sólarhring og alltaf gott veður til að fara út og hreyfa sig gerir þetta ansi mikið léttara. Halldóri er eiginlega enn verr við skammdegið en mér, þannig að hann er alsæll með birtuna og ylinn.“
Á móti kemur að við söknum fjölskyldunnar og vinanna, þau eru sólargeislar á hvaða árstíma sem er, segir Edda að lokum.