Fara í efni
Mannlíf

Skapar ófríðar en æðislegar fígúrur

„Þetta er bara mitt jóga og mín hugleiðsla, að búa eitthvað til og mála,“ segir Anna Kristín, sem býr til skemmtilegar fígúrur úr pappamassa.

Þær verða bara til í höndunum á mér og verða bara einhvern veginn. Markmiðið er ekki endilega að gera þær andlitsfríðar, það bara fæðist eitthvað. Ég á til dæmis tvær sem ég hef aldrei viljað láta frá mér því þær eru svo ófríðar að það hálfa væri nóg, en mér finnst þær æðislegar,“ segir Anna Kristín Arnarsdóttir, skapari pappamassafígúranna sem nú eru til sýnis í gleraugnaversluninni Geisla á Glerártorgi.

Anna Kristín hefur búið til pappamassafígúrur í sex ár. Hún sýnir verk sín í gleraugnaversluninni Geisla á Glerártorgi um þessar mundir. 

Vísun í Fridu Kahlo

Fígúrurnar býr Anna Kristín til úr dagblöðum og notar til þess engin mót. Útkoman verður því aldrei eins en blaðamaður er ekki sammála því að fígúrnar séu ekki andlitsfríðar, það er a.m.k mikill karakter í þeim. Allar eiga þær það sameiginlegt að vísa annaðhvort í listakonuna mexíkósku, Fridu Kahlo, eða þær eru eins íslenskar og þær geta orðið, í þjóðbúning og með skotthúfu. Mér hefur alltaf fundist íslenski þjóðbúningurinn svo ofboðslega fallegur þannig mig langaði að vinna með hann. Frida Kahlo er suðræn og litrík, ég dáist að verkum hennar. Hún átti ótrúlega ævi og hefur alltaf heillað mig,” segir Anna Kristín, sem selt hefur fígúrur sínar í gegnum Facebooksíðuna Fimm frænkur. Þetta er bara mitt jóga og mín hugleiðsla, að búa eitthvað til og mála. Ég er menntaður kennari en er ekkert formlega menntuð en hef tekið ýmiss námskeið og fyrir jól var ég í kvöldnámi i VMA - sem er frábær nýjung hjá þeim. Þetta er bara mitt áhugamál en hef haft mikinn áhuga á því að teikna og mála alveg frá því ég var krakki,” segir Anna Kristín sem starfaði sem kennari í Giljaskóla til ársins 2021, en hefur undanfarin ár unnið sem ráðgjafi hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands.

Frá sýningu Önnu Kristínar, Fimm frænkur, í Kaktus sumarið 2024. 

Ástin bankaði óvænt upp á hjá Önnu Kristínu í fyrra þegar hún dvaldi á Spáni.  Hér er hún með kærastanum Dave á ferðalagi um Tæland. 

Fann óvænt ástina á Spáni

Sýningin í gleraugnaversluninni Geisla hefur vakið athygli hjá þeim sem leið eiga um Glerártorg því meira en metershá fígúra stendur úti á ganginum fyrir framan verslunina og lokkar fólk inn. Segir Anna Kristín að sýningin hafi komið óvænt upp því hún hafi undanfarið staðið í stórræðum við að tæma heimili sitt þar sem hún er að flytja til Spánar. Hún átti nokkrar fígúrur á lager og vissi ekki hvað hún átti að gera við þær. Þá komu eigendur Geisla með þá hugmynd að sýna þær í gleraugnaversluninni þar sem þær eru nú bæði til sýnis og sölu. Þetta er önnur sýning Önnu Kristínar en síðasta sumar var hún með sýningu í Kaktus í Listagilinu sem tókst vel. En hvað er Anna Kristín, sem er 57 ára, að fara að gera á Spáni? Ég er bara að fara að lifa lífinu og hafa það næs,” segir Anna Kristín og hlær. Í ljós kemur að eftir að börnin fluttu að heiman og báðir foreldrar hennar féllu frá þá er lítið sem heldur í hana á Akureyri. Fyrir ári síðan fór hún í ferðalag til Spánar til að jafna sig eftir erfiðan tíma í tengslum við fráfall og veikindi foreldra sinna og þá bankaði ástin óvænt upp á. Ég var kynnt fyrir Breta sem búið hefur í Torrevieja í 25 ár. Sameiginleg vinkona okkar beggja kynnti okkur en það fyndna er að hann býr í næstu götu við systur mína sem býr líka þarna í Torrevieja. Svo þetta er bara eins og þetta hafi alltaf átt að verða,” segir Anna Kristín sem reiknar að sjálfsögðu með því að hún muni halda áfram að mála á Spáni, enda búin að pakka niður málningu í þrjá kassa.

Sýningin í gleraugnaversluninni Geisla á Glerártorgi er í fullum gangi og tekur þessi brosandi pappamassakona á móti gestum og gangandi. 


Þjóðlegar fígúrur úr smiðju Önnu Kristínar. Sjá má fleiri verk eftir hana á Facecebooksíðunni Fimm frænkur.