Fara í efni
Mannlíf

Skál fyrir Vésteini er jólalag Rásar 2

Mynd af vef RÚV.

Skál fyrir Vésteini – og skál fyrir Jesú, það eru að koma jól!

Úrslit voru í dag kunngjörð í jólalagakeppni Rásar 2 og sigurvegari í ár er Akureyringurinn Andrés Vilhjálmsson; Addison Villa eins og hann kallar sig stundum þegar tónlistin er annars vegar. Lagið – Skál fyrir Vésteini – er einmitt að finna á Spotify undir því nafni. 

Gígja Hólmgeirsdóttir tók á móti Andrési í hljóðstofu Rásar 2 á Akureyri í dag, Siggi Gunars (enn einn Akureyringurinn) og Lovísa Rut voru í hljóðstofu í Reykjavík og úr varð líflegt og skemmtilegt spjall.

Aldrei komið fram ... Jólagestir Björgvins!

Andrés viðurkennir að hann hafi ekki verið sigurviss og það komi honum skemmtilega á óvart að vera valinn. „Mér fannst ekki líklegt að þetta færi alla leið. Ótrúlega skemmtilegt,“ er haft eftir honum í frétt á vef RÚV. Talinn var upp fjöldi gjafa sem sigurvegarinn hlýtur en það sem er sennilega flottast af öllu er að Andrés flytur lagið á Jólagestum Björgvins í Laugardalshöll um næstu helgi. Höfundurinn gantaðist með að hann færi úr því að hafa aldrei komið fram yfir á stærsta svið Íslands!

Frændi Andrésar og vinur, Ragnar Hólm Ragnarsson, samdi textann. Kristján Edelstein útsetti og Bryndís Ásmundsdóttir syngur bakraddir.

„Höfundur textans segir að ljóðmælandi lagsins hafi hætt með kærustunni sinni rétt fyrir jólin. Hann situr einn með malt og appelsín og skálar fyrir Vésteini, nýja manninum í lífi sinnar fyrrverandi. Höfundur vill þó ekki halda því fram að textinn sé sannsögulegur eða beinist að neinum ákveðnum Vésteini,“ segir í frétt á vef RÚV í dag.

Andrés afi stofnaði Rás 2

Andrés Vilhjálmsson hefur skemmtilega tengingu við Rás 2 á RÚV:

  • Líkt og Rás 2 er Andrés fertugur á árinu – hann verður nánar tiltekið fertugur á morgun! Rás 2 hóf göngu sína 1. desember, tveimur vikum áður en hann fæddist.
  • Afi hans og nafni, Andrés Björnsson, var útvarpsstjóri þegar Rás 2 var stofnuð Rás 2 fyrir 40 árum. 

„Jólalagakeppni Rásar 2, sem hóf göngu sína árið 2002, er orðinn fastur liður í jólaundirbúningi RÚV,“ segir á vef stofnunarinnar. „Dómnefnd fór í gegnum öll innsend lög í keppnina í ár og valdi fimm þeirra í úrslit. Það var svo í höndum hlustenda að kjósa sitt uppáhalds jólalag. Atkvæði þeirra giltu jafnt á móti dómnefnd. Úrslitin voru tilkynnt í dag, mánudaginn 11. desember, í Popplandi á Rás 2. Kosning fór fram í RÚV Stjörnu appinu.“

Smellið hér til að hlusta á viðtal við Andrés á Rás 2

Smellið hér til að hlusta á lagið á Spotify