Fara í efni
Mannlíf

Sjóræningjadagur í sundskólanum

Gull og gersemar í Glerárlaug á föstudaginn! Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Sundskóli Óðins hefur verið afar vinsæll árum saman og árlegur sjóræningjadagur þykir einn sá allra skemmtilegasti á þeim bænum. Dýrleif Skjóldal hefur staðið við stjórnvölinn í aldarfjórðung; þetta er 25. veturinn sem Dilla veitir skólanum forstöðu.

Börn frá fjögurra til 10 ára læra sundtökin hjá Dillu og hennar fólki. Markmiðið er að krakkarnir verði syntir í keppnisgreinunum fjórum; bringusundi, baksundi, skriðsundi og flugsundi, auk þess að kunna nokkurn veginn að snúa sér við bakkann.

Enn eitt markmiðið með sundskólanum er að kenna börnunum að kafa, og til þess er áreiðanlega engin betri leið en skemmtilegur leikur; til dæmis að kafa eftir gulli og gersemum í Glerárlaug!

Sjóræningjadagurinn var á föstudag, Dilla að sjálfsögðu klædd í samræmi við tilefnið og stemningin í krakkahópnum duldist engum. Það stirndi ekki bara á fjársóðinn heldur skein gleðin úr augum barnanna.