Fara í efni
Mannlíf

„Sjómennskan snýst um liðsheild“

Jóhann Pálsson Rist bátsmaður á Björgu EA 7. Ljósmyndir Samherji/Björn Steinbekk

Jóhann Pálsson Rist bátsmaður á Björgu EA 7 hefur verið sjómaður í rúmlega fjóra áratugi, þar af á nokkrum skipum Samherja í þrjá áratugi. Hann segir að sjómennskan hafi breyst mikið á þessum árum. Sjómennskunni fylgi óhjákvæmilega að vera stundum fjarri fjölskyldu og vinum á gleði- eða sorgarstundum. Viðtal birtist í dag við Jóhann á heimasíðu Samherja og fer það hér á eftir.

Til ellefu þjóðlanda á þremur mánuðum

„Fyrsta plássið mitt var á gömlu Eddunni sem var í millilandasiglingum, aðallega með saltfisk og fiskimjöl. Ég hafði aldrei komið til útlanda en á stuttum tíma náði ég að koma til ellefu landa, sem var auðvitað töluvert ævintýri fyrir ungan strák, þar sem yfirleitt tók nokkra daga að landa í hverri höfn. Þarna kynntist ég sem sagt sjómennskunni, sem varð mitt ævistarf. Ég var aðeins í rúma þrjá mánuði í millilandasiglingunum, munstraði mig þá á Óla Magg EA, sem gerður var út frá Akureyri og var þar í nokkur ár. Síðan lá leiðin þvert yfir landið til Vestmannaeyja þar sem ég var í fjögur örlagarík ár, því þar kynntist ég ungri konu, Brynhildi Margréti Pétursdóttur, sem varð lífsförunautur minn.“

Þrjá áratugi hjá Samherja

„Ég hef verið á Björgu EA 7 frá því skipið kom nýtt til landsins fyrir um fimm árum síðan. Reyndar eru áratugirnir sem ég hef verið á skipum Samherja þrír talsins og ég sé ekki annað fyrir mér en að ljúka ævistarfinu hjá þessu ágæta fyrirtæki, enda samstarfið farsælt í alla staði. Þegar maður lítur til baka hafa orðið gríðarlegar breytingar á sjómennskunni.“

Sami kjarninn

„Við erum nokkrir sem höfum verið hérna frá upphafi en flestir í áhöfninni voru áður á Oddeyrinni EA sem var seld á sínum tíma. Þetta er góður kjarni og við þekkjumst nokkuð vel. Sjómennska er í grunninn hópvinna, þar sem hver og einn þarf að vera klár á sínu hlutverki. Annars eru menn nokkuð fljótir að kynnast, enda nándin óhjákvæmilega ansi mikil á sjónum. Björg er gott skip í alla staði, vel hugsað fyrir öllum þáttum.“

Fjarveran erfið á gleði- og sorgarstundum

Brynhildur Margrét og Jóhann eiga þrjú börn og hann var á sjónum er tvö þeirra komu í heiminn.

„Já, en þetta hefur breyst á undanförnum árum, skilningurinn er víðtækari varðandi frí og svo hefur orðið bylting í fjarskiptamálum. Ég var til dæmis á sjónum þegar fyrsta barnið okkar fæddist. Reyndar ætlaði ég að fara í frí en þar sem síldartúrarnir voru yfirleitt í tvo sólarhringa töldum við óhætt að fara í einn túr til viðbótar, ekki væri von á barninu á þeim tíma. Túrinn varð hins vegar ein vika, aðallega vegna brælu. Skipstjórinn kallaði á mig upp í brú, þar sem tengdapabbi sagði mér frá því að stúlkubarn væri fætt, þá var NMT síminn kominn til sögunnar. Síðan var ég líka á sjónum þegar annar sonur okkar fæddist og auðvitað var það erfitt á vissan hátt. Þetta er einfaldlega fylgifiskur sjómennskunnar, vera fjarri fjölskyldu og vinum á gleðistundum og sömuleiðis sorgarstundum.“

Samviskusemi einkennir góðan sjómann

Jóhann hefur eðli málsins samkvæmt unnið með fjölda sjómanna í gegnum tíðina. Hann er því ekki í vafa um hvað einkenni góðan sjómann.

„Áður fyrr var sagt að sá sem gargaði mest og hæst væri besti sjómaðurinn en það er nú sem betur fer liðin tíð og líklega var þetta meira sagt í gamni en alvöru. Góður sjómaður er samviskusamur og leysir sín hlutverk vel af hendi, enda snýst sjómennskan um liðsheild. Öryggismálin hafa tekið miklum breytingum til hins betra á undanförnum árum, góður sjómaður hugsar mjög um öryggismál og er umhugað um að öll áhöfnin sé meðvituð um mikilvægi þess að allir þættir öryggismála séu í fullkomnu lagi.“

Ferskleikinn í fyrirrúmi

„Kvótakerfið breytti miklu, áður fyrr voru túrarnir á ísfisktogurunum hálfur mánuður til þrjár vikur en núna er algengt að landað sé eftir fimm til sjö sólarhringa. Meðferðin á aflanum er allt önnur og ferskleikinn er í fyrirrúmi. Núna er til dæmis langt liðið á kvótaárið og við þurfum að forðast þorskinn eins og kostur er þar sem veiðiheimildir eru takmarkaðar. Við höfum verið að eltast við ufsa undanfarnar vikur og gengið prýðilega. Veiðarnar snúast líka mikið um jafnt flæði til fiskvinnsluhúsanna. Staðan á mörkuðum, sem sagt eftirspurnin er líka stór liður í þessu öllu saman. Það er himinn og haf á milli veiða þegar ég var að byrja og svo í dag.“

Sjómannadagurinn er dagur fjölskyldunnar

Allur flotinn er í landi á sjómannadaginn. Jóhann segir að áhöfnin geri sér glaðan dag á frídegi sjómanna.

„Áhöfnin fer saman út að borða og sjálfsagt gerum við líka eitthvað annað skemmtilegt í tilefni dagsins. Annars er þetta fyrst og fremst dagur fjölskyldunnar. Sjómannadagurinn minnir líka þjóðina alla á mikilvægi sjávarútvegsins og ég neita því ekki að maður er alltaf svolítið stoltari á þessum degi,“ segir Jóhann Pálsson Rist bátsmaður á Björgu EA 7.

Einar Kristinn Kristgeirsson 2. stýrimaður og Jóhann fara yfir öryggismál.

Björg EA á Vestfjarðamiðum í síðustu viku.