Fara í efni
Mannlíf

Sigrún hætti „með sorg í hjarta“

Sigrún Steinarsdóttir ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, þegar hún var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní. Mynd: Forsetaembættið.

„Með sorg í hjarta hef ég ákveðið að hætta með Matargjafir Akureyri og nágrenni þann 1. maí 2024.“

Þannig byrjar stuttur pistill sem Sigrún Steinarsdóttir setti inn á Facebook-síðu matargjafanna þann 13. apríl. Eftir meira en níu ára þrotlausa baráttu fannst Sigrúnu nóg komið. Álagið af því að sinna þessu ein síðustu árin var einfaldlega orðið of mikið. En hún getur þó ekki hugsað sér að þetta starf falli alveg niður og hætti. Hún vinnur að því að finna starfseminni áframhaldandi farveg því þörfin er áfram til staðar þó matarkassinn sé farinn og Sigrún hætt að útdeila Bónuskortum og fleiru.

Sigrún er ákveðin að leyfa öðrum að læra af sinni reynslu og segir að það gangi ekki að reka svona starfsemi frá heimili.

  • Þetta er fyrri hluti viðtals Akureyri.net við Sigrúnu. Síðari hlutinn birtist á morgun.  

Byrjuðu í ágúst 2014

Sigrún var ekki sjálf upphafsmanneskjan að Matargjöfunum heldur var það Sunna Ósk Jakobsdóttir sem kom Matargjöfum á Akureyri og nágrenni á fót í ágúst 2014 og leitaði til Sigrúnar um að starfa með henni að þessu verkefni, sem þær áttuðu sig á síðar að var mun umfangsmeira og stærra en þær gerðu sér grein fyrir í upphafi. 


Sigrún ásamt forsetahjónunum og þeim sem hlutu heiðursviðurkenningu hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum 17. júní. Mynd: Forsetaembættið.

Ástæðan fyrir því að Sunna fór af stað var að það vantaði fleiri úrræði á þessu sviði hér á Akureyri. Þær byrjuðu aðallega með mat, sáu um innkaup og tóku til í poka sem fólk fékk svo afhenta hjá þeim. Sigrún segir starfið hafa byrjað frekar hægt.

Saman héldu þær þessu góðgerðarstarfi úti þar til Sunna flutti suður fyrir um þremur árum og upp frá því var Sigrún ein með þetta risavaxna verkefni á herðunum. Sigrún var þann 17. júní sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu ásamt 15 öðrum við hátíðlega athöfn að Bessastöðum. Í tilkynningu forsetaembættisins um veitingu heiðursviðurkenninga er hún sögð stofnandi Matargjafanna, en nákvæmara er að nefna Sunnu Ósk sem stofnanda þó Sigrún hafi komið inn í starfið strax í upphafi.

Höfðu báðar þurft að leita sér aðstoðar

En voru einhverjar breytingar í þjóðfélaginu sem kölluðu á þetta akkúrat á þeim tíma sem þær byrjuðu?

„Nei, í rauninni ekki. Þetta var aðallega gert vegna þess að við báðar höfðum lent í þessari aðstöðu, að þurfa að leita okkur hjálpar,“ segir Sigrún. „Okkur fannst kerfið ekki taka nógu vel utan um það. Þetta var þannig að þú þurftir að bíða í röð á einhverjum ákveðnum dögum þegar úthlutunin var. Fólki fannst skammarlegt að sækja sér aðstoð þar sem aðrir sáu það.“

Fyrsta matarmyndin sem birt var á Facebook-síðunni Matargjafir á Akureyri og nágrenni. 

Einmitt þessi hlið var eitthvað sem þær unnu skipulega í að breyta, að fólk gæti sótt sér aðstoð án þess að aðrir þyrftu að vita af því og án þess að eiga á hættu að rekast þar á aðra sem voru í sömu erindagjörðum. Afhending á mat var skipulögð þannig að fólk fékk úthlutaðan tíma til að koma og sækja sitt og þá var enginn annar að koma á sama tíma.

„Þannig að við ákváðum að hafa þetta frá upphafi svolítið öðruvísi, þetta yrði þannig að enginn myndi sjá þig, af því að skömmin er svakalega mikil hjá fólki. Þetta varð einstaklingsbundnara. Það var enginn sem gat séð að þú varst að sækja mat.“

Stoltið þvælist fyrir

Eins og áður sagði þekktu þær Sigrún og Sunna þessa stöðu af eigin raun.

„Ég var ein með tvo stráka og stoltið var það mikið að ég bað ekki um aðstoð. Það var ekki fyrr en frænka mín fór í mæðrastyrksnefnd og Jóna Berta heitin lét hana hafa mat fyrir jólin til að færa mér. Þannig að þarna var stoltið að þvælast fyrir mér.“

Sigrún segir marga vera í svipaðri stöðu því það sé erfitt að biðja um aðstoð. „Já, það eru margir sem biðja ekki um aðstoð heldur eru aðrir að benda á fólk sem þarf aðstoð. Ég fæ ábendingar um fjölskyldu í vanda og oft hef ég bara stungið Bónuskorti inn um lúguna hjá fólki. Við vitum að það eru ekkert allir sem geta sótt um aðstoð, skömmin er of mikil.“

Vissu ekki hvað þær fóru út í

Undirbúningur að verkefninu var í raun ekki flókinn og þær Sunna Ósk og Sigrún renndu eiginlega blint í sjóinn.

„Í rauninni. Við vissum ekkert út í hvað við vorum að fara, ekki þannig. Við vildum hafa þetta öðruvísi, hafa þetta aðgengilegra. Svo varð þetta bara meira og meira með árunum, en við héldum því samt alltaf þannig, að þetta væri á einstaklingsgrunni, bæði hjá þeim sem voru að sækja sér aðstoð og þeim sem voru að gefa.“


Það kennir ýmissa grasa þegar myndasafn Matargjafanna á Facebook er skoðað. 

Starfsemin þróaðist svo með árunum og breyttist. „Þetta þróaðist þannig að þetta var orðið svo mikið. Við vorum að fara að versla í Bónus og einhvers staðar, taka til í poka, og það var orðin svo mikil vinna þannig að við ákváðum að stofna reikning þar sem fólk gat lagt inn á Matargjafir. Svo fórum við út í Bónuskortin og minna í matinn, nema með kistunum,“ segir Sigrún um það hvernig framkvæmdin breyttist með árunum. Hún var til dæmis lengi með kistu undir elhdúsglugganum hjá sér þar sem fólk gat bæði komið með mat og sótt sér eftir því hvað var til. 

Eins og áður kom fram fylgir því skömm hjá mörgum að þurfa að leita sér hjálpar og segir Sigrún suma hafa komið í skjóli nætur til að ná sér í mat úr kistunni, vilji ekki sjást eða vilji ekki biðja um aðstoð, en með kistunni hafi fólk í þeirri stöðu aðgengi að mat. Hún segir hins vegar aldrei hafa komið upp neitt vesen í tengslum við matinn í kistunni, aldrei orðið árekstrar eða leiðindi á milli fólks.

„Við vorum alltaf með þetta þannig að þú hafðir samband, við settum í poka og þú komst og sóttir. Þetta byrjaði þannig og við vorum með það í nokkur ár. Allt í gegnum Facebook.“

  • Á MORGUN Þiggjendur urðu gefendur þegar gæfan leyfði