Fara í efni
Mannlíf

Sífellt fleiri fara út að borða á aðfangadag

Þeim Akureyringum fer fjölgandi sem kjósa að elda ekki hátíðarmat heima og fara frekar út að borða. Ingibjörg veitingastjóri á Múlabergi segir að þeir sem prófi að sleppa eldamennskunni á aðfangadag komi yfirleitt aftur.

Þeim Akureyringum fjölgar stöðugt sem kjósa að fara út að borða á aðfangadag og sleppa þannig við eldamennsku og uppvask á þessum hátíðardegi. Akureyri.net heyrði í veitingastjórum Múlabergs og Aurora en báðir veitingastaðirnir verða opnir á aðfangadag sem og fleiri daga yfir hátíðarnar.

„Á aðfangadag hafa ferðamenn verið í meirihluta en Akureyringum er alltaf að fjölga,“ segir Ingibjörg Bergmann Bragadóttir, veitingastjóri Múlabergs og bætir við að þeir Íslendingar sem komi einu sinni til þeirra á aðfangadag komi yfirleitt aftur. „Það er allt önnur upplifun að fara út að borða á svona degi en á venjulegu föstudagskvöldi. Það eru allir svo glaðir og fínir, og það er svo hátíðlegt yfir öllu. Fólki finnst gott að koma og láta stjana við sig og fá góðan mat, fara síðan heim í hreint hús, þar sem bíður ekkert uppvask og enginn frágangur. Þá er bara farið beint í að opna pakkana. Sérstaklega hef ég heyrt frá einstaklingum sem eru einir eða tveir í heimili, börnin kannski búa erlendis, að þeir nenni ekki miklu umstangi fyrir ekki fleiri hausa. Þá held ég líka að það sé rosalega hollt fyrir okkur að breyta stundum til og prufa eitthvað nýtt. Það er um að gera að hrista aðeins upp í hefðunum því maður er svolítið vanafastur þegar kemur að þessu en svo getur bara vel verið að það sé miklu skemmtilegra og betra að fara út að borða á jólunum en að þræla yfir hamborgarahryggnum allan daginn heima“, segir Ingibjörg.

Jólahlaðborð hefur verið í fullri keyrslu á Múlabergi í nóvember og desember, en milli jóla og nýárs er skipt yfir í hátíðarmatseðla. 

Það er ótrúlega notalegt að fara á veitingastað þar sem maturinn er græjaður fyrir þig, það er séð um uppvaskið og þú getur bara komið og notið í botn í stað þess að vera sveittur frá hádegi heima að elda. 

Hagkvæmara að fara út að borða

Undir þetta tekur Sesselía Agnes Ingvarsdóttir, veitingastjóri Aurora á Berjaya hótelinu. Hún bætir við að það að fara út að borða á þessum hátíðisdögum geti líka hreinlega verið hagkvæmara, ef allt er tekið með í reikninginn. Auk þess sem það er nokkuð víst að ekkert klikkar í matseldinni þegar fagfólk er að störfum.

„Ég er sjálf alin upp við hefðir en eftir að hafa unnið lengi í veitingabransanum hafa þessir dagar verið alls konar hjá mér, en oftast er ég að vinna annað hvort á gamlársdag eða á aðfangadag. Ég hef sjálf farið út að borða þessa daga og mér fannst það mun betra en að vera heima í öllu stressinu að láta allt ganga upp. Það er ótrúlega notalegt að fara á veitingastað þar sem maturinn er græjaður fyrir þig, það er séð um uppvaskið og þú getur bara komið og notið í botn í stað þess að vera sveittur frá hádegi heima að elda.“

Ingibjörg veitingastjóri á Múlabergi (t.v) og Sesselía veitingastjóri á Aurora (t.h) segja að margir kunni virkilega vel að meta það að sleppa við matarstúss og uppvask á aðfangadag og fara frekar út að borða. 

Hátíðarseðlar á Múlabergi og Aurora

Hefð er fyrir því að opið sé á Hótel KEA yfir hátíðarnar og þar með líka á Múlabergi. Hátíðarmatseðill er í gangi á veitingastaðnum dagana 24., 25. og 31. desember sem og 1. janúar(valið stendur milli þriggja rétta á kr. 14.900 eða fjögurra rétta á kr. 16.900 ). Hina dagana milli jóla og nýárs er venjulegur a la carte seðill.

Opið var á Aurora yfir hátíðirnar í fyrsta sinn í fyrra og tókst það svo vel að opið verður aftur í ár. Þar verður boðið upp á hátíðarmatseðill dagana 24., 25. og 31. desember (valið stendur um tveggja rétta máltíð á 8.900 kr., þriggja rétta á 10.900 kr. eða fjögurra rétta á 13.900 kr). Á nýársdag er boðið upp á barseðil með réttum á borð við hamborgara, ostaplatta og klúbbsamloku. „Þetta tókst rosalega vel í fyrra. Við vorum fullsetin bæði 24. og 25. desember og á aðfangadag vorum við með um 40 Íslendinga í mat hjá okkur. Þetta var alls konar fólk, það var mikið um pör og síðan kom fjölskyldufólk með eldri börn. Síðan voru þetta erlendir ferðamenn, bæði einstaklingar og hópar. Miðað við bókanir núna í ár þá erum við að fá mikið af sömu gestum og komu í fyrra, sem er ótrúlega ánægjulegt,“ segir Sesselía.

 Það er um að gera að hrista aðeins upp í hefðunum því maður er svolítið vanafastur þegar kemur að þessu en svo getur bara vel verið að það sé miklu skemmtilegra og betra að fara út að borða á jólunum en að þræla yfir hamborgarahryggnum allan daginn heima


Tveggja rétta hátíðarseðill hjá Aurora er á 8900 kr. og fjögurra rétta á 13.900 kr. Innifalið er kampavínsglas við komu.

Maturinn kláraðist á aðfangadag

Ferðamenn sem gista á Akureyri yfir jól og áramót eru yfirleitt að leita að öðruvísi upplifun og taka því jólin ekki of hátíðlega. „Langflestir ferðamenn eru ekki að taka sínar jólahefðir með í ferðalagið heldur vilja upplifa jólin eins og þau eru hér á Íslandi. Það er mikið spurt út í íslenskar jólahefðir og hvað við gerum á jólunum. Í fyrra fannst mér margir velja að fara í Skógarböðin, fá sér síðan drykk á barnum og koma svo út að borða hjá okkur,“ segir Ingibjörg og bætir við að hátíðarmatseðlar þeirra reyni einmitt að fanga hátíðleikann en á sama tíma sé reynt að gefa ferðamönnunum tækifæri til að smakka eitthvað íslenskt.

Sesselía, veitingastjóri Aurora á Berjaya hótelinu. Eins og sést á þessari mynd er orðin mjög jólalegt á hótelinu.

Talið berst nánar að ferðamennsku á Akureyri á þessum árstíma. Ingibjörgu finnst mikilvægt að ferðamenn séu upplýstir um opnunartíma í bænum yfir hátíðarnar og að aðfangadagur sé aðal jóladagur Íslendinga. „Það hefur komið mörgum í opna skjöldu að veitingastaðir og verslanir séu lokaðar á aðfangadag. Líklega lentum við  verst í því á aðfangadag árið 2020 en þá vorum við eini veitingastaðurinn sem var opinn í bænum. Sjötíu manns áttu bókað hjá okkur en við náðum að koma 90 manns fyrir með öllum takmörkunum því þetta var í covid. Fleira fólk streymdi að en maturinn kláraðist í eldhúsinu svo við höfðum ekkert að bjóða. Fólk var gráti nær því það gat ekkert farið, ekki í neina búð eða á annan veitingastað,“ segir Ingibjörg og bætir við að þetta sé það versta sem hún hafi lent í, að vísa fólki frá á aðfangadag. „Þetta eru erfiðir dagar og ég skil alveg að það virki ekki að allir staðir séu opnir. Starfsfólk vill vera í fríi og það þarf að greiða hærri laun á rauðum dögum, en auðvitað þarf eitthvað að vera opið.“

Sjötíu manns áttu bókað hjá okkur en við náðum að koma 90 manns fyrir með öllum takmörkunum því þetta var í covid. Fleira fólk streymdi að en maturinn kláraðist í eldhúsinu svo við höfðum ekkert að bjóða. Fólk var gráti nær því það gat ekkert farið, ekki í neina búð eða á annan veitingastað.

Skálað í freyðivíni fyrir vakt

Aðspurðar hvort þær verði sjálfar í fríi á aðfangadag þá segir Sesselía og hún verði í fríi. „Ég hef óskað eftir fríi og fékk það og verð á Siglufirði á aðfangadag. Ég er ættuð þaðan og maðurinn minn líka þannig að við ætlum að vera með fjölskyldunni hans.“ Ingibjörg segist hins vegar líklega vera á vaktinni. „Maður veit eiginlega aldrei hvar maður verður fyrr en rétt fyrir jól,  bókunarstaðan getur breyst eða eitthvað komið upp á. Það er ekkert sjálfsagt að kalla fólk út á aðfangadag og sem yfirmaður þá þarf maður alltaf að vera viðbúinn að hoppa inn í. En það er samt alltaf ákveðin stemming að vera að vinna á svona dögum og gestirnir eru sérlega glaðir og þakklátir. Hjá okkur skálar starfsfólkið létt í freyðivíni áður en vaktin byrjar og svo eru allir farnir tiltölulega snemma heim og maður breytir bara sínum jólum samkvæmt því.“

  • Vistit Akureyri hefur tekið saman skjal yfir veitingastaði og aðra þjónustu sem opin er um hátíðirnar. HÉR má sjá skjalið.

Ingibjörg Bergmann Bragadóttir veitingastjóri Múlabergs.