Fara í efni
Mannlíf

Séra Bolli Pétur: Lífskjarninn enn í gildi

Séra Bolli Pétur Bollason í kirkjunni fallegu í Laufási fyrir nokkrum árum, þegar hann þjónaði á heimaslóð. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Með alla þá reynslu sem árið 2020 skilur eftir sig er hægt að horfa til barnsins í Betlehem og hugsa hversu oft fólk reynir að pakka veruleikanum inn í umbúðir, hversu oft reynt sé að afneita bláköldum staðreyndum lífsins og hversu fólk reyni að láta mennskuna og mannlega reynslu ekki hafa áhrif á sig, og brynji sig gegn því öllu.

Þetta segir séra Bolli Pétur Bollason, prestur í Digranes- og Hjallaprestakalli í Kópavogi, sem áður þjónaði á heimaslóð í Laufási við Eyjafjörð, í grein sem hann sendi Akureyri.net.

„Þá knýr þetta barn dyra í sálarlífinu og segir við þig að enn er lífskjarninn í gildi, í allri sinni nekt og umbúðaleysi, og hann vill hreyfa við þér, fullvissa þig um að þú sért enn á lífi,“ segir Bolli.

„Enn er það í gildi að hægt sé að lifa lífinu með öðrum hætti en þeim sem kalla mætti „narcissisma nútímans“, sem hampar í sífellu mikilfengleika og athyglisþörf er yfirgnæfir allt sem heitir samkennd og samúð. Enn er það í gildi að þú getir látið náunga þinn þig varða og það jafnvel með því að halda þig í hæfilegri fjarlægð frá honum. Þar er enn ein hlið lífskjarnans að koma þér á óvart rétt eins og Guð sem sýndi sig síst í almætti, heldur birtist í varnarleysi og vanmætti í lágum stalli í Betlehem. Jesúbarnið kallar okkur öll að þeim stalli og staðfestir fyrir hverju og einu okkar að í samfélagi þar sem samanburðarmenning er rismeiri en góðu hófu gegnir, erum við í grunninn venjulegar manneskjur sem fæðumst og deyjum, og höfum það verkefni á höndum á þeirri lífsleið að sýna samstöðu eins og við gerum þegar við viljum hlúa að velferð barnanna okkar eða vernda viðkvæma hópa gegn drepsótt.“

Grein séra Bolla